12.05.1933
Efri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

148. mál, hegningarlöggjöfina

Frsm. meiri hl. (Magnús Torfason):

Frv. þetta er ekki langt og meiri hl. n. hefir lagt til, að það verði samþ. óbreytt. Efnið er það, að með þessari viðbót við 1. frá 1928 á að vera unnt að dæma menn í skilorðsbundna dóma, þótt það sé fyrir önnur brot en þau, sem hegningarl. ákveða. Ennfremur að minna er takmörkuð sú fangelsishegning, sem miðað er við, þar sem ákvæðinu er ætlað að ná upp í eins árs hegningardóm. Þó er það hinsvegar tekið fram, að fésektardóma má ekki skilorðsbinda, aðra en þá, sem dæmdir eru eftir hinum almennu hegningarl. eða viðaukum við þau. Er það vitanlega gert af því, að mörg þeirra brota, sem koma fyrir lögreglurétt, eru auðgunarbrot, sem rétt er að láta menn greiða peninga fyrir.

Það má óhætt segja, að ákvæðin um skilorðsbundna hegningardóma hafa reynzt vel. Góðar skýrslur eru fyrir því, að fæstir, sem dæmdir eru skilorðsbundnum dómi, brjóta í annað sinn. Og svo framarlega sem það er hlutverk þeirra, sem halda uppi lögum og rétti í landinu, að fækka brotum og stuðla að því, að 1. séu í heiðri haldin, þá hefir þetta létt það verk og orðið að miklu gagni. Mín persónulega reynsla hefir farið í sömu átt. Ég vil því mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, og geri ég það fyrir hönd meiri hl. n. Það er vitanlegt, að á þessu máli, eins og svo mörgum öðrum, eru tvær vendir, því fátt er svo með öllu gott, að það hafi ekki áhrif í aðra átt. En ég álít þó þessa agnúa svo litla, að þeir séu hverfandi á móti kostunum. Ég leyfi mér því að leggja til, að hv. d. samþ. þetta frv.