09.05.1933
Efri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

154. mál, áveitu á Flóann

Frsm. (Pétur Magnússon):

Í upphaflegu löggjöfinni um Flóaáveituna var gert ráð fyrir því, að 3/4 af áveitukostnaðinum greiddust af eigendum jarðanna á áveitusvæðinu, sem auk þess skyldu gera alla flóðgarða fyrir eigin reikning. Mönnum var það einnig frá upphafi ljóst, að áveitukostnaðurinn mundi verða svo mikill, að tvímælis orkaði, að bændur gætu greitt sinn hluta í peningum, og af þeim ástæðum var það sett í l. 1917, að heimilt væri að greiða áveitukostnaðinn í landi, og var þá gert ráð fyrir, að heyaukinn, sem fengizt við áveituna. yrði svo mikill, að hann nægði til að vega upp á móti.

Nú fór það svo, að framkvæmd þess verks varð miklu dýrari en gert hafði verið ráð fyrir. Upphaflega kostnaðaráætlunin, frá 1917, hljóðaði upp á 600 þús. kr., en svo sem kunnugt er breyttist verðlag mjög til þess tíma, er hafizt var handa um verkið. Áætlun, sem vegamálastjóri síðar gerði, 1919, hljóðaði upp á 1100000 kr., auk flóðgarða og aukaskurða, en sá raunverulegi kostnaður, sem framkvæmd verksins hafði í för með sér, varð 1430 þús. kr., og er þá ekki tekið tillit til þeirra vaxta, sem fallið hafa á það fé, sem til áveitunnar hefir gengið og ríkissjóður hefir lagt fram. Kostnaðurinn við hvern hektara, sem mældur hefir verið undir áveituna, hefir þannig orðið 120 kr., og kemur því í hlut landeigenda að greiða 90 kr. fyrir hvern hektara, en það er miklu meira gjald en bændur fá risið undir að greiða, enda verður niðurstaðan sú, ef áveitulandið er metið til verðs, að matsverðið nemur ekki jafnmiklu og áveitukostnaðurinn hefir orðið. Hefir þetta orðið til þess, að dráttur hefir orðið á því, að þessi viðskipti bænda og ríkissjóðs væru gerð upp, og hefir ríkissjóður þannig lagt fram allt féð til áveitunnar, án þess að honum hafi verið gerð nokkur skil þar á allt til þessa dags. Hefir þetta eðlilega valdið nokkurri óánægju, ekki sízt á meðal bænda, er hafa þessi skuldaskil stöðugt hangandi yfir höfði sér.

Á síðasta þingi var samþ., að skipuð yrði n. til að athuga þetta mál og gera till. um það, hvernig úr því skyldi leyst. Er álit þessarar n. prentað með frv., eins og það upphaflega var lagt fyrir, á þskj. 351, en úrlausnartill. n. hnigu í þá átt, að kostnaðurinn yrði aðallega greiddur með landi. Taldi n., að meiri hl. landeigenda á áveitusvæðinu væri svo settur, að þeir gætu látið land af hendi án þess að rýra svo við það heyfeng sinn, að þeir gætu ekki framfleytt þeirri áhöfn, sem þeim er nauðsynleg til að framfleyta fjölskyldum sínum. Gerir n. ráð fyrir, að ríkissjóður muni á þennan hátt eignast 2000 ha. í áveitu- og beitilöndum, og mætti koma upp mörgum nýbýlum á því svæði, en á það hefir einmitt frá upphafi alltaf verið lögð höfuðáherzlan, að með þessu skapaðist aðstaða til að fjölga býlunum á þessum slóðum. Má auðvitað um það deila, hver hagnaður það er fyrir ríkissjóð að fara þessa leið. Ég býst við, að færa megi nokkur rök fyrir því, að ríkissjóði hefði ekki orðið peningalegur hagnaður af framkvæmd þessara till. n., en á það ber að líta, sem ég áður sagði, að þetta skapar aðstöðu til að fjölga býlunum á þessum slóðum, þar sem aðstaðan til að framleiða mjólk með góðum árangri er betri en í flestum héruðum öðrum. Frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar taldi því nefndin, að nokkur ávinningur gæti orðið að þessu, enda þótt það yrði ekki beinn peningalegur hagnaður fyrir ríkissjóð. Nd. hefir þó ekki getað fallizt á þessar till. n., heldur hefir hún breytt frv. í þá átt, að aðalreglan verður sú, að bændur greiða svonefndan áveituskatt, 1 kr. á ha. áveitulandsins í 30 ár, og er það aðeins leyft sem undantekning frá þessari aðalreglu, að bændur megi láta land af hendi til greiðslu áveitukostnaðarins. Má vera, að peningalega sé þetta heppilegra fyrir ríkissjóð. Í öllu falli hefir landbn. Ed. ekki viljað leggja út í stríð við Nd. út af þessu og taka upp till. mþn., en meiri hl. n. a. m. k. leit þó svo á, að nokkur atriði frv., eins og það nú er orðið, væru ekki í samræmi við þann grundvöll, sem frv. þannig hefir verið beint inn á. N. lítur svo á, að annaðhvort beri að gera, að skylda bændur til að láta land af hendi til þess að verða eftirgjafar aðnjótandi, eða losa þá við landtökuna gegn því að greiða áveituskattinn. Í 2. gr. frv. er hinsvegar heimild fyrir stj. til þess að krefjast þess af landeiganda, að hann láti land af hendi, ef nauðsyn þykir vegna stofnunar nýbýlis. Er hér verið á sömu braut og mþn. var á, en þar sem þetta fer í bág við þann grundvöll, sem frv. nú er komið á, leggur n. til, að þetta ákvæði 2. gr. verði fellt niður og frv. breytt í það horf, að landeiganda gefist þess því aðeins kostur að greiða áveitukostnaðinn með landi, að ríkissjóður sjái sér fært að taka á móti landinu, þann veg, að nægilegt land samfellt fáist til þess að stofna á nýbýli. Vænti ég þess, að hv. d. geti fallizt á þessar brtt. n., sem aðeins miða til að samræma ákvæði frv.

Þá flytur n. brtt. við 8. gr. frv., þess efnis, að síðari málsl. gr. falli niður, þar sem leiguliði er skyldaður til að veita full skil á áveituskattinum til jarðeiganda. Er ekki sanngjarnt að leggja allan kostnaðinn á leiguliða, og enda auðsætt, að sá, sem borgar skattinn með landi, verður sjálfur að bera kostnaðinn við það. Hitt má vel vera, að n. beri fram viðaukatill. við 8. gr., ef þessi till. n. verður samþ.

Að öðru leyti get ég látið mér nægja að vísa til nál. mþn. á þskj. 351. Þykist ég vita, að þm. sjái nauðsynina, sem á því er, bæði fyrir bændur og ríkissjóð, að lausn sé bundin á þessu máli. Það er í alla staði óheppilegt að játa lausn þessa máls dragast lengur. Það væri ekki rétt að láta þessa svipu vofa lengur yfir búendum á áveitusvæðinu, enda gæti það auðveldlega orðið til að draga úr eðlilegri framfaraviðleitni þeirra, því að vitanlegt er, að bændum yrði það flestum ofvaxið, ef ganga ætti að þeim með greiðslu á miklum hluta áveitukostnaðarins. Ég vænti því þess, að d. fallist á að leysa þetta mál nú, og þótt skoðanir geti verið skiptar um það, hvernig eigi að leysa það, hygg ég þó, að sú leið, sem hér er stungið upp á, sé svo nær sanni, að ekki sé ástæða til að slá málinu enn á frest.