31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Ég tel alveg ástæðulaust að fara nokkrum almennum orðum um fjárlagafrv. í sambandi við þann kafla, sem ég á að flytja ræðu um. Get ég skírskotað til þess, sem fram kom hjá frsm. fyrri kaflans; í annan stað eru ekki svo margir áheyrendurnir, að það sé ástæða til að gera slíkt, og í þriðja lagi lít ég svo á, að það komi svo glöggt fram, hvað fyrir fjvn. hefir vakað, að hún vill til fulls taka afleiðingunum af því ástandi, sem nú er, og vill skera niður eftir því, sem hún telur sér fært. Með þeim till., sem hér eru komnar fram, hefir verið tekið harðari höndum á málum en tíðkazt hefir, þannig að mörgum mun þykja nóg um; en með tilliti til ástandsins eins og það er og þar sem munu vera komnar og koma kröfur til þingsins, sem alls ekki verður vísað á hug um að styðja atvinnuvegina, teljum við sjálfsagt að halda þessari stefnu, og halda fast við hana.

Um hinar einstöku till. skal ég fara fáum orðum. Það er vikið að hverri einstakri í nál., um flestar till. er það að segja, að þær liggja svo ljóst fyrir, að ástæðulaust er að fjölyrða um þær.

Það er þá fyrst brtt. við 14. gr. viðvíkjandi húsabótum á prestssetrum. Sá liður er settur í fjárl. vegna þeirrar löggjafar, sem sett var á þinginu 1931, og var þetta eitt af frv. frá kirkjumálanefnd. Nú voru uppi raddir um það í fjvn., að þetta ætti algerlega að stöðva, eins og ýmislegt hliðstætt verður að stöðva. Hinsvegar lagði kirkjumálaráðherrann áherzlu á, að þetta yrði ekki stöðvað, og gat þess í n., að hann væri búinn að gera ráðstafanir til næsta árs, sem væri torvelt að kalla aftur. Það yrði að sjá fyrir einhverri leið til þess að fullnægja þörfinni á þessu sviði. Þess vegna hefir n. lagt til, að þessi liður verði felldur niður og ríkissjóði verði spöruð þau útgjöld, en ber hinsvegar fram brtt. við 22. gr., að stj. skuli heimilt að taka lán úr Byggingar- og landnámssjóði í þessu skyni, og býst ég ekki við, að neitt verði því til fyrirstöðu, að hægt verði að veita lán úr þeim sjóði til þess að halda þessum húsabótum áfram. Hinsvegar verður að gera ráð fyrir afborgunum og vöxtum, en það er ekki nema hverfandi lítið, í staðinn fyrir 24 þús. kr., sem frv. gerði ráð fyrir.

Þá kem ég næst að tveimur veitingum til háskólans, námsstyrk til háskólanema og húsaleigustyrk til háskólanema. Í stjfrv. hafa þessir liðir verið hækkaðir. Dettur engum í hug að neita því, að mikil sé þörf fyrir þetta. Stúdentar eiga nú erfiðara en á venjulegum tímum, en fjvn. verður að líta svo á, að eins og allt er í pottinn búið verði að láta sér nægja þá fjárveitingu, sem er í yfirstandandi fjárl., og þar sem þingið í fyrra ákvað, að við það mætti una, telur n., að eins megi við það una áfram.

Þá er næst 27. brtt., viðvíkjandi rannsóknastofu háskólans. Menn munu reka augun í það, að þessi liður er í stjfrv. mjög miklu hærri en áður. Meiningin er að sameina rannsóknastofu háskólans og rannsóknastofu í þarfir atvinnuveganna, sem sett voru 1. um á þinginu 1929. Má það heita skynsamleg ráðstöfun; forstöðumaðurinn verður hinn sami við báðar þessar stofnanir og verkefnin ýms hin sömu. Mælir því margt með því, að þetta verði gert, og vill fjvn. fallast á það. Hinsvegar er þarna gert ráð fyrir nokkrum styrk til jarðvegsrannsókna. Viðurkennir n., að þetta muni vera mjög þarft verk og mundi vera hægt að fá mann til þessa starfs, sem nú er við nám erlendis, Hákon Bjarnason skógfræðing. N. getur þó ekki fallizt á, að byrjað sé á slíkri starfsemi í slíku árferði og nú er. N. er kunnugt, að Búnaðarfélag Íslands mun láta byrja á sinn kostnað starfsemi á þessu sviði, þó að í smærri stíl sé, og telur, að við það verði að una í þetta skiptið.

Þá kemur 28. og 29. brtt. Þær eru báðar um utanfararstyrki. Önnur er um það, að taka upp námsstyrk til nemanda, sem ætlar að verða kennari og heitir Matthías Jónasson; það er rangt, sem stendur í fjárlfrv., að hann sé Lárusson.

Hitt er styrkur til verklegs náms. N. hefir fundið sig knúða til að fella niður alla slíka utanfararstyrki og verður að láta eitt yfir alla ganga og getur ekki fallizt á, að þessir liðir verði teknir upp. Annar liðurinn er nýtekinn upp, en hinn hefir staðið lengi, en við teljum, að á þessum krepputímum verði menn að neita sér um utanfarir.

30. brtt. er viðvíkjandi eftirlitskennurum. Eins og menn muna, var sett um það löggjöf á sínum tíma, fyrir eitthvað 23 árum. Á síðasta þingi var ákveðið að leggja niður þessa starfsemi. Síðan hefir þetta verið tekið upp í frv. eftir ákveðinni ósk fræðslumálastjóra, og dettur engum annað í hug en að þarft og æskilegt væri að geta gert þetta. N. verður samt að líta svo á, að ekkert nýtt hafi komið fram, sem geri það að verkum, að þingið hverfi frá þeirri stefnu, sem það tók í fyrra, og leggur til, að þessi liður verði felldur niður. Þarna er um talsverða upphæð að ræða, 10 þús. kr.

Um utanfararstyrk barnakennara þarf ég ekki annað en að vísa til þess, sem ég hefi sagt um utanfararstyrki almennt.

Þá kemur húsmæðrafræðslan á Hallormsstað. Menn reka augun í það ósamræmi, hvaða styrkur er veittur til húsmæðraskólans á Hallormsstað og húsmæðraskólans að Laugum. Fjvn. hefir lagt til, að styrkurinn til Hallormsstaðarskólans verði lækkaður. Hinsvegar er okkur kunnugt um, að þessi skóli á við mikla erfiðleika að stríða og má vera vafasamt, hvort þetta verði fært, ef skólinn á að starfa áfram, en samræmisins vegna hefir fjvn. flutt þessa brtt.

Í núgildandi fjárl. er fjárveiting til leiðbeiningar í næringarefnafræði. N. lítur svo á, að þessi styrkur hafi verið veittur í eitt skipti fyrir öll og að ástæðulaust sé að festa hann í fjárl. og leggur til, að þessi liður falli niður.

Þá er lokið brtt. við 14. gr. og kemur þá að brtt. við 15. gr. Er þá fyrst brtt. viðvíkjandi launum við Landsbókasafnið. Um þessa brtt. þarf ég ekkert að segja, því að þetta er aðeins leiðrétting samkv. upplýsingum frá ríkisbókhaldinu.

Þá er næsti liður viðvíkjandi bókakaupum til Landsbókasafnsins. Um hann er ekki annað að segja en það, að veittar eru til þessa í núgildandi fjárl. 12 þús. kr., og n. telur ekki þörf á að hækka það frá því, sem nú er. N. vill hafa þessa upphæð hina sömu og í yfirstandandi fjárl. Sú ástæða hefir verið borin fram fyrir þessari hækkun af landsbókaverði, að gengishækkun hefði orðið á þýzkum peningum í hlutfalli við okkar peninga, sem hefði aukin útgjöld í för með sér. Má benda á það, að ekki hefir eingöngu orðið gengishækkun, heldur líka gagnvart myntum Norðurlanda hefir orðið lækkun, svo að það ætti að vinnast nokkuð upp.

Næsta till. er um styrk til Bókmenntafélagsins. Þessi styrkur hefir verið 2800 kr., en í fjárlagafrv. hefir hann verið hækkaður upp í 3800 kr. Hækkunin á að ganga til þess að stofna til nýrrar bókaútgáfu, til að gefa út æfisagnasafn, sem félagið hefir hafið undirbúning að gefa út. Dettur engum í hug að segja annað en að vel færi á að gefa út þetta myndarlega æfisagnasafn. Hinsvegar verður n. að segja, að hún telur ekki fært að stofna til slíkrar útgáfu nú. Má geta þess, að ríkið hefir styrkt útgáfu tveggja merkra rita úr sögn okkar, ferðabók Árna Magnússonar og manntalið 1703, en þar sem hætt er útgáfu þessara nytjarita, telur n. ekki fært að byrja á útgáfu sem þessari. N. getur því ekki fallizt á þessa hækkun.

Þá er nýr liður, til Norræna félagsins, sem ekki hefir staðið í fjárl. Þetta félag hefir ekki fengið styrk áður. Markmiðið, sem þetta félag starfar að, er ánægjulegt, en þó getur n. ekki mælt með því, að þessi styrkur verði tekinn upp í fjárl. nú, heldur verði menn af sjálfsdáðum að halda uppi slíkri starfsemi, ef þeir vilja það á annað borð.

Um útgáfu á þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar vil ég eingöngu segja það, að ég get skírskotað til hinna sömu ástæðna og viðvíkjandi æfisagnaútgáfu Bókmenntafélagsins, sem ég gat um áðan, þar sem svo mikil og merk bókaútgáfa önnur verður að bíða, telur fjvn., að einnig verði að fresta nokkuð þessari bókaútgáfu.

N. leggur til, að felldur verði niður liðurinn til Björns K. Þórólfssonar magisters í Kaupmannahöfn. Hlýtur að vera nokkur vangá í sambandi við orðun þessa liðs í fjárl. eins og verið hefir undanfarið, því að það er vitað, að skráin um þessi rit og handrit, sem Birni K. Þórólfssyni er ætlað að skrifa, var samin af Jóni Sigurðssyni sjálfum fyrir 1870, og er þarflaust af Alþ. að kosta til að skrifa upp aftur það, sem Jón Sigurðsson skrifaði á sínum tíma, því að það gera ekki aðrir betur. Þessi liður hefir staðið það lengi, að n. álítur, að hann megi falla niður.

N. leggur til, að liðurinn til skálda og listamanna falli burt. Það er vitanlegt, að þegar þessi liður var settur í fjárl., var það ætlun þingsins að safna fjárveitingum til þessara manna undir þennan eina lið og láta svo þetta vera á valdi þess, sem réði úthlutuninni, fyrst ríkisstj. og síðan menntamálaráðs. Nú vita menn, að þetta er hætt að vera svo. Auk þessa liðar eru margir liðir í 15. og 18. gr. Alþ. hefir álitið rétt að taka fjárveitingarvaldið í sínar hendur, og ég get sagt, að fjvn. fékk að sjá skýrslu um þessa úthlutun og sumpart fannst n. ekki hafa tekizt eins vel og skyldi og sumpart var framkvæmd þannig sú úthlutun, að veitt hefir verið ofan á þá styrki, sem Alþ. hafði úthlutað, og þess vegna finnst n. rétt, að þessi fjárveiting falli niður.

Um 2 næstu brtt. er ég ekki að fjölyrða. Það er í samræmi við aðra stefnu n. að leggja til, að þessir liðir falli niður. Sama er að segja um 38. lið 15. gr., styrk til Þórðar Flóventssonar, enda er hann ekki í núgildandi fjárl.

Þá eru enn 2 brtt. við 15. gr. Er annað styrkur til fréttastofu blaðamannafélagsins. Leggur n. til, að hann falli niður. Blöð eiga nú auðvelt um að ná í fréttir, sérstaklega í sambandi við útvarpið, og standa sig yfirleitt vel. Síðari brtt. er um niðurfellingu ferðastyrks til útlanda. Er það bein afleiðing af stefnu n.

Þá er 16. gr. 1. brtt. n. er sú, að styrkur til Veiði- og loðdýrafél. Íslands falli niður. Ekki af því, að við teljum óþarft, að fólk sé upplýst um þessa hluti, en ég vil geta þess, að ég teldi betur farið, að leiðbeiningar um þetta væru hjá Búnaðarfélagi Íslands, og verða núna á búnaðarþinginu teknar ákvarðanir um þetta.

Þá er 47. liður, till. um að niður falli styrkur til tveggja manna, til dýralækninga. Voru þeir háðir teknir upp í síðustu fjárl. N. viðurkennir, að starf þeirra sé gagnsamlegt, en ef þeir eiga að fá styrkinn áfram, þá geta líka fleiri slíkir menn komið til greina. Búnaðarfélagið hefir haldið námsskeið í dýralækningum, sem margir hafa gengið á, og ættu sumir þeirra eins að geta fengið styrk og þessir tveir. N. vill því ekki fara inn á þessa braut.

Þá kem ég að 48. brtt., þar sem n. leggur til, að framlag til eftirlits með verksmiðjum og vélum verði lækkað úr 1600 niður í 600 kr. Þessar 1000 kr. mega falla niður, því að þær má borga beint af tekjum af eftirlitinu.

Í 49. brtt. fer n. fram á að hækka styrk til Fiskifél. Íslands úr 70 upp í 80 þús. kr. Fiskifél. Íslands hefir tjáð n., að það geti ekki framkvæmt áætlun sína með núv. fjárveitingu. Auðvitað verða stofnanir eins og Fiskifél. og Búnaðarfél. að sníða sínar áætlanir eftir minnkandi framlagsmöguleikum ríkissjóðs. N. gat ekki hækkað styrkinn eins mjög og farið var fram á, en samt gat hún ekki annað en hækkað hann um 10 þús. kr. Fiskifél. er nú í þann veginn að fá í sína þjónustu nokkra unga og efnilega menn, og telur n. ekki annað hægt en að styrkja fél. í þessari starfsemi sinni.

Næsta brtt. er aðeins leiðrétting, til samræmis við 1. frá síðasta þingi.

51. brtt.: N. getur ekki fallizt á svona mikla aukningu á kostnaði við þessa skrifstofu.

Með 52. brtt. leggur n. til, að Kvenfélagasamband Ísands fái sama styrk og áður.

53. brtt.: N. leggur til, að hinn nýi liður, 1000 kr. styrkur til vinnumiðstöðvar kvenna, falli niður, ekki af því að hún áliti, að stofa þessi vinni ekki gagn. En þessi ráðningarstofa á að geta kostað sig sjálf. Þeir, sem gagn hafa af henni, sérstaklega vinnuveitendur, sem njóta aðstoðar hennar, ættu að borga til hennar það, sem hún þarf til að standa straum af kostnaði.

Þá er 17. gr. Við hana gerir n. aðeins 2. brtt. Önnur er sú, að aths. við 1. lið um styrk til tveggja kvenna, 1200 kr. til hvorrar, falli niður. Konur þessar dvelja utan sjúkrahúss, og álítur n. það slæmt fordæmi, ef þessi styrkur yrði veittur. Geta þá fleiri siglt í það kjölfar. Íslenzka ríkið leggur á sig meiri kostnað til berklavarna en nokkurt annað ríki, en svo langt er þó ekki hægt að ganga, að láta fólk, sem ekki dvelur á spítala, njóta styrks.

Þess má líka geta, að önnur konan þarfnast ekki styrks, því að hún dvelur nú á hressingarhælinu í Kópavogi.

Þá leggur n. til, að 11. liður 17. gr., styrkur til Rauðakrossfélags Íslands, falli burt. Eru ekki ástæður fyrir hendi til þess, að ríkið styrki það félag, enda mun það standa sig sæmilega.

Við 18. gr. I. a. gerir n. litla brtt., að fengnum upplýsingum. Við 18. gr. II. d. er gerð sú brtt., að orðið sé við styrkbeiðni Bergljótar Blöndal prestsekkju og henni veittar 200 kr.

N. leggur til að fella niður styrkinn til Guðmundar Kambans í 18. gr. Hefir hann nú góð laun, og telur n. ástæðulaust, að hann njóti styrks.

Um 60. brtt. er ástæðulaust að tala, því að það hefir hv. frsm. fyrri kaflans gert. Um 61. brtt. mun ég heldur ekki fjölyrða, en get gefið nánari upplýsingar, ef óskað verður.

Um þá síðustu hinna brtt. við 22. gr. þarf ekki margt að segja. Þá eru þær tvær, sem eftir eru. Önnur fer fram á það, að Fiskifél. Íslands sé látin í té ókeypis lóð á Arnarhólstúni, á horni Ingólfsstrætis og Skúlagötu. Er algengt, að slíkar stofnanir fái ókeypis lóðir undir hús (eins og t. d. Kvenfélag Íslands). Hin till. er um að endurgreiða Jóni Halldórssyni fyrrv. ríkisféhirði úr lífeyrissjóði embættismanna það fé, sem hann hefir greitt í sjóðinn. Þetta kemur til af því, að hann gengur nú í þjónustu annarar stofnunar og missir þar með réttinn til lífeyris úr sjóðnum. Er ekki nema sjálfsagt, að hann hljóti þessa réttarbót.

Mun ég svo ekki hafa þessi orð fleiri fyrr en hv. þm. gefa ástæðu til.