31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

1. mál, fjárlög 1934

Björn Kristjánsson:

Ég á aðeins eina brtt. við þennan kafla fjárl., á þskj. 296,XI, þess efnis, að framlagið til Þistilfjarðarvegar verði hækkað um 5000 kr., úr 5000 upp í 10000, eða til vara 8000. — Það eru nú eitthvað um 3 ár síðan byrjað var á að leggja veg frá Þórshöfn inn í sveitirnar í kring, sem sækja þangað verzlun. Meginkaflinn af þessum veg liggur um Þistilfjörðinn, og er þar yfir á að fara, Hafralónsá, sem hefir verið hinn mesti farartálmi, þar til nú fyrir 3 árum, að hún var brúuð, en brúin kemur þó ekki að fullum notum, af því að veg vantar báðum megin brúarinnar, að henni og frá. Vegarkaflinn frá Þórshöfn var mjög erfiður lagningar, en sú er með réttu venjan að leggja vegina fyrst út frá kaupstöðunum, til þess að þeir geti sem fyrst komið að fullum notum fyrir þá, sem til þeirra ná. Vegarlagningin er ekki enn komin að brúnni, en með þeirri fjárveitingu, sem ætluð er til þessa vegar á yfirstandandi ári, má gera ráð fyrir, að hann komist þangað í ár. Þegar komið er vestur yfir brúna, taka við miklu betri vegarstæði. Næst brúnni eru nokkuð ósléttir móar, sem gera mætti akfæra með því einu að slétta úr, en eftir það liggur vegurinn vestur allan Þistilfjörð á löngum köflum eftir sléttum melum, sem ekkert þarf að gera við. Er mjög nauðsynlegt, að þeir kaflarnir, sem þurfa mestrar aðgerðar við á þessari leið, komist af fljótt, til þess að vegurinn geti komið þeim að fullum notum, sem þarna búa.

Eins og kemur fram í nál., og líka í ræðu hv. frsm., hefir fjvn. að þessu sinni tekið meira tillit en áður til þarfa landshlutanna vegna atvinnuleysisins, sem nú ríkir alstaðar á landinu, og hefir n. af þeim ástæðum meir en áður miðað till. sínar við að dreifa vegafénu sem víðast. Frá þessu sjónarmiði er einmitt hin brýnasta nauðsyn að hjálpa þessu héraði. Fólkið þar hefir ekki um aðra atvinnu að velja en þessa vegargerð, og eru því einu vonirnar um það, að hægt verði að innheimta opinber gjöld, bundnar við það, að þarna verði haldið uppi einhverjum opinberum framkvæmdum. Auk þess má segja um þennan veg eins og alla vegavinnu nú, að hún verður ódýrari en verið hefir um fjölda ára undanfarið, vegna þess hve kaupgjaldið er lágt, en hinsvegar má búast við því, að kaupið hækki aftur strax þegar eitthvað léttir á kreppunni, og við það mundi vegagerðarkostnaðurinn hækka. Það er því hreinn hagnaður fyrir ríkissjóðinn að láta vinna að þessari vegargerð nú.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa till., en vona, að hún finni náð fyrir augum hv. d. og verði samþ., ekki sízt þar sem þetta er eina fjárveitingin, sem ég fer fram á til míns héraðs að þessu sinni. Ég vil og benda hv. þdm. á það, að þegar litið er á þær upphæðir, sem veittar hafa verið til vegaviðhalds í landinu hin síðustu ár, eru Norður-Þingeyingar þar með þeim allra lægstu, svo að þeim verða ekki atvinnubætur að því fé, sem veitt er í því skyni í fjárl. Ég þykist því enn af þeirri ástæðu mega vænta þess, að hv. d. taki vel í þessa sanngjörnu till. mína.