22.04.1933
Neðri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

154. mál, áveitu á Flóann

Jörundur Brynjólfsson:

Ég get verið hv. landbn. þakklátur fyrir undirtektir hennar í þessu máli. Þó ég að vísu hefði kosið að hennar till. hefðu verið nokkuð öðruvísi, þá eru þær samt sem áður ekki svo stórvægilegar, að ég get verið henni þakklátur fyrir þann skilning, er hún hefir sýnt á þeirri nauðsyn, sem er á því, að mál þetta verði leyst á viðunandi hátt, og verð ég að telja, að það sé gert að miklu leyti, ef till. n. verða samþ.

Ég skal ekki fjölyrða um einstaka liði málsins. Ég ætla, að bæði þdm. og hv. n. séu svo vel kunnar allar aðstæður í þessu máli, að ekki gerist þörf á því að fara út í sögu þess hér í þessum umr. Það er kunnugt, að kostnaður við þessar framkvæmdir hefir orðið það mikill, að ekki er viðlit að ætlast til þess, að hlutaðeigandi bændur standi straum af honum nema að nokkru leyti, og það ekki nema örlitlu broti af honum. Þetta skal fúslega viðurkennt, því það þýðir ekki að draga fjöður yfir það. Í nál. milliþinganefndarinnar er nokkuð vikið að þeim framkvæmdum, sem gerðar hafa verið á áveitusvæðinu á síðari árum. Sömuleiðis fylgdi frumvarpinu frá nefndinni búnaðarskýrsla, er náði yfir þetta svæði, en hún hefir ekki verið prentuð með, enda ætti það ekki að hafa beina þýðingu. Í skýrslu þessari var ýmsan fróðleik að finna um búnaðarafkomu á áveitusvæðinu og samanburður á afkomu og ástæðum bæði áður og eftir að þessar mikilvirku framkvæmdir voru gerðar. Þessi skýrsla ber það greinilega með sér, að breytingar á framleiðslunni hafa ekki orðið jafnhraðfara eftir að áveitan var gerð eins og búizt var við, miðað við þá miklu möguleika, sem álitið var, að áveitan gæti skapað. Þetta stafar af mörgum ástæðum, en fyrst og fremst af því, að gróðurinn óx ekki eftir að áveitan var gerð nærri því eins mikið og við var búizt; svo hafa einnig þessir erfiðu tímar gert sitt að verkum til þess að draga úr góðum árangri. Þetta mál er þannig vaxið, að það er mikil nauðsyn bæði fyrir hlutaðeigandi bændur og ríkissjóð, að það sé leyst sem fyrst, og eigi síður fyrir það, þó árangurinn af áveitunni hafi ekki náð þeim vonum, sem til hennar stóðu, og ég get sagt það viðvíkjandi undirbúningnum, að meðnm. mínir í mþn. létu sér mjög annt um að kynna sér málið sem bezt. Till. voru miðaðar eingöngu við þá getu, sem okkur virtist, að hlutaðeigandi menn hefðu til þess að greiða áveitukostnaðinn. Upphaflega hafði ætíð verið hugsað svo, að menn yrðu að greiða áveitukostnaðinn með landi eins og ýtarlega er vikið að í nál. Út af þeim fjárhagsástæðum, sem okkur virtist íbúarnir eiga við að búa á áveitusvæðinu, leizt okkur sem það mundu vera helztu möguleikarnir, að þeir greiddu áveitukostnaðinn með landi. Landbn. hefir ekki að sumu leyti getað fallizt á þetta og hefir meira gert ráð fyrir, að þessi kostnaður greiðist í peningum, en sem betur fer heldur hún opinni leið fyrir þá menn, sem vilja greiða hann í landi. Slíkt var mjög heppilegt, álít ég, vegna þeirra manna, sem hafa meira land en þeir hafa brúk fyrir, að n. skyldi halda þessari leið opinni, svo menn geti þá greitt með landi, sem þess óska, og mér skildist, að í till. n. séu ekki skorður við því reistar, að þeir, sem vilja greiða með landi, geri það. Það hlýtur að verða svo í framkvæmdinni, því samkv. hinum upphaflegu 1. um Flóaáveituna höfðu menn heimild til þess að greiða áveitukostnaðinn í landi, og þeim rétti er ekki hægt að svipta menn með nýrri löggjöf. — Ég held, að landbn. hafi látið sér um of í augum vaxa þann kostnað, sem af því leiddi, að ríkið tæki á móti landi á áveitusvæðinu. Við kynntum okkur það eftir föngum og nutum þar leiðbeiningar verkfræðings, sem var í n., sem er mjög kunnugur þessum málum og staðháttum þarna, og við vorum sannfærðir um, að hægt væri að taka nokkurn veginn samfellt land á öllu svæðinu. Og viðvíkjandi kröfunum um nýjar endurbætur, t. d. vegi, eins og hv. frsm. hafði orð á, þá ætla ég, að þær komi ekki til mála, því það er nær lokið allri vegagerð á þessu svæði. Og viðvíkjandi skurðum og flóðgörðum, þá er a. m. k. skurðgerðinni að mestu leyti lokið, en flóðgörðunum er ekki algerlega lokið. En þann kostnað, sem af slíku leiðir, eiga ábúendurnir að greiða. En þar sem nú þessi ákvæði eru þetta frjálsmannleg, þá sé ég ekki ástæðu til að rísa mjög öndverður gegn þeim, þó ég hefði óskað, að n. hefði ekki farið að íþyngja mönnum með greiðslu. Því þessar greiðslur eru af okkar hendi, sem undirbjuggum þetta mál í n., eingöngu miðaðar við ýtrustu getu þessara manna á því að greiða áveitukostnaðinn. Og þó að tímarnir kunni að breytast eitthvað til hins betra frá því, sem nú er, þá ætla ég að óvarlegt sé að gera ráð fyrir svo skjótum og góðum breytingum og að ekki sé hyggilegt að gera harðari kröfur en menn geta undir risið nú.

Þar sem landbn. hækkar gjaldið á hvern hektara úr 80 au. upp í 1 kr. og lengir tímann úr 30 árum upp í 40 ár, þá langar mig til að fara fram á það við n., að hún geti fallizt á skrifl. brtt., sem ég ætla að bera fram og vænti, að stj. og d. heimili afbrigði fyrir. Brtt. gengur í þá átt að færa tímann úr 40 árum niður í 30 ár. En gjaldið, sem n. leggur til, 1. kr. á hvern hektara, læt ég halda sér.

Menn hafa talsverðan kostnað af áveitunni. Það er fyrst og fremst viðhaldskostnaður, sem er 75 au. á hektara, og auk þess er sérstakur kostnaður af flóðgörðum, og þetta mun nema til samans nokkuð á aðra kr. Nú er mannvirkið nýtt, og má því búast við, þegar stundir líða, að þess kostnaður verði mun meiri en hann er nú. Og þó þessi gjöld hvert út af fyrir sig séu ekki mikil upphæð þá safnast þegar saman kemur, og ég ætla, að þegar frá líður, geti þetta orðið tilfinnanlegt gjald. Ég vil benda á í þessu sambandi þá niðurstöðu, sem tekin var á sínum tíma hér á þingi viðvíkjandi Skeiðaáveitunni. Þá var samkv. till. þeirrar n., sem hafði undirbúið málið og vildi leiða það til eins góðra lykta og hún framast gat, gert ráð fyrir 2 kr. til greiðslu á hvern hektara. En sú sorglega reynsla hefir fært heim sanninn um það, að íbúum þessa áveitusvæðis er ofvaxið að standa straum af þessum kostnaði. Og þó var það á þeim tíma, sem afurða verð var nær því þrisvar sinnum hærra en nú, og er þá ekki tekið tillit til verðfalls, sem orðið hefir á peningum síðan. En eins og menn vita, þá hefir tilkostnaður við atvinnurekstur landsmanna ekki fallið neitt í námunda við það, sem afurðaverð hefir fallið. Aðstaða manna til greiðslu er því vissulega miklu meira en helmingi verri nú en þegar l. voru sett.

Ég hefi ekki, af því að ég hefi orðið að líta svo fljótlega á þessar till., treyst mér til að segja, hvort það er fullkomlega tryggt, að þeir, sem eiga að taka á móti löndum, hafi nægan rétt til þess að ráða hvernig löndin eru tekin og landamerkjum breytt og annað þess háttar. En við skjótan lestur á þessum till. held ég, að fyrir því sé séð, en samt þori ég ekki að segja um það með vissu.

Ég get svo sagt viðvíkjandi hinum öðrum brtt. n., að ég ætla, eins og hv. frsm. komst að orði, að þær séu eiginlega ekki nema eðlileg afleiðing af þessum tveim aðaltill. n. og skipta í sjálfu sér ekki svo miklu máli.

Um frjálsræði manna til þess að mega velja um að greiða í peningum eða landi get ég sagt það, að sú leið var mjög heppileg. En ég get búizt við, að það verði nokkuð margir, sem vilja láta land upp í áveitukostnaðinn, vegna þess að þeir hafa ekki aðstöðu til þess að greiða hann á annan hátt. Og vitaskuld verður það land, sem ríkið tekur á móti, að geta komið því að sem beztum notum.

Ég vil þá leyfa mér að bera fram hina skrifl. brtt. við till. n., og hún er þannig, að við 1. tölul. komi í stað 40 ár: 30 ár, — og að við 13. tölul. bætist: og greiðist kostnaðurinn úr ríkissjóði.

Hv. frsm. gat þess, að n. ætlaðist til, að Búnaðarfélag Íslands undir stjórn atvmrh. annaðist um framkvæmd laganna, og jafnframt ætlast n. til, að sá kostnaður, sem af því leiddi. yrði greiddur úr ríkissjóði. Það nægir nú reyndar, að þessi skýring kom fram hjá honum, en mér virðist, sem ekkert geti mælt á móti því, að þessi viðauki komi við þessa till. nefndarinnar.