31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1934

Bernharð Stefánsson:

Ég flyt tvær brtt. við þennan fyrri hluta fjárl. Get ég búizt við, að önnur þeirra þyki nokkuð stór, eins og nú er ástatt; býst ég sérstaklega við, að hv. fjvn. muni þykja vera farið fram á nokkuð mikið. Þetta er 20. brtt. á þskj. 296, og er um 200 þús. kr. fjárveiting til öldubrjóts austur af Siglufjarðareyri, gegn tvöföldu framlagi frá hafnarsjóði Siglufjarðarkaupstaðar.

Ég skal geta þess, að ég bjóst við því að geta fyrir þessa umr. látið fjvn. og e. t. v. deildinni í té nægileg gögn og skilríki viðvíkjandi þessu máli. En það hefir nú dregizt lengur en ég bjóst við í fyrstu, að ég fengi þessi gögn í hendur. Ég mun því ekki sjá mér fært annað við þessa umr. en að taka þessa till. aftur til 3. umr. Ég vona, að ég geti gefið bæði n. og d. upplýsingar þær, sem ég nefndi nú, milli umr. En þó að ég muni að umr. lokinni taka till. aftur, vil ég geta þess nú þegar, að þessi fjárbeiðni er miðuð við áætlanir verkfræðinga, og meira að segja við tilboð frá útlendu verkfræðifirma um að byggja þetta mannvirki. Um nauðsyn og þýðingu þessa máls þykir mér rétt að drepa á nokkur atriði.

Eins og menn vita, þá eru margar bryggjur fram af Siglufjarðareyri. Og þessar bryggjur eru stöðugt í hættu vegna brima og stundum líka vegna ísreks. Hefir hvað eftir annað orðið stórtjón af þeim orsökum. Þarna eru sem sagt ákaflega miklir fjármunir í hættu. Það, sem ég tel a. m. k. fyrir Alþingi aðalatriðið í þessu máli, er það, að síldarbræðslustöð ríkisins á þarna þrjár bryggjur. Þær eru einna nyrzt af bryggjum við Siglufjarðareyri og því í mestri hættu af öllum bryggjunum. Þessi fjárveiting, sem ég vona að verði samþ. á sínum tíma, er því veitt e. t. v. að mestu leyti til þess að tryggja eignir ríkissjóðs. Verð ég því að líta svo á, að jafnvel þótt nú sé kreppuástand og illt um fjárveitingar, þá sé þessi till. engin fjarstæða. Það gæti orðið tilfinnanlegt fyrir ríkissjóð, ef bryggjur síldarverksmiðjunnar færu af brimi eða ísreki. Auk hins beina tjóns fylgdu ekki lítil óþægindi, ef slíkt bæri að höndum að vori til og ekki yrði búið að bæta úr þegar verksmiðjan þyrfti sem mest á bryggjum að halda.

Á þessum tímum er vert að líta sérstaklega á það atriði í þessu máli, að ef ráðizt væri í þetta mannvirki, mundi það vitanlega auka mjög atvinnu verkamanna á Siglufirði, sem nú eru atvinnulitlir. Mér hefir skilizt eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi aflað mér um þetta efni, að af kostnaðinum muni langmestur hluti vera verkalaun. Og í þessu sambandi langar mig til þess að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvers vegna atvinnubótastyrkur hafi ekki verið veittur til Siglufjarðarkaupstaðar árin 1931 og 1932, eins og til annara kaupstaða. Ég hygg, að þetta sé rétt, að atvinnubótaféð hafi ekki verið látið ganga til Siglufjarðar, þrátt fyrir ítrekaða beiðni. Mér þykir líklegt, að stj. hafi byggt þessa afstöðu sína á því, að síldarverksmiðja ríkisins veiti Siglfirðingum atvinnu. En ef Siglfirðingar eiga þennan rétt, fá þeir hann uppfylltan nú, ef brtt. mín verður samþ. Og hér er um fyrirtæki að ræða, sem hefir meiri rétt á sér en margt annað, sem verið er að fást við í kaupstöðum og kallað er atvinnubótavinna. En vegna þess að ég hefi ekki haft tíma til að afla mér fullnægjandi gagna í þessu máli, vil ég ekki leggja till. undir hnífinn að sinni, en vænti þess, er ég hefi lagt plöggin fyrir fjvn., að það verði frsm. hennar, sem mælir fyrir þessari till. við næstu umr. fjárl. í minn stað.

Þá á ég brtt. á þskj. 306 um að hækka framlag til Öxnadalsvegar úr 7 þús. kr. í 10 þús. kr. Á síðari árum hefir verið lögð áherzla á það að halda veginum frá Rvík til Akureyrar vel bílfærum, eins og sést á fjárveitingum, sem fjvn. leggur til, að veitt sé til Holtavörðuheiðarvegar. Hv. 1. þm. S.-M. var að vísu að tala um, að þessar langleiðir hefðu ekki mikla hagnýta þýðingu, heldur væru þær mest til skemmtiferða, fyrir „farfugla“ á sumrum. Þessir „farfuglar“ eru þá nokkuð margir, því að umferðin er orðin geysimikil, eins og allir vita. Nokkur hluti þessara ferðalaga er án efa skemmtiferðir, en í fyrsta lagi getur orkað tvímælis, hvort slík ferðalög hafi ekki rétt á sér, og í öðru lagi er víst, að miklu fleiri fara þessar ferðir í brýnum erindagerðum. Flestir, sem hafa farið þessa leið, munu hafa tekið eftir því, að á henni eru tveir kaflar langverstir, annar vestan til á Holtavörðuheiði og hinn í Öxnadal. Nú liggur akbrautin frá Akureyri út á Þelamörk og að Öxnadal. Innar í dalnum er og akvegarkafli, en bilið á milli akveganna er talið af öllum vera versti eða næstversti kaflinn á allri leiðinni frá Rvík til Akureyrar. Mig furðar, hve þessi fjárveiting er lágt áætluð í brtt. fjvn., og þar sem ég fer svo hóglega í sakirnar, vona ég, að brtt. mín verði samþ. Verði það gert, má gera ráð fyrir, að hægt verði að tengja vegina í dalnum saman á árinu 1934.

Þessi vegabót hefir alþjóðlega þýðingu og er sveitarnauðsyn um leið. Hún er skilyrði fyrir því, að sveitin geti tekið þátt í starfsemi mjólkursamlags á Akureyri. Ég myndi þó ekki hafa borið þessa brtt. fram, ef ýmsir aðrir þdm. hefðu ekki borið fram brtt. um vegi í sínum héruðum.

Ég mun láta þetta nægja og ekki blanda mér í brtt. einstakra þdm. né greinar frv.