31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er satt, að síldarverksmiðjan var ekki reist vegna Siglfirðinga einna, en ég geng ekki inn á, að hún hafi dregið úr atvinnu fyrir þeim. Ég er ekki tilbúinn að gefa nú upplýsingar um, hversu háa upphæð verksmiðjan greiðir í verkalaun þar á staðnum, en ég hygg, að hún sé allhá. Ég skal lofa hv. 1. þm. Eyf. því, að athuga það, hvort Siglufjarðarkaupstaður geti ekki komið til álita, áður en búið verður að úthluta öllu atvinnubótafénu fyrir árið 1933. En hver niðurstaðan verður, get ég að sjálfsögðu engu lofað um fyrirfram.

Út af yfirlýsingu hv. frsm. fyrir hönd fjvn. vil ég aðeins taka það fram, að mín meining var sú, að stj. tæki gilda bréflega yfirlýsingu frá fjvn., er samþ. þessa 500 kr. greiðslu til Rauðakrossdeildar Akureyrar. En ef hv. frsm. sér um, að þessi yfirlýsing hans verði skjalfest í umr. þingtíð., þá mun ég telja það fullnægjandi.