10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (2364)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Þetta mál virðist vera að verða nokkuð flókið, því að uppi eru margar till. um að ljúka því. En í raun og veru eru ekki svo margar skoðanir um málið og till. eru. Það er víst ekki nema ein skoðun ríkjandi um það, að þetta verk sé fordæmanlegt að öllu leyti, að það sé vítavert, að einn af ráðh. landsins skyldi framkvæma þessa athöfn, sem hér um ræðir. Það er hér um bil sama, hvort dagskrártill. þessi er samþ. eða ekki, því að hún gefur í raun og veru ekki rétta hugmynd um það, hvaða hugsun og tilfinningar eru fyrir þessu máli hjá mönnum, án tillits til flokkaskiptingar, því að þetta Reykjahlíðarmál er svo almennt fordæmt, að ég veit ekki nema um einn íhaldsmann, sem vildi afsaka það. Ég vil gefa hæstv. dómsmrh. færi á því að afsaka þetta hér, ef hann treystir sér til, með því að við, sem vorum í stj. á undan honum, höfum gefið tilefni til slíkra kaupa. En flokksbræður hæstv. dómsmrh. hafa á einn og annan hátt reynt að halda því fram, að ekki hafi verið vel um hnútana búið, svo að fordæmi hafi skapazt. Ég vil taka undir það að nokkru leyti með hæstv. dómsmrh., að hann lýsir býlinu rétt að því leyti, að Vigfús Einarsson hefir lagt mikið fé í umbætur á jörðinni.

Það er rétt, eins og hefir verið sagt um þessa jörð, að hún er skemmtileg fyrir ríkan mann að nota hana sem skemmtilegt óhóf, eins og það hefir verið orðað. Það er draumur hins efnaða manns. En jörðin — og þó sérstaklega húsin — er ekki heppileg til annara nota en sem sumarbústaður efnaðs manns.

Ég vil taka það fram, af því ég er óánægður yfir þeim þætti, sem skrifstofustjórinn á í þessu máli, sem ég álít, að hann eigi skilið, að þegar hann lagði út í ræktun á þessari jörð, þá ætlaði hann að fá þarna myndarlegt býli til eigin nota, og lagði því mikla vinnu í þessar umbætur. En áður en hann vissi af hafði hann lagt miklu meira fé í jörðina en nokkur von var, að hún mundi renta, og lenti því í hálfgerðum vandræðum með þessa eign sína. Ég átti tal um þetta við hann meðan við vorum samverkamenn í stjórnarráðinu. Mér var það ljóst, að hér var um að ræða mann, sem hafði lagt í fyrirtæki, sem hafði gengið illa, og hann vildi sleppa frá því á hvern þann hátt, sem hann gæti. Ég vissi það ekki fyrr en ég var kominn úr stj., að hann hafi gert tilraun til þess við menn, sem með mér voru í ríkisstj., að fá sjóð þennan til að kaupa af sér jörðina, en því hafði verið neitað. Við töluðum oft um það, hvort ekki mundi vera heppilegt, að landið keypti jörðina og hefði hana til opinberra nota. Töluðum við um það sérstaklega í sambandi við holdsveika sjúklinga, þar sem þeir væru orðnir svo fáir, að núv. spítali er orðinn allt of stór til þeirra nota. Fór hann þess á leit við mig, að ég styddi að því, að landið keypti jörðina í því augnamiði, að hún yrði notuð til þessara hluta, og neitaði ég því. Ég fann, að það var eðlilegt, að skrifstofustjórinn vildi losna við jörðina, en ég sá, að það var erfitt með öðru móti að fá lausn á þessu máli en að einhver ríkur maður keypti hana og notaði sem skemmtilegt óhóf fyrir sjálfan sig.

Ég skal þá víkja að því, sem almenningur veit um þetta mál. Það höfðu borizt út fregnir um það, að þessi kaup hefðu verið gerð. Ég trúði því ekki, að þetta væri rétt. Vissi ég svo ekkert um þetta fyrr en ég las um það í Alþýðublaðinu. Það hafa sjaldan birzt í blaði hv. 2. þm. Reykv. greinar, sem vakið hafa eins mikla athygli og þessar greinar, og það var fyrir það, hvað þetta efni var nýstárlegt. Vinir skrifstofustjórans, Vigfúsar Einarssonar, munu í fyrstu hafa vonað, að þetta væri rangt, en þegar málið upplýstist betur, reyndist allt þetta vera rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, og meira til. Ég efast ekki um, að ef þá hefði farið fram algerlega ópólitísk atkvgr. um það, hvort hæstv. dómsmrh. og Vigfús Einarsson ættu að sitja áfram í sínum embættum, þá hefðu þeir fengið sáralítið fylgi.

Ég vil þá leiða nokkur rök að því, að hæstv. dómsmrh. hefir áreiðanlega notað nokkur undanbrögð til þess að skjóta sér undan sökum í þessu máli, sökum, sem hann sá, að mundu koma yfir sig, ef þessum kaupum yrði haldið áfram, og sem mundu baka honum óþægindi frá sínum eigin flokksbræðrum, utan þings sem innan. Það fyrsta er það, að þegar sá þm., sem mest hefir um þetta skrifað, hv. 2. þm. Reykv., spurði hæstv. dómsmrh., hvort þetta væri afgert, sagði ráðh. já, og hvergi hefir komið fram neitun gegn því.

Það var fullt útlit fyrir, að Vigfús Einarsson mundi engan kaupanda fá að þessari eign sinni. Enginn virtist vilja líta við henni, nema þá fyrir miklu minna verð, þriðjung hins umrædda verðs eða svo. Það var því engin hætta á, að landið mundi tapa þeim möguleika að eignast þessa jörð, þótt beðið hefði verið með að gera nokkurn samning þar til þing kæmi saman og gæfist kostur á að láta álit sitt í ljós. En þó er samningurinn gerður snemma í nóvember, og að því er allar líkur benda til, þá hefir hann verið gerður bindandi þá þegar. Allar líkur og reyndar sterk rök benda til þess, að allt hitt, um skilyrðin, muni vera seinni tíma tilbúningur. Á það bendir m. a. samtal hv. 2. þm. Reykv. við hæstv. dómsmrh., sem þm. skýrði frá í Alþýðublaðinu. Og þó segja megi, að þar sé ekki fyllri sönnun en sú, sem maður er gegn manni, þá bendir allt annað, sem fram hefir komið í málinu, á þetta sama, að samningurinn hafi upphaflega verið gerður fyrirvaralaust. Það var líka alveg ástæðulaust að vera að gera samninginn fyrr en fullnægt var skilyrðum þeim, er talið var, að hefðu verið sett fyrir gildi hans. Auk þess var atriði sem þetta fjvn. Alþ. óviðkomandi sem slíkum og því ástæðulaust að blanda þeim inn í þessi kaup. — Líklegast er, að þegar einn af andstæðingum hæstv. dómsmrh. tók að skrifa um málið, þá hafi hæstv. dómsmrh. ætlað sér að afvopna árásina, með því að kalla þetta samningstilboð. Eða hvers vegna tók ráðh. það ekki strax fram við hv. 2. þm. Reykv., að hér væri eingöngu um samningstilboð að ræða? Það er líka annað atvik, sem bendir til hins sama. Hæstv. dómsmrh. gerði um þessar sömu mundir aðra ráðstöfun, sem eins og þá stóð á gat orkað nokkurs tvímælis. Hann veitti þá Sigurði Eggerz bæjarfógetaembættið á Ísafirði. Sigurður var þá undir sakamálskæru vegna stjórnar sinnar á Íslandsbanka. En um sama leyti beið mál ráðherrans sjálfs dóms, sem bráðlega var væntanlegur. Og þótt dómsmrh. vænti sér sjálfsagt alls góðs frá hæstarétti, þá var þó ekki víst, að hann skipaði þetta sæti langa stund. Með þetta fyrir augum er því ekki ólíklegt, að honum hafi þótt rétt að ganga sem vendilegast frá þessu áður en dómur félli í hans eigin sakamáli og hinn virðulegi eftirmaður hans tæki sæti í stjórninni. Síðan er alger þögn um þetta mál í hálft missiri. Enginn virðist af því vita fyrst um sinn, aðrir en samningshafar sjálfir. En svo vitnast allt. Og sá stormur, sem um málið verður, um kaupsamninginn, hafði nær því feykt ráðh. úr sæti hans án þess að til þingsins kasta kæmi. Þá er þetta með fjvn. fundið upp, til að lægja ölduna, sem risin var. En öll rök hnigu að því, að það sé .,seinni alda tilbúningur“, eins og sagnaritarar komast að orði, fundinn upp til að bjarga ráðh. úr þeirri klípu, er hann var kominn í. En það virðist þó ekki hafa bjargað til fulls, því enn kemur ný útgáfa til varnar hinum óafsakanlega samningi, en það er, að tilgangurinn hafi verið sá, að láta sjóðinn kaupa þessa jörð í þeim tilgangi að leigja landinu hana til rekstrar fávitahælis.

Því hefir nú nokkuð verið lýst, hve fjarstætt þetta var. Til grundvallar þeirri hugsun lá ekki annað fyrir en hálffallin till. frá síðasta þingi, því að vísa málinu til stj. án þess að binda hana við vissan tíma, er ekkert annað í eðli sínu en að drepa mál á mildan hátt. Stj. hafði heldur ekkert gert. Hún hafði ekki einu sinni orðað þetta við landlækni, né framkvæmt neinn annan undirbúning, hvorki kostnaðarlegan eða faglegan. Þessi jarðakaup voru því, einnig frá því sjónarmiði, hin mesta fjarstæða. Aðeins var nýrri sögu bætt við, til þess að bjarga úr klípunni, þegar sýnt var, að sú fyrri dugði ekki.

Ef þessi kaup hefðu náð fram að ganga á þann hátt, sem dómsmrh. hafði gert samning um, þá hefði eitt af tvennu gerzt: Landið hefði setið uppi með óhæft hús til slíkrar starfrækslu, og þó orðið að greiða óhæfilega leigu fyrir, eða þá hitt, að þingið hefði alls ekki viljað láta landið nýta þetta, og hefði þá gjafasjóðurinn, sem látinn var kaupa, orðið fyrir eigna- og rentutapi, er numið hefði því, sem eignin var of dýrt keypt. Er vafasamt, að hún geri betur en borga vexti af 1/3 kaupverðsins, eða um 30 þús. kr. Þetta hefði vitanlega hverjum skynbærum manni átt að vera ljóst frá upphafi.

Þá er rétt að líta nokkru nánar á það atriði, hvers vegna ráðh. býr það til, að samningum skuli skotið undir úrskurð fjvn., en ekki alls Alþ., eins og þó hefði verið hið eina, er réttmætt var. Hæstv. dómsmrh. hlýtur þó að vita það sem gamall og reyndur þm., að Alþ. getur og hefir fellt mál, sem fjvn. hefir lagt til, að samþ. væru. Fjvn. hefir vitanlega ekkert fullnaðarvald til þess, hvorki að ráðstafa umræddum gjafasjóði né heldur að stofna fávitahæli. Þingið eitt gat tekið ákvörðun um stofnun þess. Hið eina skiljanlega hefði því verið, að samningurinn hefði verið lagður undir samþykki Alþ., ef eitthvert slíkt ákvæði hefði upphaflega verið sett í hann; en einmitt þetta, að einungis fjvn. eru tilnefndar, bendir á, að það ákvæði hafi verið fundið upp seinna. Hæstv. ráðh. vissi það vel, að samþykki mundi hvorki fást hjá fjvn.Alþ. En hefði málinu verið skotið til Alþ. og fallið þar, þá var hér um svo stórt pólitískt brot að ræða, að óhugsandi var fyrir ráðh. að sitja eftir þau úrslit, og hæstv. ráðh. mátti vita og vissi, að hann mundi tæplega fá nokkurn sinna manna með þessu, hvað þá aðra. Hitt var vægari aðferð, að tiltaka fjvn. En öll þessi saga ber það glögglega með sér, að þetta allt er síðari tíma tilbúningur frá upphafi til enda. Það er örvæntingarfálm þegar út í vandræði er komið.

Þegar hæstv. dómsmrh. sér, að út í óefni er komið og að enginn leggur honum lið, flýr hann á náðir fjvn., og svo kemur nokkurskonar „bíó“ bar. Dómsmrh. kemur á fund fjvn. Nd. og segist vera með bréf frá Vigfúsi Einarssyni í vasanum, sem hann þó aldrei les upp. Telur hann, að Vigfús í bréfi þessu biðji fjvn. að gefa sér eftir kaupin. Þetta er einna líkast því og ef einhver piltur hefði logið því upp, að hann væri trúlofaður stúlku. Færi svo til stúlkunnar og bæði hana að gefa sér eftir heitið. Ráðh. veit, að enginn í þinginu hefir óskað eftir þessum kaupum. Og hann veit líka, að líklega enginn þm. mundi líða það, að kaupin stæðu. Samt kemur hæstv. dómsmrh. hátíðlega fram fyrir fjvn. og biður um samþykki hennar til að mega rifta kaupunum. Fjvn. mun öll í heild hafa haft hina megnustu óbeit á öllu þessu og form. hennar lýsti því yfir, að fjvn. kæmi mál þetta ekkert við. En hæstv. ráðh. fannst trúlofunin ekki fyllilega vera upphafin með slíku svari og spurði því annars. Hann spurði sem sé að því. hvort fjvn. vildi leggja það til, að fávitahæli yrði stofnað í Reykjahlíð. — Það hefði vitanlega legið beinast við, að fjvn. hefði neitað því að verða við eða tala um þessa bón ráðh. En hún leysti hann þó út með því að segja, að fjvn. hefði aldrei dottið í hug að leggja nokkurn eyri af landsins fé í stofnun fávitahælis í Reykjahlíð. Eins og ég tók fram, las ráðh. bréfið frá Vigfúsi Einarssyni aldrei. Til þess brast hann hug. Engir aðrir en hann og Vigfús vita því, hvað í því var. Með þessu taldi svo hæstv. ráðh. hinni ímynduðu trúlofun slitið. Í skjóli þess, að allt hafði farið fram vitnalaust um fyrri samtöl hans, taldi hann sig geta sloppið og fengið menn til að trúa því, að aldrei hefði verið um annað né meira en samningstilboð að ræða. Hæstv. ráðh. hyggst því að fela sig í skjóli vitnaleysisins. En eitt er þó, sem stendur. Enginn hefir fengið að sjá þennan samning fyrr en nú allra síðustu daga. En þá gat hæglega verið komin fram nýrri útgáfa af honum, þar sem hann var ekki þinglesinn. Það væru svo sem ekki meiri undanbrögð en annað, sem fram hefir komið.

Það er líka til hliðstætt dæmi frá fyrri árum, sem enn bendir í sömu átt. Alkunnugt er orðið, að þegar núv. hæstv. dómsmrh. endaði stjórnarferil sinn 1927, þá hafði hann gert ráðstafanir til þess að gera öðrum sjóði lík skil og þessum nú. Það var Thorkillisjóðurinn, sem hann þá hafði ákveðið að lengja undir Oddfellowregluna. Hæstv. ráðh. er í þeim félagsskap og hafði ætlað að leggja sjóðinn undir yfirráð félagsins í því skyni að byggja fyrir fé hans timburkumbalda utanbæjar. Þessu varð þó riftað, vegna þess að stjórnarskipti urðu. En þetta sýnir, að hæstv. dómsmrh. hefir ríka tilhneigingu til að gerbreyta tilgangi sjóða til hagsbóta fyrir félagsbræður sína og bágstadda vini. Það má vera, að í þessu felist viss mildi hæstv. ráðh. En það er þó ekki sú mildi, sem heppileg er í fari þeirra, sem fara eiga með vörzlu opinberra sjóða eða gegna eiga öðrum slíkum trúnaðarstörfum.

Ég þarf ekki að fara mikið út í þá hlið málsins, að ráðh. var vitanlega alveg óheimilt að verja fé sjóðsins til stofnunar fávitahælis, né heldur út í það, hvaða heimild var til að stofna fávitahæli rannsóknarlaust og undirbúningslaust. Um þessar hliðar málsins er ekki deilt. Þær eru fordæmdar af flokksbræðrum hæstv. ráðh. sem öðrum. En það er einn þáttur þessa máls, er ég vil tala nánar um, og hann er sá, hvaða alþjóðlega þýðingu það mundi hafa, að stjórnarráðið komist í það álit, sem slík verk sem þetta benda til, ef framkvæmd eru. Það er þessi hlið málsins, sem er þjóðinni stórhættuleg. Menn fara að trúa því, að ráðh. og samstarfsmenn þeirra í stjórnarráðinu noti aðstöðu sína um vörzlu opinberra sjóða sér og vinum sínum til persónulegs framdráttar. Það er í alla staði hættulegt og vítavert að bregðast þannig embættisskyldum sínum, því skyldan er að ávaxta alla slíka sjóði sem bezt og tryggilegast og með hag alþjóðar fyrir augum.

Það er nú upplýst orðið, að því fer mjög fjarri, að þessum grundvallarreglum hafi verið fylgt með lán úr sjóði þeim, sem hér um ræðir. Það er raunalegt, að stærstu og beztu lánin úr þeim sjóði hefir skrifstofustjórinn veitt sjálfum sér og nánustu kunningjum út á hús og aðrar fasteignir, í stað þess að veita þau til almenningsþarfa. En þó er það hvergi nærri eins vítavert eins og aðgerðir dómsmrh. í þessu máli. Og ég vil fullyrða, að ekkert er eins hættulegt í okkar þjóðlífi og það, að fólkið almennt standi í þeirri trú, og það með rökum, að við eigum við að búa allsendis óhæfan dómsmrh. til að fara með málefni þessarar þjóðar, hvort heldur þau heyra til sjó eða landi. En um það gefst máske tilefni að ræða síðar á breiðara grundvelli, og skal því ekki farið lengra út í það nú.

Því má slá föstu í þessu máli, að dómsmrh. hefir hér framið óhæfu, sem enginn vill taka ábyrgð á með honum. Þegar hann svo sér, hve málið er vonlaust, leitar hann ýmsra undanbragða til að bjarga sínum málstað, en sem eru ekki líklegri en það, að enginn festir trúnað á þeim. Ráðh. hefir með þessari framkomu sinni kastað bletti á stjórnarráðið og landsstjórnina og gefið undirmönnum í embættisstétt hættulegt fordæmi. Traust alþjóðar til stjórnenda sinna hefir hann veikt og gefið tilefni til að ala á þeim hættum og óróa, sem svo mjög bryddir á á yfirstandandi tímum. Ég vil því enda mál mitt með því að lýsa yfir því, að þótt ég gefi þeim hv. þm. rétt, sem talað hafa um, að rétt væri, að vantrauststill. til dómsmrh. væri borin fram á breiðara grundvelli, sem er að vísu eðlilegt, þar sem dómsmrh. hefir fleiri og stærri syndir á samvizkunni en þessa, þó engin sé máske eins almennt fordæmd — já, ég vil lýsa yfir því, að þó hér sé einungis um þennan eina hlut að ræða, þá er hann líka svo fordæmanlegur, að mér dettur ekki annað í hug en að greiða atkv. með vantrauststill. Og þótt færa mætti fram til varnar viðkomandi ráðh., að þetta hafi verið af brjóstgæðum gert við bágstaddan mann, þá vil ég þó sýna landi og þjóð, að ég vil á engan hátt viðurkenna það verk, er hann hér hefir gert.