26.04.1933
Neðri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

148. mál, hegningarlöggjöfina

Frsm. (Bergur Jónsson):

Eins og sést á nál., hefir allshn. lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Eins og nú er háttað löggjöf um skilorðsbundna refsidóma, þá er ekki heimilt að beita þeim um önnur brot en þau, sem ákvæði eru um í hinum almennu hegningarlögum. En þar sem fjöldi brota er ákveðinn utan hegningarlaganna og mörg þeirra eru oft smáfelldari en þau, sem hegningarlögin ná til, þá er full ástæða til að láta skilorðsbundna refsidóma ná einnig til brota, sem eru fyrir utan hegningarlögin. Þegar ég og annar þm. úr n. fórum að athuga málið síðar, virtist okkur ekki rétt að taka upp nýmæli það, sem felst í síðari setningu 1. gr., að ekki megi skilorðsbinda fjársektardóma. Það er nýmæli og hefir ekki gilt hingað til, og skilorðsbundinni refsingu hefir verið beitt við sektardóma áður.

En þar sem brtt. er ekki komin fram fyrr en nú og þm. hefir ekki gefizt tækifæri til að athuga þetta atriði, þá ætla ég að taka till. aftur að þessu sinni til 3. umr. Að öðru leyti leggjum við til, að frv. verði samþ. óbreytt.