09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. G.-K. lagði fyrir mig þá spurningu, hvernig á því stæði, að óunninn fiskúrgangur væri að töluvert miklu leyti fluttur út úr landinu. Þessu hefir af sumum verið svarað á þann veg, að verzlunin á þessari úrgangsvöru muni falla eftir gömlum farveg, og þó að aðstaðan yrði jöfnuð á milli fiskmjölsins og úrgangsins úr fiskinum, þá mundi samt verða haldið áfram að flytja hann út til sölu. Þetta hefir verið sagt af sumum hv. þdm., sem þó eru andstæðir brtt. hv. meiri hl. fjhn.

En á því, sem mér virðist vera um deilt í þessu máli, tel ég að megi fá úrlausn til samkomulags, með því, ef hv. fjhn. leyfir það, að till. hennar sé borin upp í tveimur liðum. Og þá vil ég mæla með því, að fyrri liður till. verði samþ., svo að það haldist óbreytt, sem nú er í lögunum. En viðvíkjandi síðari liðnum get ég sagt það, að mér er ekkert kappsmál að hækka tollinn á þurrkuðum fiskúrgangi og get gefið það eftir, að hann haldist óbreyttur. Hv. þdm. geta svo ráðið það við sig, hvort heldur þeir aðhyllast viðvíkjandi síðari liðnum, að hækka tollinn á fiskúrganginum eða hafa hann óbreyttan. Ég hefi heyrt suma af andstæðingum þessarar till. halda því fram, að fiskmjölsverksmiðjurnar hér á landi væru að talsverðu leyti eign erlendra manna og þess vegna væri ekki sérstaklega nauðsynlegt að hlynna að þeim með því að hækka tollinn á fiskúrgangi. En hvað sem því líður, þá ætlast ég til, að þetta tilboð standi til fátækra fiskimanna, er selja óunninn fiskúrgang, og vonast ég til, að hæstv. forseti beri till. upp í tvennu lagi.

Hv. þm. Vestm. var að tala um útflutningsgjaldið af landbúnaðarafurðum og hélt því fram, að ef það yrði fellt niður, þá ætti einnig að fella niður þetta útflutningsgjald af fiskafurðum. Ég veit ekki, hvað þessi streita á að verða öflug milli þessara aðalatvinnuvega hér í þd. En ég get sagt það fyrir mitt leyti sem fjmrh., að ég vil láta útflutningsgjaldið standa bæði á landbúnaðar- og sjávarafurðum, þeim sem hér um ræðir. Það munar ríkissjóð a. m. k. um 200 þús. kr. árlega, og ég geri ráð fyrir, að það mundi heyrast hljóð úr einhverju horni, ef þeirri upphæð væri bætt ofan á þá „skattavitfirringu“, sem svo mikið er nú umtöluð þessa dagana í blöðunum og manna á meðal.

Ég hygg ennfremur, að hv. þm. Vestm. og fleiri þdm. mundu fá litla áheyrn hjá þingi og stjórn við þeim kröfum, sem þeir bera fram fyrir sín kjördæmi, ef skattarnir verða ekkert hækkaðir. Annars er það alveg einstakt að kalla má, hvað skattar til ríkissjóðs hafa lítið verið hækkaðir hér á landi síðan kreppan fór að gera vart við sig. Hækkunin hefir verið svo hverfandi lítil, að slíkt þekkist ekki í neinu öðru landi í Evrópu. Nú er gert ráð fyrir, að ríkið leggi talsvert fé af mörkum til ýmiskonar ráðstafana gegn afleiðingum kreppunnar, og það dregur sannarlega ekki úr þörf ríkissjóðs fyrir aukna skatta. Hefði fyrr mátt vænta þess, að hert væri á skattaskrúfunni hér á landi en raun er á orðin, fyrst og fremst til þess að bæta upp þá tekjurýrnun, sem ríkissjóður hefir orðið fyrir vegna þverrandi tekjustofna í kreppunni.