18.03.1933
Efri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Flm. (Ingvar Pálmason):

Í grg. frv. er skýrt frá efni þess, sem er breyt. á tolli á 2 tegundum sjávarútvegsafurða. Að því er snertir tollinn á síldinni, þá er það tekið fram í grg., að á öndverðum þessum vetri, þegar tilraun var gerð til þess að flytja út nýja, ísvarða síld frá Austfjörðum, þá voru l. skilin þannig, að sama toll bæri að greiða af þeirri íssíld eins og saltaðri síld. Ég álít, að ákvæði 1. séu ekki nógu skýr, til þess að hægt sé að færa þessa tegund síldar undir ákvæðið um útflutningstoll af saltsíld, 1½% af verði síldarinnar. Hæstv. stj. sýndi þann velvilja, að hún tilkynnti, að ekki mundi verða krafizt þess útflutningsgjalds án þess að hv. Alþingi ætti kost á að breyta ákvæðunum um, að þessi tegund síldar yrði færð undan þessu ákvæði. Ég vil af þessu mega draga þá ályktun, að hæstv. stj. vilji greiða fyrir frv. að því er þessa gr. snertir.

Til skýringar skal ég ennfremur gefa þær upplýsingar, að þessar tilraunir, sem gerðar voru á öndverðum þessum vetri með útflutning á ísvarinni síld, hafa ekki verið nema ófullkomnar og í smáum stíl. En þær hafa leitt það í ljós, að þessi tegund síldar líkar kaupendum vel að stærð og gæðum, ef hægt er að koma henni óskemmdri á markaðinn. Hinu ber ekki að neita, að á þessum útflutningi síldar í vetur hafa orðið þeir ágallar, að segja má, að ekki hafi tekizt að koma síldinni á markaðinn í því ástandi, sem þurft hefði. Öllu því mest hinar erfiðu samgöngur, sem Austurland á við að búa. Það voru gerðar tilraunir með að koma ísvarinni síld til Englands með togurum, en um árangur þess er ekki fyllilega hægt að dæma, vegna þess að síldin, sem þannig var send, var seld í skip hér við land, og ekki er fullvíst um, hvernig hún seldist, þegar á markaðinn kom.

Önnur tilraun var gerð með skipi, sem flutti út ísvarinn fisk. Það kom til Austfjarða, tók þar nokkuð af ísvarinni síld, fór með hana til Rvíkur og síðan til Englands. 3 vikur liðu frá því er síldin var tekin í skipið og þangað til hún var seld, en samt fengu framleiðendurnir sem svaraði 5 kr. fyrir hverja tunnu. Ég vona, að hv. þdm. sé það ljóst, að það er með öllu fráleitt að skattleggja þessar tilraunir. Vil ég því mega vænta þess, að hv. d. veiti þessu máli stuðning sinn.

Að því er snertir hina vörutegundina, sem er þurrkað fiskmjöl, þá er einnig í grg. getið, hvers vegna það er tekið með í frv.

Því er réttilega haldið mjög á lofti, að okkur Íslendingum ríði mikið á því að auka okkar iðnað. En hér er um að ræða iðnað, þar sem unnið er úr alíslenzku efni, sem hingað til hefir að litlum eða engum notum orðið fyrir eigendurna. En þessum iðnaði fylgir sá stóri annmarki, að til hans þarf að kosta miklum byggingum og dýrum vélum, svo að mikill höfuðstóll verður ávallt bundin í því. Rekstur þesskonar verksmiðja er nokkuð dýr, en mikill hluti hans er vinna. Eftir þeirri litlu þekkingu, sem ég hefi á samskonar fyrirtækjum og þessu, virðist mér framleiðslukostnaður muni vera fyllilega að hálfu leyti vinna.

Þegar þetta tvennt er lagt á metin, það að hér er um að ræða vinnslu úr innlendum hráefnum, sem eru verðlítil eða verðlaus, suma tíma ársins a. m. k., og hitt, að fyllilega helmingur framleiðslukostnaðarins er vinna, þá virðist full ástæða til þess, ef okkur er annars þörf á auknum iðnaði, að ekki sé lagður steinn í götu fyrir þess háttar fyrirtæki. En það má segja, að það sé þó gert með l. um útflutningsgjald af síld o. fl., því að þar er mælt svo fyrir, að tollað sé þurrkað fiskmjöl með 1 kr. gjaldi af tunnu, eða 10 kr. af hverri smálest.

Ég held, að það sé fyllsta sanngirniskrafa, að þessu skuli breytt, og að af þessum afurðum skuli ekki fremur greiða útflutningstoll en af öðrum sjávarafurðum. Það mundi að vísu valda nokkurri tekjurýrnun fyrir ríkissjóð að afnema þennan toll, hve mikilli veit ég ekki, en það mun sjálfsagt upplýsast við umr. um málið í hv. d. En að því er snertir toll af ísvarinni síld, er hér ekki um neina tekjurýrnun að ræða, því að ríkissjóður hefir aldrei haft tekjur af þeim útflutningstolli, af því að þessi vörutegund, ísvarin síld, hefir aldrei áður verið flutt héðan út. Um fiskmjölið er nokkru öðru máli að gegna. Það má vera, að segja megi, að frv. sé borið fram á óhentugum tíma að því leyti, sem það innifelur tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, af því að hann megi einskis í missa á þessum erfiðu tímum. Hér verður þó að leggja aftur á móti sjálfsbjargarviðleitni borgaranna í landinu og þá staðreynd, að það verður skammgóður vermir fyrir ríkissjóðinn, tekjurnar af þessari atvinnugrein, ef hún bráðlega leggst niður, sem allt útlit er fyrir, að muni verða, ef þessum tollum verður ekki af henni létt.

Vona ég, að hæstv. Alþ. sjái ástæðu til að taka málinu vel og láti frv. ná fram að ganga. óska ég svo, að málinu verði, að aflokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.