06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (2358)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég held, að þessi síðasta samlíking hæstv. ráðh.

ætti betur við hann en mig, svo nákominn sem hann telur sig landbúnaði og búpeningi, þó að einlægnin sé sjálfsagt svipuð þar og annarsstaðar.

Ég verð að segja, að ég get hvorki furðað mig á því né þakkað það, þó að Vigfús Einarsson hafi nú látið endurskoða sjóðina. Til þess liggur sama ástæðan og til riftingarinnar á Reykjahlíðarkaupunum, sú, að flett var ofan af óhæfunum, og hann vissi, að ég hafði einmitt gert fyrirspurn um endurskoðun þeirra í stjórnarráðinu, en þeir höfðu þá engir verið endurskoðaðir. Það er auðvitað gott að heyra, að allt sé með felldu um þessa sjóði, enda hafði ég aldrei gert ráð fyrir, að þeim hefði verið beinlínis stolið, þótt það hefði auðvitað vel getað komið fyrir, þar sem þeir hafa ekki verið endurskoðaðir árum saman, en skrifstofustjórarnir verið látnir valsa með þá til afnota fyrir sjálfa sig og vini og venzlamenn.

Ég vil skora alvarlega á fjmrh., að hann láti fara fram endurskoðun á öllum sjóðunum! Ég hygg óhætt að fullyrða, að ef árleg endurskoðun hefði farið fram á sjóði þeim, er hér ræðir um, hefði sú notkun peninganna, sem hæstv. dómsmrh. telur svo sjálfsagða, aldrei átt sér stað. Hefði almenningur vitað um útlán skrifstofustjórans til vildarvina sinna, hefðu ef til vill verið settar skorður við slíku athæfi í tæka tíð, þótt hæstv. dómsmrh. telji allt eðlilegast, sem svívirðilegast er. Þessi ráðh., sem ég verð víst skv. þingsköpum að kalla hæstvirtan — (Dómsmrh.: Þm. má gjarnan sleppa því.) — þá geri ég það framvegis.) — sagðist hafa ætlað að kaupa jörðina undir fávitahæli. Það er alkunnugt, að Vigfús Einarsson hefir um langan tíma reynt með öllu mögulegu móti að selja ríkissjóði jörðina. Hugmyndin um fávitahælið er miklu yngri en söluhugmynd Vigfúsar, og líklegast, að hún sé fundin upp nú, eftir að ljóstrað var upp samningamakki ráðh. og skrifstofustjórans. Annars er undarlegt, að ráðh. skuli ekki fást til að lesa upp samninginn eða „sölutilboðið“, sem hann kallar. Hverju á að leyna þingið?

Það má segja, að margt sé undarlegt í sambandi við þessi fyrirhuguðu kaup á Hlaðgerðarkoti. Gat sjóðurinn keypt jörðina? Hann kvað að vísu nema 240 þús. kr. — en hann á sama og ekkert fé handbært. Hvaðan átti að taka peningana? Vigfús Einarsson skuldaði sjóðnum að vísu 30 þús., en hvaðan átti að taka 60 þús.? Hvaða brask var hér á ferðinni á milli ráðh. og skrifstofustjórans? Átti kannske einhver annar sjóður að lána gamalmennasjóðnum til að kaupa jörðina undir fávitahæli? Það er engu líkara en að vitlausir menn hafi farið með þetta mál, ef ekki annað verra. Þá er látið svo sem samþykki fjárveitinganefnda hafi átt að koma til. Æskilegt væri að sjá, hvort það ákvæði stæði í samningnum. Annars er það auðvitað ekkert annað en skálkaskjól að varpa því fram, að fjvn. ráði nokkru um rekstur fávitahælis. Slíku ræður vitanlega Alþingi eitt.

Engum dettur annað í hug en að kaupin hefðu gengið sinn gang, hefðu þau ekki vitnazt, eins og raun varð á.

Ráðh. segir, að til að stofna fávitahæli hafi fyrst og fremst þurft peningalegan grundvöll. Þennan grundvöll átti að leggja með því að ræna fé úr öðrum sjóði og kaupa jörð með húsum, sem voru til alls annars ætluð. Ráðh. hafði ekki leitað sér neinna upplýsinga hjá læknum um þessi mál; hann hefir ekki einu sinni neina hugmynd um, hve fávitar hér á landi eru margir. Allt ber að einum brunni: að kaupin hafi átt að gera í þeim eina tilgangi að losa skrifstofustjórann við jörðina á þennan líka þokkalega hátt.

Ráðh. segir, að ég hafi hringt sig upp og sagt, að ég ætlaði að ráðast á sig út af þessu máli. Fer hann hér með ósatt mál að vanda, þó að snefill af sannleika finnist í því. Ég spurði hann, hvort satt væri, að sjóðurinn hefði keypt jörðina fyrir þetta verð, 90 þús. Ráðh. spurði mig, hvort ég vildi kaupa hana. Ég neitaði því, en kvaðst mundi gera þessi kaup að opinberu umtalsefni, ef þau hefðu verið gerð. Ráðh. þykist hafa sýnt eitthvert frábært drengskaparbragð með því að láta mér upplýsingar í té um málið. Ég veit ekki, hvað er sjálfsagðara, enda átti ég sem þm. fulla heimtingu á slíku. Annars hefi ég hálfvegis orðið að toga þessar upplýsingar út úr honum og fékk einar í dag eftir þriggja vikna bið.

Ráðh. lét sér tíðrætt um hitapytt þarna í landareigninni. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma, en aðeins benda á, að ríkið á jarðir, þar sem saman fer meiri hiti og betra land, eins og Reyki í Ölfusi. Annars var Vigfúsi Einarssyni gefin borunin, svo að ég sé ekki ástæðu til; að sjóðurinn fari að borga honum hitann aftur. (ÓTh: Hitinn skapast þá við borunina!) Nei, en hann verður fyrst hagnýttur við það að heitt vatn kemur upp við borunina.

Ég vil spyrja dómsmrh. að því, hvort hann álíti, að gamalmennahæli, sem reist hefði verið fyrir 40 árum, myndi fullnægja kröfum nútímans. Hæli, sem nú væri byggt, myndi vitanlega ekki frekar fullnægja kröfum tímans 1973, en hvað sem því líður, var auðvitað skylt að fylgja skipulagsskrá sjóðsins. Þetta mál liggur svo ljóst fyrir, að ég hefi hér engu við að bæta. En ég get ekki séð neitt undarlegt í því, þótt álit þingsins á Vigfúsi Einarssyni komi fram í þáltill. þessari, þar sem hann er meðsekur dómsmrh. um meðferð sjóðsins, og jafnvel lengur sekur en hann. Menn, sem efla hag sinn á kostnað sjóða, sem eru í vörzlu þeirra, eiga ekki lengur að sitja í slíkum stöðum sem Vigfús Einarsson.