02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2324)

208. mál, templaralóðin í Reykjavík

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hnaut um nokkur orð hjá hv. 1. flm. Hann sagði, að hann vonaðist eftir, að forsetarnir teygðu sig sem lengst til samkomulags um þetta atriði, að fá þessa lóð til umráða fyrir Alþingi. Nú skilst mér, að það ákvæði fylgi lóðinni, að ríkið fái umráðarétt yfir henni, þegar það þykist þurfa á henni að halda. Hér þarf því ekkert að teygja sig til samkomulags um að láta þessi ákvæði vera í gildi, sem er búið að dæma bæði fyrir undirrétti og yfirrétti.

Hitt verð ég að játa, að ég er dálítið hræddur við að fela forsetum að gera út um þetta mál við templara í Rvík, af því að ég hygg, að þeir séu óþarflega mikið á þeirra bandi, og finnst það kannske ekki minni prýði fyrir Alþingishúsið og umhverfið að hafa þar eitthvert templarahús „trónandi“, eins og þar væri fallegur garður til viðbótar við þann, sem nú er.

Mér sýnist sem sagt ekki vera mikil nauðsyn að afgr. málið á þennan hátt. Það hefir kannske farið framhjá mér, ef upplýst hefir verið, að templarar hafi gert einhverja sérstaka tilraun við ríkisstj. eða Alþingi um samninga um alla lóðina fyrir þetta hús eða annað, sem kynni að verða byggt.

Ég verð að taka undir með hv. 3. þm. Reykv., og tel mjög varhugavert að gefa forsetum nokkurt vald í þessu efni, nema því aðeins, að það sé undirskilið, að ekkert sé gert bindandi fyrr en á næsta þingi, að þeir legðu þá fyrir þingið þann samning, sem þeir fyrir hönd Alþingis og stúkunnar í Reykjavík gætu sætt sig við.