10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (2363)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Sveinbjörn Högnason:

Vegna dagskrár hv. 1. þm. S.-M. vil ég taka það fram, að hún er að vísu rétt að því leyti, að ekki mun hafa við þurft neinna verulegra aðgerða Alþingis til að rifta gerðum hæstv. dómsmrh. og þó mun það ekki hafa valdið svo litlu um, að þessi áformuðu kaup voru látin ganga til baka, áður en til verulegra aðgerða Alþingis kæmi, að nokkrir alþingismenn höfðu látið í ljós óhug sinn um það mál. — Ég tel því, að ekki sé hægt að afgr. svo þetta mál, að eigi sé látið í ljós af Alþingi, að þetta séu víti, sem varast beri, en það séu ekki athafnir, sem ætíð myndu látnar óátaldar. Er þá hætt við, í næsta sinn, sem einhver ráðh. hefði slíkt í hug, að hann myndi ekki láta sitja við áformið eitt, heldur framkvæma verkið fullkomlega í skjóli þeirrar kvittunar, sem dagskrá hv. 1. þm. S.-M. gæfi nú. Hinsvegar tel ég það rétt, að fleiri atriði eigi að taka til greina í starfi þessa hæstv. ráðh., ef Alþingi gefur honum vantraust, og væri þá víst sumt ekki veigaminna en þetta, að margra dómi. — En eftir því, sem öllu því pólitíska viðhorfi er nú háttað, álít ég, að möguleikar fyrir áframhaldandi veru hæstv. dómsmrh. í stjórn landsins verði að athugast og afgreiðast á miklu víðari grundvelli en þeim, sem till. hv. jafnaðarmanna markar henni.

Ég get því fallizt á till. hv. 1. þm. S.-M. að öðru en því, að mér finnst óhugsandi, að Alþingi afgr. svo þetta mál, að það láti ekki í ljós álit sitt um það, hvort hér hafi verið gengið inn á óheppilega braut eða ekki. Og ég er ófáanlegur til slíkrar afgreiðslu.

Ég vil því bera fram svofellda brtt. við dagskrá hv. 1. þm. S.-M.:

„Á milli orðanna „ríkisstjórnar“ og „þykir ekki ástæða til“ komi: „og í því trausti, að slíkar stjórnarathafnir komi eigi fyrir framvegis“.

Ég vona, að hv. alþm. sjái, að hér er farið svo vægilega sem frekast er unnt um afgreiðslu þessa máls.