31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

1. mál, fjárlög 1934

Sveinn Ólafsson:

Ég vildi aðeins veita andsvör ósk hv. frsm. fjvn. um að frestað yrði til 3. umr. atkvgr. um brtt. hv. þdm. viðvíkjandi fjárframlögum til þjóðvega.

Ég get fellt mig við að fresta til 3. umr. XIV. brtt. á þskj. 296, um framlag til Skriðdalsvegar, einnig get ég fellt mig við að fresta XVIII. brtt. á sama þskj., um styrk til bátabryggju á Vattarnesi, af því að ég veit, að það kemur sér betur að geta þá tekið upp annaðhvort aðra skiptingu á allri fjárupphæðinni, sem ætluð er til bryggju- og lendingarbóta, en fjvn. hefir hugsað sér, eða að bætt verði við fjárveitinguna sem svarar þessum styrk, er ég fer fram á.

Nú eru aðrar brtt., sem ég er við riðinn, þar á meðal VIII. brtt. á þskj. 296, um lækkun á framlagi til Holtavörðuheiðarvegar úr 40 þús. kr. niður í 20 þús. kr. Ég álít rétt, að þessi till. komi nú undir atkv. Ef hún verður samþ., þá veit hv. fjvn. betur, hverju úr verður að spila til hinna ýmsu þjóðvega, og hefir þá rýmra svið til skipta á þessu. Verði till. felld, þá liggur ástandið einnig ljóst fyrir. (IngB: Ég hefi ekki óskað eftir, að þessi brtt. yrði tekin aftur). Hæstv. dómsmrh. taldi ólíklegt, að þessi brtt. mín fengi fylgi þd. Það má vel vera, en ég tel nauðsynlegt, að úr þessu verði skorið nú þegar. Mér er ekki skiljanleg sú nauðsyn, sem hæstv. dómsmrh. taldi vera á því, að þessi fjárveiting til Holtavörðuheiðarvegar stæði óhögguð. Þar er víst ekki um neina þungavöruflutninga að ræða, svo að ekki er þörfin brýn þeirra vegna, í öðru lagi er það einnig víst, að margir ferðamenn, sem fara um þennan veg, eru, eins og ég áður benti á, „farfuglar“, sem ferðast sér til skemmtunar fremur en af nauðsyn. Þessi vegur tengir að vísu saman tvo landsfjórðunga, Sunnlendinga- og Norðlendingafjórðung, en á engan meiri rétt á sér þess vegna. Það stendur víðar svo á um vegi, sem lítt hefir verið hirt um að bæta. En þess ber líka að gæta, að vegurinn yfir Holtavörðuheiði er allvel fær fyrir bíla að sumrinu, og mikið notaður, þó að hann sé dálítið slitróttur á köflum. Þess vegna er vegabótanauðsynin ekki eins brýn þar og víða annarsstaðar, þar sem lítið eða ekkert hefir verið unnið að vegabótum.

Að því er snertir XVI. brtt. á þskj. 296, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. S.-M., þess efnis, að við liðinn um styrk til Eimskipafél. Ísl. bætist aths. um, að fél. hagi áætlun skipa sinna svo, að strandsiglingar, taki sem jafnast til allra landshluta, þá verð ég að segja, að mér kom það mjög á óvart, er hv. frsm. mælti á móti því. Mér finnst þetta svo hóflegt skilyrði, að hver sanngjarn maður ætti að geta mælt með því. Þetta er ekkert annað en ósk, sem er eðlilega fram komin af því, að Eimskipafél. hefir sett heilan landsfjórðung hjá um strandferðirnar næstl. ár, og í þessa ársáætlun fél. eru ákveðnar 8—10 ferðir frá Rvík vestur og norður um land og til baka aftur. Þetta eru þær strandferðir, sem félagið heldur uppi. Þær taka alls ekki til Austurlands, en aðeins til Vestur- og Norðurlands, allt til Húsavíkur. Þessar ferðir eru fyrst og fremst fyrir „farfuglana“. (Dómsmrh.: Koma engir farfuglar af Austfjörðum?) Þar eru að kalla engir bílfærir vegir á landi og engar skipaferðir með ströndum fram; þess vegna hafa þeir engin tök á að ferðast þaðan eða þangað. —

Ég ætla svo ekki að karpa meira um þetta að sinni, en læt þessa till. okkar koma undir atkv. hv. þdm., og met sanngirni þeirra eftir því, sem atkv. þeirra falla um hana. Þetta er þá önnur brtt. af fjórum, sem ég er flm. að og ætlast til, að komi nú undir atkv. En hinum tveimur fresta ég til 3. umr., eftir ósk hv. frsm.