01.06.1933
Neðri deild: 91. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (2280)

212. mál, sjávarútvegsmál

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég vænti þess, að aðaltill. verði samþ. Ég hefði gjarnan viljað vera meðflm. að henni, en vissi ekki um hana, er hún fór í prent. En það sakar vitanlega ekki. Ég er með henni jafnt fyrir því og vænti, að hún verði samþ.

Ég vil geta þess, að ég mun greiða atkv. með því, að verksviðið verði fært út líkt og brtt. hv. þm. Seyðf. ráðgerir. Samskonar till. var vísað á bug í kreppun., vegna þess að rannsókn þótti vanta.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Seyðf., að þetta á ekki að þurfa að standa í vegi fyrir rannsókn á sjávarútveginum, því að ef starfið reynist of umfangsmikið með þeirri viðbót, er ekki annað en að fela öðrum mönnum rannsókn á þeim málum, sem við bætast samkv. brtt. sócialista. Hin mótbáran, sem hv. þm. Vestm. kom með, að rannsókn á högum verkamanna væri ekki nauðsynleg, vegna þess að afkoma þeirra stæði og félli með atvinnuvegunum, á auðvitað fullan rétt á sér, en þó þessi rannsókn fari fram, er það á valdi þingsins að gera þann greinarmun, er því þykir rétt að gera um stuðning til hinna ýmsu stétta. Ég sýndi fram á það í kreppunefnd, að aðalörðugleikar framleiðenda eru í því fólgnir að reyna að halda í atvinnutækin, en verkamanna að halda í atvinnuna, og því er ekki svo hægt að gera sameiginlegar ráðstafanir.

Það er nú svo um þessar ráðstafanir til hjálpar atvinnuvegunum, að þær verða tvennskonar. Annarsvegar er bráðabirgðalausn út úr kreppunni. Því miður eru þær ráðstafanir, sem hér hafa verið gerðar vegna landbúnaðarins, flestar slíkar bráðabirgðaráðstafanir. Þær miða að því að bæta úr áföllnum vandræðum, fresta skuldum, lækka vexti o. þ. h., en síður að því að tryggja hag bænda í framtíðinni, svo að ekki sæki í sama horfið aftur og allt þetta verði gagnslaust.

Um tvo fyrstu liði þáltill. þessarar má segja, að þeir séu hliðstæðir þeim ráðstöfunum, er gerðar hafa verið vegna landbúnaðarins: Að rannsaka hve hag sjávarútvegsins sé komið og undirbúa tillögur til þess að varna því, að áfallin vandræði verði honum að fjörlesti. En aðrar ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir að leiði af rannsókninni, eru hinsvegar til frambúðar, svo sem rannsóknir á fjölbreyttari verkunaraðferðum, um aukinn markað og undirbúningur um lánsstofnun fyrir bátaútveginn. En þó tel ég 3. liðinn mikilsverðastan, því að þar er gripið á rót meinsins. Hv. þm. Seyðf. hafði á móti þessum lið og vildi fella hann burt. En ég vil einmitt mæla sérstaklega með þessum lið. Ef rannsóknin gæti leyst úr þeim viðfangsefnum, er þar greinir, væri það atvinnuveitendum og þiggjendum í senn hinn bezti stuðningur, sem hægt væri að veita þeim í þessari atvinnugrein sem annarsstaðar. Það er efni liðsins: „að athuga leiðir til að treysta betur en nú sameiginlega hagsmuni vinnuþiggjenda og vinnuveitenda, þeirra, er vinna að sjávarútveginum, bæði á sjó og landi, og gera tillögur til að draga úr fjárhagsáhættu útvegsins“. Það er skiljanlegt, að hv. þm. Seyðf. vilji ekki ræða svona atriði undir því kapitalistíska skipulagi, sem nú er. Það er ein af aðalkennisetningum sócíalista, að hagsmunir atvinnurekenda og verkamanna rekist á, og hljóti að rekast á, og þeir benda ekki á aðra leið út úr þeim ógöngum en sitt aðalstefnuskráratriði, þjóðnýtingu í einhverri mynd. Og það er einmitt hinn sterki grundvöllur slíkra kenninga, að á þessum málum er mikið ólag. Vegna þessa ólags hefir stefna sócíalista náð viðgangi, en ekki vegna úrræða þeirra. Enda hafa þeir aldrei getað orðið sammála um leiðirnar sjálfir, þótt þeir séu sammála um ólagið, eins og við. Ég vil því sterklega mæla með rannsókn á því, hvort ekki sé hægt að koma lagi á þessi mál án þess að gerbreyta þjóðskipulaginu. Ýms ráð hafa verið tekin upp annarsstaðar, og sum gefizt sæmilega, svo að þetta er ekki óhugsandi. Reyndin hefir sýnt, að þessi tvö öfl, fjármagn og vinna, eru í sífelldri baráttu. Fyrrum kúgaði fjármagnið vinnuna og hirti meginhlutann af ágóðanum. Vinnan fór auðvitað að taka á móti, og nú er víðast svo komið, að vinnan hefir orðið yfirsterkari og undirokað fjármagnið. Þetta er auðvitað í fljótu bragði gleðilegt, en þó hefir þetta ekki orðið til hagsældar hinum vinnandi lýð. Þetta hefir orðið einn af svokölluðum Pyrrhusarsigrum. Um leið og verkalýðnum hefir tekizt að knýja upp kaupgjaldið, hefir atvinnuleysið sótt hann heim. Fjármagnið hefir lamazt og dregið úr framkvæmdum. Út úr öllum atvinnurekstri fæst ákveðin upphæð og fái einn aðili meira hlutfallslega en honum ber, kemur það niður á öðrum og atvinnufyrirtækinu um leið. Hvort sem fjármagnið eða vinnan sigrar, leiðir það til ógæfu. Þess vegna þarf að sameina hagsmuni beggja. Allt annað er ný bót á gamalt fat.

Enska þjóðin hefir reynt fyrirkomulag, sem nefnt er profit sharing eða ágóðahlutdeild. Henni er svo varið, að allir, sem við fyrirtækið starfa, frá framkvæmdastjóra til sendisveins, fá ákveðinn hluta af ágóðanum. Sá galli er á þessu fyrirkomulagi, að það hefir alið mjög á tortryggni. Menn efast gjarnan um, að reikningarnir séu réttir og þeir fái það, sem þeim ber. Ef ekkert fé er til úthlutunar, leiðir af því óánægju.

Í fyrirkomulagi því, er Englendingar nefna copartnership, geta verkamennirnir eignazt hluti og þar með öll réttindi hluthafa. En reynslan hefir sýnt, að verkamönnum gengur svo seint að eignast hlutina, að þeir missa áhuga á því.

Þá hefir verið reynd þriðja leiðin, hin svokallaða starfsmannahlutdeild (employer partnership). Við hliðina á hinum almennu hlutabréfum eru einnig gefin út hlutabréf, sem hljóða á vinnu. Þannig getur verkamaður, sem enga peninga á, fengið hlutdeild í fyrirtækinu. Þau eru ekki reiknuð til skatts, en veita, eins og fjármagnshlutabréfin, rétt til þátttöku í stjórn og eftirliti með rekstri fyrirtækisins og hlutdeildar í sjóðum. Og það er ennfremur ákveðið, að í arð af fjármagnshlutabréfum megi ekki greiða nema 5% og 1-2% vegna áhættu, en vinnan eigi allt, sem fram yfir er. Þetta er hvass spori, því að á þennan hátt fá þeir, sem vinna, hærri arð en þeir, sem eiga fjármagnið. Þarna er gengið út frá því, að fjármagnið sé í raun og veru óvirkt, eins og það lægi í banka, og beri því ekki hærri vexti en fjármagnið í landinu fær á hverjum tíma, að viðbættum áhættuprósentum. En hið starfandi magn í fyrirtækinu eru þeir, sem starfa við það, allt frá forstjóranum til hins lægsta. Þeir, sem þarf að spora áfram, eru ekki hluthafarnir, heldur starfsmennirnir. Þetta fyrirkomulag hefir reynzt vel, einkum þar sem launin eru mikill hluti af kostnaði. Má vera, að það ætti ekki eins vel við útgerðina, þar sem launin eru ekki aðalkostnaðarliðurinn. Ég skal ekki slá neinu föstu um þetta, en vil aðeins mæla á móti því, að þessi mikilsverðasti liður till. verði felldur niður. Og ég trúi því ekki, að hv. þm. Seyðf. geri sig að þeim skoðanaþræli, að hann vilji ekki láta rannsaka leiðir til úrlausnar, meðan hann og flokksmenn hans geta ekki breytt skipulaginu hvort sem er.