31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

1. mál, fjárlög 1934

Sveinn Ólafsson:

Umr. hafa að þessu sinni farið hóflega fram og ólíkt spaklegar en oft hefir áður verið við 2. umr. fjárl., þegar kalla má, að stundum hafi verið fullkominn eldhúsdagur haldinn yfir hv. fjvn. Ég ætla ekki að fara að deila á hv. fjvn. fyrir það, sem mér kann að þykja ábótavant í starfi hennar, ég viðurkenni fúslega, að starf hennar er vandasamt, og ætlast ekki til þess af henni, frekar en öðrum, að hún geri svo öllum líki. Ég viðurkenni einnig, að n. hefir sýnt virðingarverða tilraun til að draga úr lítt þörfum gjöldum, þar sem þess var kostur, og fara sparlega með fé; en nú mun meiri þörf á ráðdeild í þjóðarbúskapnum en nokkru sinni fyrr. Við þennan kafla fjárl. á ég hvorki margar né stórar brtt., og vænti ég þess, að n. og hv. d. sjái sér fært að styðja þær. Annars skal ég ekki fjölyrða um vegatill. mínar, því að ég get að nokkru leyti notað síðustu ræðu hv. 1. þm. N.-M. sem formála fyrir þeim. Athugasemdir hans um þjóðvegagerðina voru fyllilega réttmætar og get ég í því efni undir hvert hans orð skrifað. Ég vil ekki endurtaka þær ástæður, sem hann bar fram fyrir því, að nánar þyrfti að líta á skiptingu þeirrar atvinnuhjálpar til einstakra sveitarfélaga, sem felast á í dreifingu vegafjárins. Hv. fjvn. hefir í nál. sínu berlega lýst því yfir, að hún vilji hluta þessa hjálp svo að hún komi að almennum notum. Til þess að þetta megi frekara verða í framkvæmdinni þannig, hefi ég borið fram brtt. á þskj. 296, VIII., þar sem ég legg til, að fjárframlagið til vegarins á Holtavörðuheiði, sem í frv. er tiltekið 40000 kr., verði fært niður í 20000 kr. Með þeim hætti er hægara um vik að dreifa fénu meira en gert er í fjárlfrv. og till. n. Ég þarf ekki að fara um þetta mörgum orðum; ég hefi áður tekið það fram, einnig á síðasta þingi, að ég álíti veginn yfir Holtavörðuheiði ekki líkt því eins aðkallandi og ýmsa vegi í byggðum. Yfir Holtavörðuheiði eru varla aðrir flutningar en mannflutningar milli landsfjórðunga að sumri, og þeir eru ekkert líkt því eins aðkallandi og vegir um sveitir, þar sem mikið af flutningi verður enn að fara fram á klökkum, af því að vegi vantar. Ég hefi orðið þess var, að þessi till. mín hefir verið tekin illa upp af sumum hv. þm. Ég skil það vel, að þeir, sem leggja mikla áherzlu á að greiða götu farfuglanna að sumarlagi, vilji halda í þessa fjárveitingu, en þeir menn hugsa þá að sama skapi lítið um þarfir bænda í afskekktum sveitum. Ég verð þó að álíta, að frekar beri að greiða götu þeirra en farfuglanna, sem sumrinu eyða í ferðalög.

Ég kem þá að þeirri einu till., sem ég á um framlag til vega í mínu kjördæmi. Hún er á þskj. 296,XIV., og fer ég þar fram á, að 3000 kr. verði veittar til Skriðdalsvegar. Þessi vegur er orðinn akfær fram í miðjan dalinn frá Egilsstöðum, en gæti orðið akfær á sveitarenda, ef þessi upphæð, þótt lítil sé, yrði veitt.

Ég hefi skorið till. þær, sem ég flyt, mjög við neglur. Vil ég með því fylgja því ráði, sem hv. fjvn. hefir bent á, að dreifa fjárveitingunum sem mest, en veita ekki stórar upphæðir á einstökum liðum. Með þeim hætti geta flest héruð fengið einhverja úrlausn. Sjálfur hefi ég gert lægri kröfur en allir aðrir, sem brtt. eiga hér um skiptingu vegafjárins.

Ég get verið stuttorður um brtt. mína við 13. gr. A. II. a. 4., þar sem ég legg til, að framlagið til Holtavörðuheiðarvegarins verði 20 þús. í stað 40 þús. Mér sýnist engin nauðsyn á því að flýta svo mjög þessari vegargerð, enda vita allir, að hér er aðeins um „sport“veg að ræða, sem ófyrirsynju hefir þó gleypt hundruð þúsunda og er að hverfandi litlu liði.

Ég kem þá að brtt. við 13. gr. B. 1. b., sem merkt er XVI., flutt af hv. 1. þm. N. M. og mér, þar sem styrkveiting til Eimskipafélags Íslands, 200 þús. kr., er gerð að nokkru leyti skilorðsbundin, þannig að félagið hagi strandsiglingum sínum svo, að þær taki til allra landshluta sem jafnast. En þetta hefir ekki verið svo undanfarið. Næstliðið ár varð Austurland mjög útundan um strandferðir þessar, enda þótt styrkur til félagsins væri hækkaður í fjárlögum síðustu úr 60 upp í 250 þús. kr. Þetta má ekki svo til ganga, að helmingur landsins, Suður- og Austurland, verði nær sviptur strandferðum, samtímis því, að félagið er rösklegar stutt en nokkru sinni áður. Má ekki minna vera en að félagið hafi eitthvert aðhald um að láta strandsiglingar koma öllum landshlutum til góða, þar sem ekki eru hafnleysur, og vænti ég þess, að hv. þd. geti fallizt á að samþ. þessa sjálfsögðu aths. um styrkveitinguna.

Þá kem ég að brtt. minni við 13. gr. C. VIII., merkt XVIII. á þskj. 296. Fer ég þar fram á, að veitt verði af þeim 20 þús. kr., sem ætlaðar eru til bryggjugerða og lendingarbóta, 3 þús. kr. til bátabryggju á Vattarnesi. Þau skilyrði, að lagðir verði 2/3 hlutar á móti annarsstaðar, munu þó vart fást hér uppfyllt. Ég veit að vísu, að hv. þdm. eru flestir, ef ekki allir, staðnum ókunnugir, og þykir mér rétt að minna á, að þetta er forn og orðlögð verstöð, einskonar birgðastöð margra héraða á liðnum öldum. Þarna úti við hafsauga er höfn svo góð, að fágætt er að hitta þær á andnesjum jafngóðar. Fiskimiðin eru skammt frá lendingu og þar mjög fiskisælt. Þangað hefir verið mikið sótt til útróðra, en þó hefir þess minna gætt síðan þiljaðir vélbátar komu, sem gátu sótt lengra á miðin. Nú allra síðustu árin hefir þó aukizt talsvert sókn þaðan með litlum vélbátum, sem stunda á grunnmiðum. En þó að höfn sé þarna góð og varin að mestu fyrir hafróti af löngum tanga, þá er lending slæm. Þarna er engin bryggja, svo að jafnvel þó ekki sé nema lítil vindkvika á firðinum, þá verður stundum að seila fiskinn í land. Um þessa lendingu er því líkt ástatt og um lendingar þær á Vestfjörðum, sem hv. þm. N.-Ísf. minntist á. Vitamálastjóri hefir gert uppdrátt að bryggjubyggingu á Vattarnesi og áætlun um kostnað af verkinu. Honum telst svo til, að bryggjan kosti 13 þús. kr. En mér þótti ekki tiltækilegt að bera fram hærri till. en áður er sagt, þar sem svo margt er nú skorið niður af fjárveitingum. En ef gert er ráð fyrir, að 2/3 hl. komi annarsstaðar frá, þá verður þetta mannvirki 9000 kr. virði. Gæti slík bryggja, þótt ekki hefði fulla lengd, veitt hlé 3—4 bátum í senn, en útreikningar vitamálastjóra eru miðaðir við stóran bátaflota. Tel ég samt mikils virði að koma upp þessu mannvirki, þó ekki nægði nema fyrir 4 báta, og mætti þá auðveldlega bæta við síðar.

Ég á ekki fleiri brtt. við þennan kafla fjárl., og þar sem hér er nú fámennt og fjárl. lítill gaumur gefinn, þá sé ég ekki ástæðu til að orðlengja þetta að sinni. Frsm. fjvn. er hér staddur, og vil ég skjóta því til hans, að ef eitthvað er vansagt í þessu máli mínu, þá er ég reiðubúinn að gefa fyllri upplýsingar utan þessarar umræðu.