01.06.1933
Neðri deild: 91. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (2278)

212. mál, sjávarútvegsmál

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Það er nú eins og kunnugt er búið af þingsins hálfu að reka smiðshöggið á þær ráðstafanir, sem þingið sér sér fært að gera, til þess að rétta landbúnaðinum — þ. e. bændum landsins — hjálparhönd eftir því, sem verða má, og forða þeim frá eignatapi eða jafnvel gjaldþroti vegna yfirstandandi tíma, — tíma, sem allir kannast við, að séu erfiðari sökum margra hluta fyrir alla framleiðendur heldur en venjulegir tímar. Við, sem flytjum hér þáltill. á þskj. 869, erum því fyllilega samþykkir, að þing og stjórn geri þær ráðstafanir, sem réttar og skynsamlegar eru, til hjálpar bændunum, og það, sem hér er farið fram á með þessari þáltill., er í raun og veru nokkurskonar áframhald til viðreisnar landsmönnum. Með till. er farið fram á, að lagður sé nauðsynlegur grundvöllur undir það, að litið sé nokkuð til aðalatvinnuvegar þjóðarinnar, þess atvinnuvegar, sem ríkisbúskapurinn byggist svo að segja að mestu leyti á, en það er sjávarútvegurinn.

Þær kreppuráðstafanir til úrréttingar fyrir bændur landsins, sem afgr. hafa verið hér frá Alþingi, voru undirbyggðar með skipun nefndar, sem var skipuð 23. nóv. síðastl. ár af stjórninni, til þess að athuga hag landbúnaðarins og fjárhagsástæður bænda og gera till. um þær ráðstafanir, sem tiltækilegar þættu til að styrkja fjárhag bænda vegna þeirra örðugleika, sem heimskreppan veldur. Nú hefi ég nefnt í stórum dráttum verkefni þessarar n. og tilefni til þess, að hún var skipuð. Í n. voru skipaðir þessir menn: Tryggvi Þórhallsson bankastjóri, Pétur Ottesen alþm., og Sigurður Kristinsson forstjóri.

Nú er það vitað, að það, sem gert verður af ríkisins hálfu til viðreisnar landbúnaðinum, hlýtur að koma niður á öllum landsmönnum yfirleitt, og þá einkum og sér í lagi þeim atvinnuveginum, sem leggur drýgstan skerf til þjóðarbúsins, sem er sjávarútvegurinn. Þær vonir, sem við getum gert okkur um, að stuðningur sá fyrir bændurna, sem felst í frv. um kreppulánasjóð, komi að haldi, byggjast að mestu á því, að afkoma sjávarútvegsins hallist ekki til neinna muna frá því, sem nú er, heldur miklu fremur réttist. Það er sem sé gert ráð fyrir því í frv. um kreppulánasjóð, að ríkissjóður leggi fram á næstu 9 árum 21/2 millj. kr. í þá sérstöku lánsstofnun, sem nefnist kreppulánasjóður. Fyrir utan þetta er sjóðnum heimilað að gefa út handhafaskuldabréf, allt að 9 millj. kr. Þessar ráðstafanir vaxa mörgum í augum. Ég skal engu spá um það, hvernig þær reynast í framkvæmdinni, en ég vona, að þær nái þeim tilgangi, sem þingið hefir haft fyrir augum, sem sé þeim, að fleyta landbúnaðinum yfir þetta mikla örðugleikatímabil. Nú er, eins og ég áður sagði, öllum ljóst, að þær vonir byggjast að mestu á því, að landið verði þess megnugt að standa undir þeim byrðum, sem hér eru lagðar á ríkissjóð.

Ég skal skýra að nokkru frá, hvert hlutfall hefir verið milli útflutningsmagns eða útflutningsverðmætis á landbúnaðarafurðum og sjávarafurðum hin síðustu árin, og bregður það nokkru ljósi yfir það, að við verðum í þessum efnum að byggja mest á sjávarútveginum. Árið 1930 eru fluttar út sjávarafurðir fyrir 54564 þús. kr. Það sama ár eru fluttar út landbúnaðarafurðir fyrir 4882 þús. kr. Ég skal taka það fram, að það liggja ekki fyrir alveg síðustu og fullkomnustu skýrslur um útflutning ársins 1932, en ég styðst við þær tölur, sem gengisnefndin hefir gefið upp. Hún gefur upp, að útflutningsverðmæti sjávarafurða hafi það ár verið 41100 þús. kr., en útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða 2700 þús. kr.

Þessar tölur sýna það nægilega ljóst, hversu viðskiptajöfnuður okkar við aðrar þjóðir er stórkostlega háður því, hversu mikil verðmæti við fáum, einkum og sér í lagi fyrir sjávarafurðir okkar.

Hann er heldur ekki orðinn neitt smávaxinn sá floti, sem tekur þátt í veiðunum fyrir ströndum landsins, hinn innlendi fiskiskipafloti. Ég hefi tekið hér upp tölur fyrir 2 ár úr skýrslum, sem Ægir hefir birt, rétt til þess að sýna hv. þdm., hversu mörg framleiðslutæki sjávarútgerðin hefir á floti.

Árið 1931 stunduðu fiskiveiðar innlend fiskiskin sem hér segir:

Togarar .................... 40

Línuveiðarar ..................... 22

Vélbátar (yfir 12 smálestir) ...... 183

Vélbátar (undir 12 smálestir) .... 233

Vélbátar (opnir) ................. 329

Róðrarbátar ...................... 27

Skip og bátar samtals ............ 834

Árið 1932 líta þessar tölur þannig út:

Togarar .......................... 36

Línuveiðarar ..................... 18

Vélbátar (yfir 12 smálestir) ...... 170

Vélbátar (undir 12 smálestir) .... 214

Vélbátar (opnir) ................. 281

Róðrarbátar ...................... 43

Skip og bátar alls ................ 762

Það er nú öllum vitanlegt, að þeir, sem reka sjávarútveg sem aðalatvinnuveg, eiga ekki síður í bökkum að berjast heldur en bændur, vegna þess verðfalls, sem orðið hefir á sjávarafurðum, og einkum og sér í lagi er það árið 1930, sem margir, ef ekki allir sjávarútvegsmenn hér á landi bera svo að segja sár á bakinu eftir. Það ár varð verðfallið gífurlegt á afurðunum, og stórtap mun hafa orðið á útgerðinni svo að segja alstaðar hér við land. Árið 1931 og 1932 hafa ekki verið eins slæm, en þó hygg ég, að afkoma manna hafi í fæstum tilfellum verið svo, að menn hafi getað borgað neitt verulega af þeim skuldum, sem á þá hlóðust einkum vegna ársins 1930. Fiskveiðasjóður Íslands hefir nú hjálpað mörgum af vélbátaeigendum til þess að komast yfir skipin, en margir þessara manna hafa árum saman átt í mestu erfiðleikum með að standa í skilum með afborganir og oft orðið að biðja um frest og reyna á biðlund stjórnenda sjóðsins, og oft hefir ekki annað legið fyrir dyrum en að þeir misstu þessi framleiðslutæki sín, vegna erfiðleikanna á að standa í skilum með afborganir. Þetta er mér mjög vel kunnugt um, því að ég þekki af eðlilegum ástæðum betur til þess hluta útgerðarinnar, sem stendur að vélbátunum. Og yfirleitt er sagt, að togaraflotinn sé litlu eða engu betur staddur. Þeir útgerðarmenn, sem ég þekki og hefi átt tal við um þessi efni, ljúka flestir upp einum munni um það, að tap hafi orðið á rekstri togaranna ár eftir ár. Þetta vilja menn oft ekki láta sér skiljast. Þeir halda því fram, að ef útgerðarmenn tapa ár eftir ár, þá verði þeir að hætta. Að útgerðin haldi áfram, þýði það, að þetta tap sé ekki til. Þeir, sem sjálfir hafa fengizt eitthvað við slíkan atvinnurekstur, kannast við, að útgerðin er þannig löguð, að sá, sem á bát eða skip, reynir í lengstu lög að klifa þrítugan hamarinn til þess að halda úti skipum sínum. Þeir vona, að þeir geti rétt hag sinn og vonast eftir betri veiði og betri sölu, því að í mörgum tilfellum hafa þeir enga aðra afkomumöguleika heldur en að reyna að starfrækja þennan atvinnurekstur, m. ö. o. að halda áfram útgerð meðan nokkursstaðar er hægt að fá hjálp eða aðstoð til þess.

Okkur flm. till. dylst það ekki, að þetta verk, sem við viljum, að Alþ. feli ríkisstj., er mikið og margþætt. Á það hefir verið drepið hér í þinginu, í sambandi við umr. um kreppuráðstafanir bændanna vegna, að þær ráðstafanir næðu líka til sjávarútvegsmanna, en því var andmælt á þeim grundvelli, að engin rannsókn hefði enn fram farið um það ástand, sem ríkir hjá þeim hluta framleiðendanna. Þjóðinni sem heild er hin mesta nauðsyn að því, að atvinnuvegirnir séu athugaðir gaumgæfilega, hagur þeirra og afkomuskilyrði og leiðir til lausnar út úr vandamálum þeirra og því öðru, sem þeir hafa við að stríða. Þetta er ekki hvað sízt nauðsyn fyrir það, að þeir atvinnuvegir, sem hér um ræðir, hin beina framleiðsla, eru undirstöður annara atvinnugreina og atvinnunnar í landinu, þær stoðir, sem velferð ríkisins hvílir á. Er því réttmætt að verja nokkru til rannsóknar á þessum atvinnuvegum. Og þetta, sem ég nú hefi lýst, er það, sem farið er fram á í 1. lið till. Hinir liðirnir skýra sig sjálfir. Þó vil ég geta þess, að í 3. lið till. er lagt til, að athugað sé, á hvern hátt sameina megi hagsmuni vinnuveitenda og vinnuþiggjenda. Það stendur í sambandi við hagsmuni beggja, framleiðenda og þeirra, sem hjá þeim vinna, að sem nánast samband sé á milli þessara aðila, bæði til verndar sameiginlegum hagsmunum og til þess að forða árekstri milli þeirra.

Í sambandi við 4. lið, um fjölbreyttari verkunaraðferðir, vil ég benda á, að þar getur verið um stórt verkefni að ræða. T. d. er til ein algeng verkunaraðferð í Noregi, sem er óþekkt hér nú orðið, en vel mætti taka upp (harðfiskur til útflutnings).

Í 5. liðnum, um markaðsleit fyrir fisk, eru af ásettu ráði aðrar framleiðsluvörur teknar með. Þar sem leitað er markaðar á fiski og fiskiafurðum, getur og verið um sölu á öðrum framleiðsluvörum að ræða. Er þá hagsýni í að það sé athugað um leið.

Með 6. lið till. má segja, að minnt sé á loforð, sem gefið var þegar Búnaðarbankinn var stofnaður 1929. Framsóknarstj. gaf þá loforð um, að svipuð lánsstofnun yrði sett upp fyrir bátaútveginn. Það loforð er enn óuppfyllt.

Ég hefi þá minnzt á verkefni till. Við flm. álítum, að hér sé um að ræða verkefni, sem sé svo mikilvægt fyrir afkomu þessa atvinnuvegar og landsins í heild, að ekki megi lengur dragast, að sú rannsókn fari fram, sem þar um ræðir. Teljum við, að ekki megi horfa í fé og fyrirhöfn af ríkisins hálfu til að fá þetta sem vendilegast rannsakað.

Nú hafa hv. jafnaðarmenn þessarar deildar borið fram brtt. um að færa verksvið þessarar rannsóknar yfir á víðara svið. Þeir vilja taka undir þetta til viðbótar rannsókn á hag sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna. Um það vil ég segja, að verksvið þáltill. er ærið umsvifamikið, þótt ekki sé við það bætt. Sé það gert svo mjög sem till. á þskj. 884 bendir til, þá óttast ég, að verkið verði umsvifameira en svo, að það geti borið árangur í næstu framtíð. Liðir brtt. eru að vísu nátengdir því, sem þáltill. ræðir um. Hagur verkamanna og sjómanna fer að mestu eftir því, hvernig sjávarútvegurinn ber sig, en að nokkru eftir afkomu landbúnaðarins. Nú hefir nokkuð verið að því gert að tryggja afkomu bænda og forða þeim frá því að komast á vonarvöl. Það er afleiðing þeirrar rannsóknar, sem gerð var um hag þeirra. Og rannsókn á sjávarútveginum er alveg hliðstæð. Bændum á að forða frá því að missa jarðir, búfé og aðra áhöfn. Ef útgerðarmenn missa farkost, veiðarfæri og annað, er til útgerðar þarf, er þeirra atvinnuvegur stöðvaður og þeir tapa atvinnu sinni. Ef atvinnuvegur þeirra er gerður tryggari og arðvænlegri, er líka um leið beint og óbeint unnið að því að tryggja hag verkamanna og sjómanna — og iðnaðarmanna reyndar líka.

En þótt hagur þeirra, er till. jafnaðarmanna telur upp, sé rannsakaður, er efnið þó enn ekki nægilega tæmt. Verzlunarstéttin er eftir skilin fyrir því. Hún getur gert alveg réttmætar kröfur um að vera með, ef hinar eru allar teknar, og njóta hlunninda sem þær. Og hún á ekki minni kröfu til stuðnings ríkisvaldsins en hinar, þar sem hún hefir á síðustu tímum beðið tjón vegna aðgerða þess um takmörkun innflutnings. Sú ráðstöfun var máske ekki að öllu leyti óréttmæt. En verzlunarstéttin hefir ei að síður beðið tjón vegna hennar.

Ég vona að þáltill. okkar verði samþ. óbreytt. Hún grípur út yfir það, sem allra nauðsynlegast er og undirstaða afkomu flestra landsmanna, einnig þeirra, sem taldir eru upp í brtt. jafnaðarmanna.