09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Vestm. getur verið viss um það, að kjördæmi hans verður ekki látið gjalda þess, þó að hann hafi nú tekið þessa afstöðu í máli því, sem hér liggur fyrir. En það er alveg óhjákvæmilegt, þegar verið er að biðja um tollaívilnanir á einstökum vörutegundum, að þá er ekki hægt að standa á móti öllum tollahækkunum á öðrum vöruflokkum.

Vestmannaeyjar eru mesti myndarstaður, en ríkið hefir oft hlaupið undir baggann í málum þeirra og sýnt mikla linkind um greiðslu á skuldum bæjarfélagsins við ríkissjóð, sem stundum hefir staðið styrr um, og verður þó líklega að gera meira að því síðar. En það kemur ekki þessu máli við.

Hv. þm. Vestm. lét þess getið, að með afstöðu hv. þdm. í þessu máli sýndu þeir hugarfar sitt til sjávarútvegsins. Þetta nær ekki nokkurri átt. Það er allt of mikið gert úr þessu máli hér í umr. Hér er um að ræða eina af smærri iðngreinum sjávarútvegsins, og virðist ekki ástæða til að taka hana út úr og fella niður útflutningsgjald af fiskmjöli einu út af fyrir sig. Þessi krafa um afnám á útflutningsgjaldi á þeirri vöru á ekki meiri rétt á sér heldur en margar aðrar kröfur um tollalækkun á sjávarafurðum, sem ekki eru teknar til greina. Vitanlega er alltaf hægt að hrópa til þeirra, sem vilja halda þessum sköttum, að þeir séu allir fjandmenn sjávarútvegsins, og hið sama verður náttúrlega einnig sagt um hina, sem ekki vilja fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, að þeir séu allir fjandmenn landbúnaðarins. Vitanlega koma þessi hróp sitt úr hvorri áttinni, ef hvorugt af þessum útflutningsgjöldum verður afnumið. Ég held, að á þessum tímum sé bezt að sleppa slíkum stóryrðum sem þessum og hreyfa ekki við þessum tekjustofnum ríkissjóðs, sem hefir svo miklum og auknum þörfum að gegna, enda mun ég leggja á móti því, að hreyft verði við útflutningsgjaldi af landbúnaðarafurðum, þegar það frv. kemur frá fjhn.

Um sjávarútveginn er það að segja, að hann hefir alltaf notið sæmilegrar aðstöðu hér á Alþingi og býr nú við sömu skattalög og verið hefir, meðan ég hefi átt sæti á þingi. Þetta ranglæti, sem sumir hv. þdm. nefna svo, er því ekki nýtt í sögunni. Og svo kemur þessi till. um afnám á útflutningsgjaldi fram, þegar engir möguleikar eru fyrir hendi til þess að lækka tekjur ríkissjóðs. En hitt er þó merkilegra, að við, sem erum till. andvígir og höfum borið hér fram aths. út af henni, ertum allir kallaðir fjandmenn sjávarútvegsins.