06.04.1933
Efri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Við 1. umr. þessa frv. gerði ég nokkra grein fyrir helztu ástæðum þess, að það nú kemur fram, og geri ég ráð fyrir, að óþarfi sé að endurtaka það nú. En ég tel rétt, þar sem hér um ræðir mál, er nokkur áhrif hefir á tekjur ríkissjóðs, að fara nokkrum orðum um það út frá því sjónarmiði.

Þá er fyrst frá því að segja, að hvað snertir ákvæði frv. um að færa íslagða síld undan þeim tollalögum, sem á henni hvíla nú, þá hefir það engin áhrif á tekjur ríkissjóðs, af því að af þeim útflutningi hefir ríkissjóður engar tekjur haft hingað til. Ég hefi átt tal við hæstv. forsrh. um þetta atriði, og er hann mér sammála um réttmæti þessarar breyt. Ríkisstj. mun hafa gert þá ráðstöfun síðastl. vetur, að útflutningsgjalds af þessari síld yrði ekki krafizt fyrst um sinn.

Hvað fiskimjölið snertir, þá er líka meiningin að færa það undan þeim háa tolli, sem á því hvílir nú, og undir lægri flokk. Ég hefi reynt að gera mér grein fyrir tekjurýrnun ríkissjóðs af þessum lið, ef frv. yrði að l. Það er að vísu erfitt að gefa upp fastar tölur, því að óvíst er um útflutningsmagn þessarar vöru. En verði þessi breyt. gerð um toll af þurrkuðu fiskmjöli, fer útflutningsgjaldið eftir verði, og verður þá tap ríkissjóðs minna eftir því sem verðið stígur. Ég hefi athugað það eftir síðustu fáanlegu útflutningsskýrslum, sem eru frá 1930, hver þessi munur hefði orðið það ár, með þáv. verði og útflutningsmagni, og mér hefir talizt til, að tekjurýrnun ríkissjóðs á því ári hefði orðið um 24 þús. kr. Allar tekjurnar af þessum lið námu 50 þús. kr., og sé reiknað með því, að greiddur hefði verið 1½% af söluverði með þáverandi verðlagi, hefði mismunurinn orðið þetta, sem ég nefndi, 24 þús. kr. Hinsvegar hefi ég reynt að gera mér grein fyrir því, hvað tekjurýrnun ríkissjóðs hefði orðið mikil síðastl. ár af þessum lið, og taldist það vera 34 þús. kr. Ég tel rétt að taka þetta fram hv. þm. til athugunar. En þó að ríkissjóður verði af þessum tekjum, þá fara þær samt ekki forgörðum. Þessi hagnaður rynni þá til þeirra fyrirtækja, sem nú reka þessa framleiðslu og berjast nú mjög í bökkum víðast hvar. Og þegar litið er á það, að verulegur hluti framleiðslukostnaðarins er vinnulaun — það mun vera um 58% af öllum framleiðslukostnaðinum —, þá er ekki eins mikil ástæða til þess að horfa í tekjurýrnun ríkissjóðs hvað þetta snertir. Sú tekjurýrnun verður að ágóða þörfum fyrirtækjum, sem veita fjölda fólks atvinnu, og verður því þjóðarheildinni til gagns.

N. hefir öll fallizt á að mæla með þessu frv. En eins og hv. þm. munu taka eftir, er í fyrirsögn frv. vísað til 1. nr. 60 frá 27. júní 1921, en við nánari athugun taldi n. réttara að vísa til l. nr. 15 frá 14. júní 1929, sem er breyt. á l. frá 1921. Það er svo með þessi 1., að 1. frá 1921 eru í gildi, að viðbættum þeim breyt., sem 1. frá 1929 gera á þeim. Og sé flett upp í 1. frá 1921, geta þær breyt., sem hér um ræðir, ekki passað inn í þau, af því að aðrar breyt. eru komnar á milli. Að þetta fór svona í smiðum, kemur til af því, að þetta frv. er samið með hliðsjón af l. um útflutningsgjald af síld, sem prentuð eru í nýútkominni lögbók. En þau 1., sem tekið hafa breyt., eru samandregin í lögbókinni, svo að þar standa öll þau l., sem nú eru gildandi um hvað eina fyrir sig. Þetta þarf að athuga, þegar samin eru frv. um breyt. á l. með stuðningi lögbókarinnar. Þessi brtt. er því réttmæt og til bóta, og leggur n. til, að frv. verði samþ. með þessari einu breyt. — Út af því, sem ég sagði um undirtektir hæstv. fjmrh. hvað snertir síldarútflutningsgjaldið, þá vil ég taka það fram, af því að hæstv. ráðh. er ekki hér í d. nú, að hann tók ekki eins vel undir þau atriði, er fiskmjölið snerti.