13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (2378)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Sveinbjörn Högnason:

Hæstv. dómsmrh. vildi beina því frá sér í síðustu ræðu sinni, að sínu embætti væri vansæmd í blekkingum, en kvað þær hinsvegar ósamboðnar mínu starfi. Ég skal fúslega játa, að ég tel blekkingar mér ósamboðnar bæði sem presti og manni, og því vil ég láta það koma fram í till. minni, að ég tel framkomu hæstv. ráðh. í þessu máli hafa verið óheppilega, þó að ég hafi orðað þá skoðun mína eins vægilega og unnt er. Ég tel mér gersamlega ósæmandi að fara með blekkingar um þá skoðun mína frammi fyrir alþjóð manna.

Hæstv. ráðh. sagði, að þess væru engin dæmi, að það, sem fjárveitinganefndir hefðu borið fram, hefði verið fellt á þingi. Ein blekkingin, svo ég ekki segi ósannindin enn frá hans hendi. Hann skákar nú sjálfsagt í því skjólinu, að ég hafi átt hér svo stutta setu, að ég sé ókunnugur í þessum efnum. Mér er þó kunnugt, að 50 þús. kr. fjárveiting, sem fjvn. mælti með í fyrra, var lækkuð niður í 20 þús. kr. á þinginu. Ég er þess sjálfur fullviss, að hæstv. ráðh., með sína löngu þingsetu að baki, þekkir fjölmörg dæmi af þessu tægi. Til hvers eru þá allar þessar blekkingar?

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að ég mætti gera mig ánægðan með undirbúning þann, sem stofnun fávitahælisins hefði fengið, þar sem hv. 5. landsk. hefði talið jörðina hæfa fyrir gamalmennahæli. Ég vil nú spyrja hv. 6. landsk., sem flutti þáltill. um þennan undirbúning um fávitahæli í fyrra, hvort það hafi verið tilætlun hennar, að undirbúningurinn væri í því einu fólginn, að leita umsagnar hv. 5. landsk., hvort einhver staður væri hæfur fyrir gamalmennahæli. Annars liggur engin umsögn fyrir frá honum um það, að Reykjahlíð sé hentug fyrir fávitahæli.

Ég harma það, að fávitahælismálið skuli byrja feril sinn á því að blandast saman við þetta leiðindamál, og kæmi mér ekki á óvart, þó að það yrði til að seinka framgangi þess um töluverðan tíma.