02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (2302)

214. mál, launamál, starfsmannafækkun og fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Þó að launalögin séu ekki eldri en frá 1919, þá er það mála sannast, að það er fyrir löngu orðið tímabært að endurskoða þau. Þær miklu verðsveiflur, sem orðið hafa í landinu síðan þau voru sett, og það umrót, sem orðið hefir á gjaldeyrinum bæði hér á landi og annarsstaðar, hefir komið svo miklu ósamræmi á launamálin, bæði eldri og yngri, eins og rækilega hefir verið bent á af hv. frsm., að það er orðin hin mesta nauðsyn að koma á samræmi í þeim. Ég minnist þess, að á öllum þeim þingum, sem ég hefi setið, hafa komið fram raddir um það, að endurskoða þyrfti og samræma launalöggjöfina. En því hefir alltaf verið borið við, að ekki væri tímabært að ganga frá þessum málum, af því að ekki væri búið að verðfesta gjaldeyrinn og ómögulegt væri að vita, hvaða breyt. hann gæti tekið frá ári til árs, og meðan svo væri ástatt væri ekkert vit í að endurskoða löggjöfina og slá neinu föstu um launin, þar sem breyting á genginu gæti kollvarpað því innan skamms tíma. En ég held, að óhætt sé að segja, að þessar ástæður séu ennþá fyrir hendi. Ég held, að aldrei hafi verið meiri ruglingur á verðsveiflum en nú, og að því leyti má segja, að við séum í kviksyndi í þessu máli. En það er einn möguleiki til þess að samræma þetta hvorutveggja, og hann er sá, að byggja að nokkru leyti á svipuðu fyrirkomulagi og gert var í gamla daga, á landaurareikningi, sem að nokkru leyti, en þó á mjög ófullkominn hátt, var tekið upp 1919 með þeirri dýrtíðaruppbót, sem þá var samþ. og verið hefir í l. til þessa og er nú. Ég býst við, að langheppilegasta fyrirkomulagið um launalöggjöf væri það, að hafa stofnlaunin tiltölulega lág, en a. m. k. helmingur hinna venjulegu launa byggist á verðvísitölu, sem hækkaði og lækkaði eftir verðlaginu í landinu frá ári til árs. Það hefir réttilega verið á það minnzt, að dýrtíðaruppbótarreikningurinn er ekki að öllu leyti fullkominn. En ég hygg, að ef að þessu ráði væri hnigið, mundi mega finna einhverja verðvísitölu, sem tæki það marga af kostnaðarliðum, að hægt væri að finna nokkurnveginn rétta mynd af þessu verðlagi frá ári til árs. Ef sú regla væri upp tekin, þá væri ekki ástæða til að bíða eftir því, sem sennilega gæti orðið langt þangað til, að nokkuð fast fengist undir fótinn um verðlag í landinu á vörum, sem menn verða að nota sér til lífsframfæris. Enda er þetta bæði réttlátt og hagkvæmt, því að þegar verðlagið er hátt og atvinnuvegirnir þar af leiðandi reknir með sæmilega góðum arði, er hægara að greiða starfsmönnum ríkisins sæmilega vel, og þá er þess meiri þörf, því þá er dýrara að lifa í landinu en þegar verðlagið er lágt; fer saman örðug geta þjóðarinnar að greiða há laun og minni þörf á, að launin séu há, því þá er venjulega ódýrara að lifa.

Ég býst við, að til fullnaðar verði ekki hægt að leysa málið réttlátlega nema með því að taka upp þá reglu að hafa nokkuð mikinn hluta launanna hreyfanlegan frá ári til árs eftir því, sem verðlag er í landinu.

Ég vil því leggja áherzlu á það, að stj. taki rækilega til athugunar, hvort ekki sé rétt að taka nú upp hinn gamla landaurareikning með nákvæmri verðvísitölu og koma launamálunum þannig fyrir, að hennar gæti mikið meira og réttlátar en verið hefir að undanförnu samkv. þeirri dýrtíðaruppbót, sem ákveðin er í launalögunum frá 1919.