10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (2369)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal fyrst athuga þann kafla í ræðu hæstv. dómsmrh., þar sem hann var að verjast þeim réttmætu ásökunum, sem á hann voru bornar, og sýna fram á, hve aumlega honum tókst vörnin. Bið ég þingheim þá fyrst að athuga það, að hann gerði enga tilraun til þess að verja það, hvers vegna hann gerði bindandi samning í miðjum nóv. um mál, sem hann í hæsta lagi átti að athuga. Hann reyndi heldur ekki að neita því, að hann hefði fyrst sagt við hv. 2. þm. Reykv., að samningur þessi væri endanlegur og því væri ekki hægt að breyta honum.

Ég hefi bent á það áður, að á þessum tíma, sem hæstv. ráðh. gerir samning, þá trúir hann því sjálfur, að dagar hans í stjórnarráðinu séu taldir, og því veitir hann Sigurði Eggerz bæjarfógetaembættið á Ísafirði. Hann vill þar standa við gefin loforð, og er það í sjálfu sér ekki nema heiðarlegt. Þegar svo haldið er áfram að spyrja hæstv. ráðh., getur hann enga skynsamlega grein gert fyrir því, hvers vegna hann hafi talið réttara að bera samning þennan frekar undir fjvn. beggja deilda heldur en þingið sjálft. Það stendur því óhrakið, sem ég sagði um hinn seinni tíma tilbúning í þessu máli, og jafnframt það, að hann hefir ekki þorað að leggja gerning þennan fyrir þingið. Því reynir hann að skjóta fjvn. fyrir sig. Maður skyldi nú ætla, að hæstv. ráðh. hefði þá a. m. k. fullnægt þessu ákvæði samningsins, að bera hann undir fjvn. beggja deilda. En jafnvel það ákvæði brýtur hann, þar sem hann aðeins ber samninginn undir fjvn. Nd.

Þá hefir hv. 2. þm. Reykv. hrakið lið fyrir lið þann rétt, er hæstv. ráðh. taldi sig hafa til þess að undirbúa stofnun fávitahælis á þennan hátt.

Þau ummæli mín um dagskrártill. frá í fyrra, um undirbúning fávitahælis, sem ráðh. hefir haft fyrir skjöld í þessu máli, að hún hefði verið hálffallin, byggði ég á því, að sú aðferð tíðkast mjög í þinginu, að drepa mál á þann veg, að vísa þeim til stj. Það dettur t. d. víst engum í hug, að þáltill. sú, er ég bar fram um daginn um sparnað við ríkisféhirðisstarfið, sé ekki með öllu úr sögunni. Þetta, að vísa málum til stj. með rökst. dagskrá, er því aðeins dálítið mildari aðferð heldur en fella þau hreinlega í þinginu. En hvorttveggja þýðir hið sama.

Þá minntist hæstv. ráðh. á síðustu útgáfuna í þessu hneykslismáli: Bílskúramakaskiptin. Þegar hann veit, að yfir honum vofir vantraust í þinginu og hann finnur engan griðastað neinstaðar, engar afsakanir og fordæmingin er alveg skilyrðislaus hjá öllum, og að kaupunum muni verða rift, þá byrja þessi yfirskinsmakaskipti með bílskúra suður í holtum, sem hv. 2. þm. Reykv. hefir sýnt fram á og sannað, að muni vera einhver lélegasta fasteign í bænum. Þá eru gerðir einhverjir málamyndasamningar um þessar eignir, sem allir vita, að þýðir það sama og að skrifstofustjórinn verði að láta þessa umræddu eign sína upp í Mosfellssveit fyrir rétt fasteignamatsverð. Hitt finnst hæstv. ráðh. uppsláttur fyrir sig, að geta fundið einhverja eign, sem er dýr og rentar sig illa eins og Reykjahlíð, til þess að geta skotið sér bak við. Þannig tekur hvert stigið við af öðru, sem sýnir öngþveiti ráðh. Að útvega tilboð vegna þessa fávitahælis var jafnvel óþarfi, hvað þá heldur að kaupa eign fyrir slíkt verð, að fádæmum sætir. (Dómsmrh.: Hitinn er þó alltaf mikils virði). Hann verður þó alltaf að renta sig. Það gerir hitinn á Laugarvatni a. m. k. Annars kem ég síðar að þessu hitaspursmáli.

Nei, því verður ekki móti mælt, að mál þetta er allt ein samfelld svindilkeðja frá upphafi til enda. Eitt lögbrotið á meðferð opinberra sjóða rekur annað hjá þessum fræga ráðh. Fyrst ætlar hann að breyta Thorkillisjóðnum í leikfang fyrir Oddfellowa, og hefði ég ekki fengið tækifæri til þess að koma í veg fyrir það skemmdarverk, myndu þessi frægu Reykjahlíðarkaup hafa fengið gott fordæmi. Ég gerði þar það sama og hv. 2. þm. Reykv. gerði nú. Annars virðist hún alleinkennileg þessi tilhneiging hæstv. ráðh. að ráðstafa opinberum sjóðum, brjóta skipulagsskrár þeirra og verja þeim endanlega þvert á móti vilja gefendanna. Ég hefi viljað taka þetta fram hér, til þess að gera almenningi kunna þá veilu, sem alltaf kemur betur og betur í ljós hjá hæstv. ráðh., að fara illa með gjafabréf og sjóði, sem eru undir hans umsjá.

Þegar hv. 2. þm. Reykv. hafði hreyft máli þessu í vetur, þóttist ég sjá, að hæstv. ráðh. myndi reyna að skjóta sér bak við mig vegna þeirrar yfirlýsingar, sem ég hafði gefið skrifstofustjóranum í góðri trú, þegar hann var í miklum vandræðum. Skrifaði ég Vigfúsi Einarssyni bréf þegar daginn eftir og benti honum á, að umsögn mína hefði hann fengið undir fölsku yfirskini, og áliti ég heppilegast fyrir hann að skila henni aftur og láta öll þessi jarðakaup falla niður. Reynslan hefir nú staðfest það, að ég hefi verið honum ráðhollur í þessu efni. Mun nú engum blandast hugur um það, að sæmra hefði verið fyrir skrifstofustjórann að rifa samning þennan strax, á meðan menn vissu ekki annað en að honum hefði gengið myndarskapur einn til ræktunar sinnar og umbóta á Reykjahlíð, heldur en bíða þar til öll þessi undirhyggjumál hans og hæstv. dómsmrh. urðu heyrum kunn. Þessi skollaleikur, sem jafnvel þeir menn, sem unnu skrifstofustjóranum alls hins bezta, hafa einu sinni ekki getað mælt bót með einu orði.

Þá þykist hæstv. ráðh. hafa leikið á mig í þessu máli. Ætla ég því að hafa þann kjark að þola það, að um verði dæmt af almenningi, hvor okkar hafi hér betri málstað. Eins og ég tók fram áðan, var mér kunnugt um áhuga skrifstofustjórans á ræktun og umbætur hans á oftnefndri Reykjahlíð. Hafði hann nokkrum sinnum farið inn á það við mig, meðan ég var í stjórnarráðinu, hvort ég treystist ekki að gera eitthvað til þess að greiða fyrir honum. Sérstaklega hafði hann stungið upp á því, hvort ekki mætti nota hús hans þarna fyrir þá holdsveiku menn, sem eftir væru í landinu. En ég treysti mér ekki að gera neina slíka hluti fyrir hann. Hinsvegar hafði ég samúð með honum eins og hverjum öðrum heiðarlegum manni, sem lent hafði í vandræðum. Það bar svo til nokkru eftir að ég fór úr stjórnarráðinu, er ég var að koma heim úr ferðalagi, að Vigfús Einarsson hringir til mín og tjáir mér, að hann þurfi nauðsynlega að tala við mig. Bað ég hann þá að finna mig heim. Þegar svo skrifstofustjórinn kemur og ég tek á móti honum, dregur hann upp úr vasa sínum skjal nokkurt, sem eru meðmæli með jörð hans Reykjahlíð, skrifuð með hans eigin hendi, og spyr mig, hvort ég treysti mér til þess að skrifa undir þetta. Ég sá þegar, í hvaða vandræðum hann var staddur og að hann hefði gert þetta í einskonar örvæntingu. Benti ég honum því fyrst á, að ekki væri hægt fyrir mig eða aðra að skrifa undir meðmæli honum til handa, er rituð væru af honum sjálfum. Væri því hið fyrsta að láta vélrita skjalið; minna mætti það ekki vera. Leit ég svo yfir það og breytti 2-3 orðum. Að öðru leyti fannst mér skjalið geta gengið sem

meðmæli til stofnana, sem vel voru sjálfum sér ráðandi. Hitt datt mér ekki í hug, að það myndi notað eins og hæstv. ráðh. hefir notað það núna.

Mér er því sama, hvað hæstv. ráðh. þykist hafa leikið á mig í þessu efni. Hann sendir skrifstofustjórann til mín í slíku ástandi sem hann var þá. Ég vissi, að hann var í miklum vandræðum, og vildi gjarnan sýna honum samúð mína. Skrifaði ég því undir skjal þetta, en datt að sjálfsögðu ekki í hug, að hann, skrifstofustjórinn, myndi gera neitt það, sem ekki væri mannlýtalaust. En þessi samningur er ekki mannlýtalaus.

Þegar ég svo sá sviksemina, sem bak við lá, að sendiför skrifstofustjórans til mín var undirstungin af hæstv. dómsmrh., til þess að tryggja atkv. mitt, þá ákvað ég að gera allt til þess að fletta ofan af þessu svindilmáli ráðh. og skrifstofustjórans, láta þar koma krók á móti bragði.

Ég hefi ekki skrifað undir annað fyrir skrifstofustjórann en það, að jörðin er góð fyrir það verð, sem hún getur rentað. Skrifstofustjóranum voru boðnar fyrir hana 30 til 35 þús. kr. í sumar, af mönnum, sem vildu búa þar. Það er hið raunverulega verð, sem ég býst við, að megi hafa upp úr jörðinni, en meira ekki. Ég myndi því hiklaust greiða atkv. með því hér á Alþingi, að þessi jörð væri keypt fyrir hið gamla fasteignamatsverð, með þeim húsum, sem nú eru á henni, ef slíkt kæmi til mála. Það mætti nota hana til ýmsra hluta fyrir það verð. Um það er allt öðru máli að gegna heldur en að brjóta skipulagsskrár opinberra sjóða, snúa tilgangi þeirra við og gera hverja heimskuna ofan á aðra með það fyrir augum, að e. t. v. sé hægt að þvæla þingið í að samþ. allt eftir á. Það er í sambandi við slíkt athæfi, sem hæstv. dómsmrh. ætlaði sér að pína fram með lævísi sinni gögn frá mönnum í andstöðuflokki, sem gerðu það að verkum, að þeir gætu síður beitt sér á móti ráðstöfunum hans.

Þá reyndi hæstv. dómsmrh. að halda fram, að þessi 90 þús. kr. kaup á Reykjahlíð væru ekki verri en þau kaup, þegar þingið lét kaupa 5 jarðir í Ölfusi fyrir 100 þús. kr., eða þegar byggingarnefnd Laugarvatnsskóla keypti hálfa jörðina Laugarvatn fyrir 16 þús. kr. Sá er þó munurinn, að fyrir sín Reykjahlíðarkaup er hæstv. dómsmrh. fordæmdur af öllum, sem ég veit um, nema einum íhaldsmanni, en Reykja- og Laugarvatnskaupin veit ég ekki betur en hljóti því meira fylgi, virðingu og viðurkenningu, sem lengra líður. Það er allt annað að kaupa 5 stórar jarðir með hundruðum af heitum uppsprettum heldur en býli eins og Reykjahlíð. Að vísu voru þessar jarðir húsalausar, og fasteignamatsverð þeirra því miklu lægra en kaupverðið. En það voru jarðirnar sjálfar, með sínum miklu náttúrugæðum, sem þingið gekk inn á að kaupa. Ég hefði gaman af að sjá hæstv. dómsmrh. koma því í gegn á Alþingi nú, að ríkið kaupi Hlaðgerðarkot fyrir 90 þús. kr. Það hefði e. t. v. mátt takast, ef jörðin hefði verið boðin fyrir 30 þús.

Hæstv. dómsmrh. lézt vera mjög móðgaður af því, að ég benti á, að engin sönnun væri fyrir því, að það væri hinn upphaflegi samningur, sem hann las hér upp úr. Ég geri hvorki að neita því eða játa, hvort svo er, því ég hefi ekki séð þennan samning. En hæstv. dómsmrh. verður að gá að því, að hann hefir ekki fært neinar skynsamlegar líkur fyrir því, hvers vegna hann sagði við hv. 2. þm. Reykv., að um endanlegan, fastan samning væri að ræða. Þar er hann kominn í mótsögn við sjálfan sig. Hann hefir heldur ekki gert neina grein fyrir, hvers vegna hann kallar þetta stundum samning og stundum tilboð, og hefir þannig gerzt tvísaga. Þetta er tortryggilegt. Ef hæstv. dómsmrh. lítur á gögn sín eins og venjuleg sönnunargögn í máli, þá sér hann, að það er engin sönnun, þó hann segi, að það liggi gul pappírsörk uppi í stjórnarráði með þessu og þessu á. Það eina, sem hægt hefði verið að kalla sönnun, er það, ef samningurinn hefði verið færður inn í bréfabók í stjórnarráðinu, svo afstaða hans við önnur bréf sýndi, að hann væri gerður í nóvember. Hitt verður hæstv. ráðh. að viðurkenna, að getur orkað tvímælis. Og menn trúa því yfirleitt enn sem komið er, sem hæstv. ráðh. sagði í fyrstu, að þetta hafi verið samningur, fastmælum bundinn. Menn trúa ekki því, sem hann hefir sagt síðar, um tilboðið, fjárveitinganefndirnar og hin hagkvæmu skipti á Hlaðgerðarkoti og bílskúrunum. Á það er litið sem seinni tíma uppspuna, sem tilraun hæstv. ráðh. til að bjarga sér út úr vandræðunum.

Ég býst við, að okkur hæstv. dómsmrh. gefist einhverntíma síðar tækifæri til að tala nánar um lánveitingar úr sjóðum, sem stjórnarráðið hefir umsjón með. Ég var svo forsjáll að taka afrit af þeim lánveitingum, sem ég var riðinn við, ásamt lánveitingum fyrirrennara minna, og þori hvenær sem er að leggja út í samanburð, alveg óhræddur. (Dómsmrh.: Það þori ég líka).

Hæstv. ráðh. reynir að slá á þá strengi, að ekki sé rétt að tala um aðstöðu skrifstofustjórans í þessu máli hér á Alþingi, af því hann geti ekki svarað fyrir sig. Skrifstofustjórinn verður að þola afleiðingarnar af því, að hann hefir komið þannig fram í þessu máli, að óhjákvæmilegt er að nefna hans framkvæmdir þegar um það er rætt. Ég hefi að mínu leyti sýnt honum fulla sanngirni. Ég hefi lýst vandræðum hans og þeirri eðlilegu hvöt, sem hann hafði til þess að losa sig við eignina. En það var jafnóhjákvæmilegt að hrekja þann blekkingavef, sem hæstv. ráðh. hefir í sína þágu ofið utan um skrifstofustjórann. Ég býst við, að áheyrendum hér sé það flestum ljóst, að ég, sem hæstv. ráðh. hefir reynt að bera fyrir sig sem skjöld í þessu máli, hefi ekki ástæðu til annars en skýra hlífðarlaust frá málavöxtum og leggja það undir dóm þjóðarinnar, hvor hefir komið hyggilegar fram gagnvart skrifstofustjóranum, ég, sem alltaf hefi unnað honum þess vel að geta selt jörðina fyrir það verð, sem hún rentar sig fyrir, eða hæstv. dómsmrh., sem hefir leitt hann til þess, sem hann mun hafa varanlega smán af.