09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Frsm. (Hannes Jónsson):

Skýzt þó skýrir séu, má segja um þá hv. þm. G.-K. og hv. þm. Vestm. Þeir virðast ekki hafa athugað, hversu náið samband er á milli beggja þessara frv., sem eru 4. og 5. mál á dagskránni. Samkv. báðum þessum frv. eru útfluttar vörutegundir færðar á milli tollflokka. Í fyrra frv. eru taldar upp þær vörur, sem heyra undir 1½% útflutningsgjald, og eins og frv. kom frá Ed. er fiskmjöl þar komið inn undir 1½% verðtollinn, og einnig síldarmjöl, en eftir brtt. meiri hl. fjhn. við það frv. er fóðurmjölið fellt úr frv., og þar með út úr þessum tollflokki. (ÓTh: Var það þetta, sem þið voruð að leyna mig?). Það var engu að leyna. (ÓTh: Ég spurði bæði form. og frsm. n. eftir þessu, og hafi þeir leynt því vísvitandi, þá er það meiri ósvífni en ég hefi þekkt í nefndarstörfum). Ég skal fúslega játa það, að ég get ekki verið fullviss um hvort hv. þm. G.-K. les þingskj. venjulega eða ekki, og þess vegna get ég enga ábyrgð borið á því. Ef hv. þm. getur ekki skilið, hvernig í málunum liggur, þá verður hann eingöngu að ásaka sjálfan sig fyrir það. Ég finn ekki, að mér beri skylda til að leiðbeina honum svo, að hann geti greitt atkv. í samræmi við sjálfan sig.

Í síðara frv., því sem hér liggur nú fyrir, eru taldar þær vörutegundir, sem heyra undir hærri toll til útflutnings. Og ef frv. verður samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed., verður afleiðingin sú, að fiskmjölið fellur undan öllu útflutningsgjaldi. Og úr því að þessir hv. þm. fylgdust ekki betur með fyrra frv., þá verða þeir að sætta sig við að láta bæði frv. ganga aftur til Ed. og vinna að því, að þau geti bæði hlotið þar þá úrlausn, sem leiðir til fullkomins samræmis á milli þeirra. En eins og málin horfa nú við, sé ég enga leið til þess fyrir hv. þdm.samþ. frv. óbreytt frá Ed., enda mundi það ekki verða talið skammlaust fyrir þessa hv. þd.afgr. málið frá sér í slíkum viðrinisbúningi.