09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Frsm. (Hannes Jónsson):

Mér þótti hv. þm. G.-K. heldur gustillur í ræðu sinni áðan. Hann ber á mig svo að segja alla þá lesti og fávísi, sem óprýða mega einn mann, og hélt því fram, að ég hefði frá sér allt það, sem ég vissi í þessu máli. Eftir því að dæma virðist hann hafa gertæmzt svo sjálfur af fróðleik til mín, að hann veit nú hvorki upp né niður í málinu. Hann veit ekkert um efni þess frv., sem afgr. var hér áðan, næst á undan þessu máli. Hann veit ekkert — eða læzt ekkert vita — um samband þess við það frv., sem nú er til umr. Hann skilur það ekki, að brtt. meiri hl. n. er fram komin til þess að setja inn í þetta frv. það ákvæði, sem fellt var úr hinu. Ef hv. þm. hefir ekki verið að gera að gamni sínu með þessum fávitalátum, þá bendir þessi framkoma til þess, að hann sé farinn að delera. Og þá er vel, að við höfum landlækninn hér viðstaddan í d., ef hv. þm. G.-K. kynni að fá aftur annað verra kast undir þessum umr. Ég vona, að hv. þd. líti í náð sinni til þessa hrjáða þm., sem hefir nú hlaupið svo herfilega á sig í þessu máli, af því að ég gætti þessi ekki að leiðbeina honum við afgreiðslu fyrra frv., og vona ég, að d. bæti úr því og mildi mistök hans, með því að samþ. brtt. meiri hl. n. og samræma frumvörpin. Þessi frv. verða ekki afgr. forsvaranlega á annan hátt.

Ég held, að hv. þm. Vestm. hafi orðið mismæli, þegar hann var að tala um ofsa minn í umr. Hann hefir þar hlotið að eiga við hv. frsm. minni hl., en ekki meiri hl. n. Ég þykist hafa verið siðprúður í þessum umr., og ef eitthvað ásökunarvert hefir fram komið, þá er það af hálfu hv. frsm. minni hl. Eftir afgreiðslu fyrra frv. lýsti ég greinilega sambandinu á milli þessara tveggja frv., þannig að hv. þm. var vorkunnarlaust að vita, hvað í þeim fólst. Annars er það heldur hjákátlegt af hv. þm. G.-K. að halda því fram og telja öðrum trú um, að ég hafi verið sofandi á fjhn.-fundum og að ég hafi fengið allar upplýsingar frá honum í þessu máli. En svo kemur það í ljós, að hann hefir sjálfur hlaupið svo herfilega á sig við afgreiðslu fyrra frv., og verið svo utan við sig, að það er algerlega í ósamræmi við það, sem hér liggur fyrir. Það þarf áreiðanlega önnur rök en fram hafa komið frá hv. þm. G.-K. til þess að ætla hv. þd.samþ. þetta frv. óbreytt eins og það kom frá Ed. Og afleiðing þess yrði þá vitanlega engin önnur en sú, að Ed. yrði að samræma þessi frv. aftur.

Það var aldrei tilgangur hv. flm. eða Ed. með þessu frv. að afnema algerlega útflutningsgjaldið af fiskmjölinu; og ef hv. d. vill komast hjá því og hafa fullkomið samræmi í þessum tollalögum, þá getur hún það aðeins á þann hátt að samþ. brtt. meiri hl. n.

Ef hv. þm. G.-K. kynni að fá eitt deliriumkast enn, þá mun ég reyna að gefa honum einn skammt síðar.