02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (2322)

208. mál, templaralóðin í Reykjavík

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Eins og hv. 1. flm. till. gat um, þá er orðalag hennar allóákveðið. Hið eina, sem sagt er, er það, að milliþingaforsetum er falið að gera samning við templara um lóðina. Ég hefi nú ekki á móti því, að slík till.samþ. En mér þykir þetta þó allt of vítt umboð, þar sem engin ummæli fylgja um það, hver vilji þingsins er. Hv. 1. flm. forðaðist sem heitan eldinn að minnast einu orði á það, til hvers till.menn ætluðust í þessu efni. Ég vil því í fám orðum lýsa minni skoðun um þetta mál.

Þegar Alþ.húsið var reist, urðu um byggingu þess stór mistök. Húsið var í sparnaðarskyni lækkað um 1 metra frá því, sem það hafði verið teiknað. Við það missti það svip, þótt það sé fallegt að vísu. Einnig var það sett á skakkan stað. Hefði það verið sett nokkru sunnar, þá hefði það notið sín betur í sambandi við dómkirkjuna. Þá hefði líka orðið autt pláss framundan því, sem hefði verið vel fallið fyrir samkomur. En þetta stafar af því, að tjörnin var miklu stærri þá en nú, og hér sunnan við voru þá fen og foræði. Menn voru þá ekki svo stórhuga, að þeim kæmi til hugar að fylla þau upp. Úr þessum mistökum er nú ekki hægt að bæta. Húsið verður hvorki hækkað né flutt. En þó væri til stórra bóta að taka templarahúsið burt, stækka garðinn og fá þar með frjálst útsýni yfir tjörnina. Þá mundi og Alþ.húsið njóta sín frá þeirri hlið. Ég hefi ávallt hugsað mér, að templarahúsið yrði látið víkja. Ég vil því láta þá skoðun mína fylgja till., að ég vil undir öllum kringumstæðum, að forsetar semji á þeim grundvelli, að Alþ.húsið fái lóðina. Það er þó ekki meining mín, að þrengt sé að templurum. Ekki sízt fyrir þá sök, ef aftan að þeim hefir verið farið með þessa skilmála. Ég hygg, að ekki komi til mála að flytja hús þeirra, eins og sagt er í skilmálunum. Húsið er orðið hrörlegt og lóðir í nágrenni þess dýrar. En ég er sammála þeim forsetum Alþ., er töldu, að Alþ.húsið hefði þörf fyrir lóðina, og vil því heldur, að templurum sé bættur skaðinn á annan hátt. Ég var nýkominn á þing, er templarar vildu stækka húsið, og var alveg sammála forsetum, er komu í veg fyrir, að það væri gert. Ég vil því ekki, að neitt það sé gert, er orðið geti til þess, að Alþ. missi þessa lóð, og óska þess, að forsetar geri ekkert í þá átt.