01.06.1933
Neðri deild: 91. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2279)

212. mál, sjávarútvegsmál

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég get tekið undir meginefni þáltill. og þess, er hv. frsm. sagði um hana og efni hennar. Sú rannsókn, sem þar er óskað eftir, er ekki einungis nauðsynleg, heldur alveg sjálfsögð, eftir afstaðna þá rannsókn, sem gerð hefir verið um hag bændastéttarinnar, og þá hjálp — sem að vísu vantar mikið á, að nægileg sé —, sem þeim verður í té látin. Nú á þjóðin meira undir sjávarútveginum. Er því enn ríkari ástæða til að athuga hag hans og rannsaka, að þeirri athugun lokinni, hvað fyrir hann er hægt að gera.

Um 3. lið þáltill. vil ég þó segja, að engin von er til þess, að stjórnskipuð n., sem margt fleira þarf að athuga, sé líkleg til að leysa það vandamál að sameina hag vinnuveitanda og vinnusala. Sú meinsemd, sem sá liður ræðir um, liggur svo djúpt, að vafasamt má telja, að hnífur n. nái til hennar. Vil ég því biðja hæstv. forseta að bera þennan lið sérstaklega upp, er atkvgr. fer fram. Við jafnaðarmenn flytjum brtt. á þskj. 884. Samskonar brtt. bárum við fram við kreppulánasjóðsfrv. Var henni andmælt á þeim grundvelli, að rannsókn hefði eigi fram farið og því óvíst, hve mikið ríkissjóður færðist í fang með samþ. hennar. Var till. talsvert rædd, en féll að lokum við lítinn atkv.mun. Nú er það till. okkar jafnaðarmanna, að þessi rannsókn verði látin fram fara samtímis þeirri, er þáltill. ræðir um. Er sú rannsókn auðveld, því að mikið af því, sem þarf að vita, má fá úr skattskýrslum, svo sem árstekjur manna og þá vinnudaga og vinnutekjur. Atvinnubótan., þótt lítið gerði, hefir einnig safnað skýrslum, er að liði geta komið. Um skuldir er auðvelt að fá skýrslur. Ég játa að vísu, að þetta verk verður umfangsmeira, ef brtt. okkar er samþ. En stj. er vitanlega ekki bundin við að láta sömu menn framkvæma verkið allt. Hún getur skipt því, ef hún telur það nauðsynlegt, til þess að till. geti komið fyrir næsta þing, eins og nauðsynlegt er.

Hv. frsm. taldi það skort á samræmi, að við hófum ekki tekið verzlunarstéttina með í till. okkar. Ég skal gera grein fyrir því, hvers vegna við gerum það ekki. Allar þær till., er fram hafa komið, eru miðaðar við framleiðslustéttirnar. Við fylgdum því. En verzlunarmenn geta ekki talizt til þeirra. Ef rannsaka skyldi hag þeirrar stéttar og umbótamöguleika, yrði sú rannsókn að fara fram á allt öðrum grundvelli. Sú stétt er allt of fjölmenn eftir verzlunarveltu, og frá því sjónarmiði verður sú rannsókn að fara fram. Það sást á frv., sem var hér nýlega til meðferðar, að þörf þótti að taka 25% álagningu sem lágmark til varnar óheilbrigðri samkeppni. Og þó er vitanlegt, að miklu hærra er lagt á margar vörutegundir en 25%.

Í sambandi við innflutningshöftin hefir hagur kaupmanna ekki versnað almennt. Í skjóli þeirra hafa þeir getað lagt meira á sína voru og selt upp það, sem annars hefði verið lítt seljanlegt af birgðum sínum. Það gerir meira en að vega á móti þeim erfiðleikum, sem takmörkun innflutnings hefir valdið þeim. En athuga þarf, hvernig því fólki verður séð fyrir vinnu, sem verður atvinnulaust, ef verzlunum yrði fækkað. Till. okkar eru sjálfsagðar og hljóta því að verða samþ. Í kreppun. voru þær ræddar, en ekki teknar upp af n., vegna þess að rannsókn þótti vanta. Formaður n. taldi sig hlynntan því, að slík rannsókn færi fram. Ég vænti því, að allir geti á það fallizt, en tel að öðru leyti framkvæmd till. á valdi stjórnarinnar.