22.04.1933
Neðri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

154. mál, áveitu á Flóann

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég skal taka það fram út af fyrirspurn hv. þm. Mýr., að milliþingan., sem skipuð var um þetta, var falið, eins og fyrir stj. var lagt í fjárlfrv. síðasta árs, að leggja fram till. og skýrslu um mjólkurbú Flóamanna og mjólkurbú Ölfusinga. N. afgreiddi til stj. till. sínar um Flóaáveituna, en till. hennar og skýrslur um mjólkurbúið eru ekki komnar, og hafa þeim drætti valdið sérstakar ástæður. N.-formaður hefir tjáð mér, að till. mþn. séu væntanlegar mjög bráðlega. Í öðru sambandi hefi ég haft nokkurn undirbúning að lausn þessara mála. Og þm. í báðum d. hafa þegar haft nokkur samtök um lausn mjólkurbúamálanna á annan veg. Ég vænti þess, að mþn. sjái sér fært að leggja fram till. sínar sem fyrst, eins og hún hefir lofað, til þess að þær geti komið til álita í sambandi við lausn mjólkurbúamálanna í heild sinni. — Ég sé ekki ástæðu til þess, að það þurfi að tefja afgreiðslu þessa frv., þó að mál mjólkurbúanna liggi ekki þegar fyrir, jafnvel þó það sé réttilega tekið fram af hv. þm. Str., að vel eigi við, að hvortveggja málin leysist á sama þingi.

Ég verð einnig að taka undir það með hv. þm. Str., að það er nokkuð óvanaleg afgreiðsla á þessu máli að því leyti, að brtt. n. hafa komið svo seint fram. En ég skal ekki átelja það, því ég veit ekki, hverjum það er að kenna.

Út af hinni skrifl. brtt. hv. 1. þm. Árn., vildi ég skjóta fram þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort þeim bændum, sem þarna eiga hlut að máli, sé gerður fullur greiði með því að klippa aftan af greiðslutímanum, og hvort þeim muni ekki vera kærara, að klippt sé framan af honum, þannig, að þeir fengju frest 1—3 næstu ár, meðan þessir erfiðu tímar standa yfir. Þá bjartsýni verðum við að hafa, að á þessu blómlega svæði rétti hagur bænda svo við, að þeim veitist léttara síðar að greiða þessi gjöld. Ég skýt þessu fram til athugunar, en það kann að vera of seint fram komið.