09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Heyr á endemi, verður mér að orði, þegar hv. þm. V.-Húnv. þykist vera að gera sig breiðan í þessu máli, því að það litla, sem hann veit um og skilur í þessu máli, hefir hann frá mér. Hann sat sofandi yfir þessu frv. í fjhn., svo vantaði mig á einn nefndarfund, og þá var það afgr. frá n. í hinu mesta öngþveiti. Mig rámar eitthvað í, að það bærist í tal á fundi fjhn. fyrir hálfum mánuði síðan um sambandið á milli þessara tveggja frv. um breyt. á 1. um útflutningsgjald, sem hér eru talin 4. og 5. mál á dagskránni. Svo fór ég áðan til form. og frsm. n. og spurði þá enn eftir þessu, hvert samband væri á milli þessara brtt. fjhn. við bæði frv. En þeir sögðu, að þar byggi ekkert undir. Það er nú augljóst, að þeir hafa sagt mér ósatt. Og svo kemur hv. frsm. á eftir með ógurlegum rosta og rembingi út af því, að ég skuli ekkert vita um það, sem fram hafi farið í n., og skuli ekki vilja hlíta hans forsjá í þessu máli. En úr því að ég sýndi hv. frsm. þann sóma að spyrja hann um sambandið á milli þessara tveggja frv., og hann svaraði því ekki, þá er mér næst að halda, að hann hafi ekkert um það vitað, eða a. m. k. ekkert munað eftir því í svipinn. En þegar hv. þm. fór að kynna sér málið, sótti lagasafnið og leitaði í því, og fór því næst til form. fjhn., er mun hafa gefið honum þessar upplýsingar, sem hv. frsm. var að flagga með áðan og hreykja sér af, þá vona ég, að hv. þdm. sjái, að þessi framkoma hans er á allan hátt óverjandi og að þessi aðferð hv. meiri hl. fjhn. til þess að fá tollinn hækkaðan á þurrkuðum fiskúrgangi er ekkert annað en ránsferð á hendur þeim atvinnurekendum við sjóinn, sem stunda smáútveg.

Þó að það kunni að þykja vansmíði á þessu frv., ef það verður samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed., þá er engin þörf á að hlíta forsjá hv. frsm. um lagfæring. Ef ástæða þykir til, þá má búa þannig um, að hitt frv. verði lagfært í Ed., þannig að fiskmjölinu verði aftur komið undir tolllögin, á sama hátt og verið hefir.

Hæstv. forsrh. var að bjóða þá sættargerð í þessu máli, að tollurinn skyldi haldast óbreyttur á fiskmjölinu, en að tollur skyldi aftur á móti ekki verða hækkaður á þurrkuðum fiskhausum og beinum. Þetta er að vísu talsvert skárra. En tilgangur frv. eins og það kom frá Ed. er fyrst og fremst sá, að styðja fiskmjölsiðnaðinn í landinu, og hinsvegar að ná þeim tilgangi án þess að íþyngja smáútvegsmönnum, sem hafa fiskúrgang til sölu. Ég álít, að hvorttveggja sé lofsvert. En ef gengið verður að þessu tilboði hæstv. ráðh., að útflutningsgjaldið haldist óbreytt á fiskmjölinu, þá nýtur þessi innlenda iðngrein eigi nauðsynlegrar verndar. Ég álít, að það sé alveg rétt að hlynna talsvert að þessum atvinnurekstri, en hinsvegar er það óséð, hvort niðurfelling á þessum tolli veldur ríkissjóði verulegu tapi. Það getur enginn upplýst með vissu, hvað ríkissjóður fær í toll af innfluttum vörum og tækjum, sem notuð eru til þess að vinna úr beinunum í verksmiðjunum og breyta þeim í mjöl, auk þeirra tekna, sem fást vegna þeirrar atvinnu, sem þessi iðnaður veitir verkafólki í landinu.

Ég endurtek það, sem ég áður sagði, að þeir hv. þdm., sem ekki vilja fara ránshendi um hinar galtómu fjárhirzlur smáútgerðarmanna og vilja styðja að auknum atvinnurekstri í landinu, eiga að samþ. þetta frv. óbreytt eins og það kom frá Ed. Ekki sízt þegar hv. þdm. ætla samtímis að veita bændum 12 millj. kr. til kreppuráðstafana.