31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

1. mál, fjárlög 1934

Steingrímur Steinþórsson:

Ég á hér tvær brtt. við fyrri kaflann og skal aðeins segja nokkur orð um þær. Þær eru báðar á þskj. 296. Sú fyrri er undir VI. lið, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Eyf., um að veita Gísla Kristjánssyni frá Brautarhóli í Svarfaðardal 1500 kr. styrk vegna dvalar á sjúkrahúsi í Danmörku.

Svo er ástatt um mann þennan, að hann fór utan vorið 1931 til náms, en veiktist þá um haustið og varð að leggjast á sjúkrahús. Hefir hann legið þar síðan, og eru það orðnir 17 mánuðir. Nokkur von er um bata. Hann hefir engan styrk hlotið vegna þessara veikinda, og vitanlega eru þær litlu eignir, sem hann ætlaði að nota til námsins, algerlega þrotnar. Er því ekki um annað að ræða, þótt mjög fjarri sé það hans skaplyndi, en að leita á náðir hins opinbera um að hlaupa undir hagga. Ég þekki þennan mann persónulega og veit, að hann er sérstakur dugnaðar- og áhugamaður, sem mikils mátti vænta af, ef hann hefði haft heilsu til að ljúka því námi, sem hugur hans stóð til. Og ég vil vænta þess, að hv. deild líti á þessar erfiðu ástæður og sjái sér fært að samþ., að hann fái þennan umbeðna styrk. Þetta er lítið og í raun og veru miklu minna en þyrfti að vera. En þó er það nokkur hjálp.

Það er nú að vísu svo, að erfitt er að skera úr um það, og þá einkum fyrir hið pólitíska vald, hvort eigi að veita sjúkrastyrki í fjárl., og þá sérstaklega, hverjir einstaklingar eigi að njóta þeirra. En þar sem eins stendur á og hér, að Íslendingur verður fyrir öðru eins áfalli í framandi landi, þar sem hann hefir ekki við neitt að styðjast, þá skoða ég það sem skyldu þingsins að rétta hjálparhönd. Enda mun þetta viðurkennt að nokkru, því að það er lítilsháttar styrkur í fjárl. til þess að hjálpa Íslendingum erlendis, sem í vanda eru staddir að einhverju leyti.

Það er nokkur von um, að þessi maður fái heilsu aftur, og efast ég ekki um, að hann þá eigi eftir að inna af höndum þjóðnýtt starf og þar með margendurgreiða þennan litla styrk, sem hér er farið fram á. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um till., treysti hv. deild að líta á þau rök, sem ég hefi fært fram henni til styrktar, og vænti ég þess fastlega, að hún nái samþykki hv. deildar.

Þá á ég undir X. lið á sama þskj. till. um framlag til Hofsósvegar, hækkun úr 3 þús. kr., sem er í fjárlagafrv. stj., og upp í 6 þús. kr. Þessi vegur er nýtekinn í tölu þjóðvega, og voru fyrst á síðasta þingi veittar 5000 kr. til hans í fjárl. yfirstandandi árs. En nú er svo ástatt, að nauðsynlegt er að endurbyggja nokkurn kafla, helzt að gera nýjan veg annarsstaðar, því að það mun alls ekki borga sig að gera við þennan kafla, sem er ófær með öllu eins og nú er, því að hann er allmikið lengri en hinn fyrirhugaði vegur og verður úr hófi dýrt að gera við hann til bráðabirgða þar sem hann nú liggur. Til þess að geta fullgert þennan hluta, sem hér um ræðir, mun þurfa 10—11 þús. kr. fjárhæð í minnsta lagi. Nú er svo mikill hugur í mönnum norður frá um framkvæmdir á þessu, að þeir vildu lána fé upp á þetta framlag ríkissjóðs á næsta ári, svo að hægt verði að fullgera þennan hluta vegarins strax nú í sumar. Og ég veit, að 6 þús. kr. verða lagðar fram í bili af þeim hreppum, sem eiga hlut að máli, enda er beinlínis hafinn undirbúningur um þetta, og hefir vegamálastjóri tjáð sig þessu samþykkan. Ef víst væri, að þessar 6 þús. fengjust í fjárl. 1934, mundi verða hægt að koma þessu í framkvæmd á þessu ári.

Ég get náttúrlega haft sömu forsendur og aðrir hv. þm., sem mælt hafa með till. sínum um aukin framlög til vega í ýmsum héruðum, að hér sé um nokkurskonar atvinnubótastyrk að ræða. Víða hafa menn t. d. enga peninga til að greiða sín opinberu gjöld, ef þeir geta ekki unnið í vegavinnu eða að öðrum slíkum opinberum störfum.

Þó að þessi vegur sé nú kallaður Hofsósvegur, þá ætti hann heldur að heita Siglufjarðarvegur. Hann er frá Kolkubrú við Sleitustaði og norður Skagafjörð að austan til Hofsóss, og er því hluti af þeim vegi, sem tengir Siglufjörð við þjóðvegakerfi landsins. Það liggja fyrir brtt. um, að allur vegurinn frá Sauðárkróki til Siglufjarðar, sem enn er ekki tekinn í þjóðvegatölu, verði nú gerður að þjóðvegi, og vænti ég þess fastlega, að þær till. í vegalagafrv. nái samþykki þessa þings. Það er svo mikið nauðsynjamál að koma einum af stærstu kaupstöðum landsins í samband við þjóðvegakerfið, að ég skil ekki, að móti því verði staðið. Enda verður fátt til meiri nytsemdar Siglufirði og Skagafirði en að komið sé á vegarsambandi til Siglufjarðar, til þess að opna möguleika fyrir vöruflutningi á hinn siglfirzka sumarmarkað. Siglufjörður fengi ódýrari vörur en nú er, en innlendi markaðurinn er héruðunum margfaldur hagur, þar sem margfalt meira mundi þá seljast á Siglufirði af landbúnaðarafurðum; þetta framlag til Hofsósvegar er einn liður í slíku kerfi, þótt smátt sé. Ég vil því vænta þess, að eftir þessar upplýsingar, sem ég hefi gefið, sjái deildin sér fært að samþ. þessa hækkun á vegafénu til Hofsósvegar. Annars mun ég ekki að svo stöddu koma frekar inn á sambandið við Siglufjörð, því að væntanlega gefst kostur á því í öðru sambandi, þegar vegalögin koma til umr.

Það eru ekki fleiri till. í þessum kafla, sem nafn mitt er tengt við. En ég vil aðeins leyfa mér að segja örfá orð um till. undir II lið á þessu sama þskj., frá hv. þm. Ísaf., um að veita Jónasi Kristjánssyni héraðslækni á Sauðárkróki ferðastyrk til að sækja læknafund í Stokkhólmi, þar sem rætt verður um hollustu og óhollustu mataræðis. Ég vil aðeins mæla eindregið með þessari brtt., af því að ég veit, að Jónas Kristjánsson hefir sérstakan áhuga fyrir þessu máli og hefir starfað mjög að því að hvetja menn til hollra lifnaðarhátta á allan hátt. Er því líklegt, að af för hans á þennan fund megi margt gott leiða. Og því fremur er óhætt að mæla með þessari till., að till.maðurinn er manna færastur að dæma um þetta, þar sem hann er yfirmaður heilbrigðismála okkar.