09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég kann ekki við, að menn tali um þetta mál eins og fjhn. sé öll sammála um málið. Ég gerði við 2. umr. þessa máls grein fyrir afstöðu minni til málsins, að ég hélt allrækilega, og sú grg. bar með sér, að ég er á öndverðum meið við meðnm. mína um þetta mál. Ég hirði ekki um að fara að endurtaka þau rök, sem ég þá færði fyrir því, að mín afstaða til málsins væri rétt, en afstaða meiri hl. n. væri röng, enda geri ég ekki ráð fyrir, að það ráði neinum úrslitum á þessu máli að fara að tvítaka þau rök. Ég get einungis um það og legg áherzlu á, að það, sem okkur ber á milli, er það, að meiri hl. telur, að heppilegra sé að ráða bót á því meini, sem báðir viðurkenna, að sé fyrir hendi, með því að leggja skatt á hausa og bein, til þess á þennan hátt að hindra útflutning þeirrar vöru í því skyni, að hún verði unnin í hinum innlendu verksmiðjum. Ég tel eðlilegu og réttu leiðina vera þá, að láta útflutningsgjaldið af hausum og beinum nú haldast, en lækka útflutningsgjald hinnar unnu vöru, fiskmjölsins til þess að á þennan hátt mætti gera jafnari aðstöðu hinna innlendu vinnslustöðva. Meginástæðan fyrir þeirri till. minni er sú, að innlendir framleiðendur selja þessa vöru að nokkrum hluta erlendum kaupmönnum, vegna þess að erlendir kaupmenn bjóða betur, en ég vil ekki fáum verksmiðjueigendum til framdráttar skerða hlut hinna mörgu smáu framleiðenda. Ég vil segja frá því, að í n. var þetta mál til athugunar milli 2. og 3. umr., og kom þá fram sú upplýsing frá frsm. meiri hl., að þessi sala til útlendinga færi fram af því, ef svo mætti segja, að viðskiptin héldust í gömlum farvegi, en ekki af því, að erlendir menn byðu betur fyrir vöruna. Ég sagði, að ef þetta ætti við rök að styðjast, myndi það valda því, að ég breytti minni afstöðu til málsins; en ég hygg, að það megi segja með fullri vissu, að ástæðan til þess, að erlendir menn fá þessa vöru, er ekki þessi, heldur hin, að þeir borga hana hærra verði en innlendu verksmiðjurnar. Ég legg til, að brtt. frá meiri hl. fjhn. verði felldar: einnig leyfi ég mér að leggja til, að hv. þm. Vestm. taki aftur sínar brtt. Verði þær samþ., er frv. þar með spillt. Verði frv. samþ. óbreytt, er það það, sem hann vill helzt. Fari það svo, að brtt. meiri hl. n. verði samþ., mættu brtt. hv. þm. koma fyrir á eftir, ef það er samrímanlegt þingsköpum, sem ég skal ekki um segja, en ef svo er, þá vildi ég, að þær yrðu teknar aftur, og mætti bera þær fram í Ed., því þangað fer frv., ef á því verða gerðar breyt. Ég vænti, að mönnum sé ljóst, að þeir, sem ekki vilja skerða hlut smáútvegsmanna, þeir eiga að fella brtt. meiri hl., en samþ. frv. óbreytt.