31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög 1934

Halldór Stefánsson:

Ég ætla mér ekki að fara út í neinar almennar umr. um fjárl. að þessu sinni, enda er nú mjög fámennt í d. En ég ætla að snúa máli mínu til hv. frsm. n., og vildi óska eftir því, að hann hlýddi á mál mitt. Auðséð er, að stj. hefir miðað mjög við það erfiða ástand, sem nú ríkir, er hún samdi fjárlagafrv. sitt, og hv. fjvn. hefir fylgt sömu aðferð. Ég hlýt að fallast á, að ekki er hægt að miða við annað en núv. ástand, og því verði till. um umbætur á landshögum færri og smærri en venja er til.

Till. þær, sem ég nú ber fram, eru allar brtt. við 13. gr. fjárl., um styrk til nýbygginga þjóðvega. Í frv. stj. eru ætlaðar 162000 kr. til þessa starfa, og er það miklu minna en þyrfti að vera. Af þessu fé er svo 1/4 hluti veittur til eins fjallvegar á Norðurlandi, og má þá verða auðskilið, að ekki er mikið til skipta fyrir alla hina staðina, þar sem þörfin er brýn. N. fer nokkru lengra, og nema viðbætur hennar 25000 kr. Ef till. n. yrðu allar samþ., væri veitt alls á þessum lið 187000 kr. N. gerir þannig grein fyrir þessum hækkunartill., að þær séu auðvitað fyrst og fremst ætlaðar til umbóta á vegum, en svo líka sem atvinnubótavinna fyrir þau sveitarfélög, sem þessir vegir eru i. Á þessa síðari ástæðu fellst ég algerlega, það er sannarlega ekki vanþörf á því að reyna að örva svolítið atvinnulífið í landinu.

Á þskj. 296 eru ýmsar hækkunartill. frá einstökum þm. við þennan lið, nýbyggingar þjóðvega. Þær nema alls 37-39 þús. kr. Ef þær ná allar samþykki, yrði framlagið til nýbygginga þjóðvega alls um 244000 kr. og þessi upphæð getur hreint ekki talizt of mikil til þessara framkvæmda, því að hún er mun minni en oft hefir verið ákveðið áður, sérstaklega ef litið er á þá ástæðu hv. n., að þetta fé heri að skoða sem nokkurskonar útgjöld til atvinnubóta.

Till. mínar snerta allar þjóðvegi á Austurlandi. Ef athugaðar eru till. frv., sem byggðar munu vera á till. vegamálastjóra, þá sést, að vegum á Austurlandi hefir mjög lítill sómi verið sýndur, og kemur það ef til vill af ókunnugleik viðkomandi yfirvalda á staðháttum þar. Hv. n. hefir bætt nokkuð úr þessu, en þó ekki svo, að við megi una. Ég ber því fram till. um þjóðvegi á tveimur stöðum á Austurlandi, þar sem áður hefir verið unnið talsvert, en það eru Vopnafjarðarvegur og Úthéraðsvegur. Að báðum þessum vegum hefir verið unnið árlega nú um alllangt skeið, í þeirri föstu von, að frekar væri von á opinberum styrk til veganna, ef sýndur væri einlægur vilji til þess að hrinda verkinu í framkvæmd. Og ég fer ekki fram á neinar stórupphæðir til þessara vega, 6000 kr. til hvors. Þessir vegir eru báðir í byggðum, og þegar þeir eru fullgerðir, tengja þeir mikinn hluta sveitanna við sinn eðlilega hafnarstað.

Þá ber ég fram till. um að hækka framlag til tveggja vega úr 4000 kr. upp í 6000 kr. Annað er Bakkafjarðarvegur, sem áður hefir verið unnið að, og hitt Jökulsárhlíðarvegur, sem lengi hefir verið unnið að. Ég vil vonast til þess, af því að þessar till. mínar eru svo litlar og sanngjarnar, að hv. n. og eins hv. d. sjái ekki ástæðu til þess að bregða fyrir þær fæti.