29.03.1933
Neðri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

128. mál, eignarnámsheimild á landi við Skerjafjörð

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Frv. þetta flytjum við þm. Reykv. að tilhlutun bæjarstj. Rvíkur. Landið, sem hér um ræðir, er Nauthólsvík, sem nú er eign ensks félags, The Harbours and Piers Association, en félag þetta hefir ekki starfað neitt á þessu svæði um langan tíma. Um landið er það að segja, að víkin virðist afar vel fallin til sjóbaða fyrir bæjarmenn, svo að varla er völ á betra landi til þess. Bæjarbúar almennt óska þess, að þetta gangi í gegn, því að þeir hafa ekki hingað til átt kost á öðru eins, hvað þá betra tækifæri til baðstaðar. Ég mun ekki fjölyrða um þetta, en óska þess, að málinu verði vísað til allshn.