13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (2384)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það hafa ekki verið miklar málalengingar í þessu af hálfu okkar sjálfstæðismanna í þinginu hingað til; en ég get tekið undir það með hv. þm. V.-Sk., að það er illa farið með tíma þingsins að eyða honum til umr. um jafnómerkilegt mál og hér hefir verið borið fram. Ég hefi hlýtt á árásir manna á hæstv. dómsmrh. í máli þessu og varnir hans og ádeilur á andstæðingana eftir því sem þeir hafa gefið tilefni til. Og ég fæ ekki séð, að í þessu máli felist nokkurt árásarefni eftir óhrakið. Hér hafa verið ráðgerð kaup á jörð upp í sveit handa sjóði Jóhanns Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur, sem ætlaður er til að koma upp og standa straum af gamalmennahæli. Það er ómögulegt að gera þetta út af fyrir sig að árásarefni með skipulagsskrá sjóðsins í höndum, því að hún mælir svo fyrir, að fyrir fé sjóðsins skuli kaupa jörð upp í sveit, sem hentug sé fyrir þessa stofnun, og það atriði skipulagsskrárinnar hefir ekki komið til framkvæmda ennþá, og er því ekki um annað að ræða en fullnægingu á því. Það, sem um mætti deila í þessu efni, er einungis tvennt, — annað það, hvort þessi jörð sé hentug fyrir stofnunina, og hitt, hvort verðið sé hæfilegt. Ég held, að enginn verði til þess að bera brigður á, að ef kaupa á jörð fyrir slíka stofnun, þá sé þetta býli til þess hentugt. Fyrir því liggja næg rök. Og hv. 5. landsk. sem að vísu hefir gert sig að fífli í þessu máli, þarf ekki neitt að skammast sín fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf um þessa jörð sem hentuga fyrir gamalmennahæli. Hún liggur vel við samgöngur, er nálægt Reykjavík, er ekki óþægilega stór, en hefir þó nóg landrými til búrekstrar fyrir hælið. Ennfremur er jarðhitinn, bæði til húsþarfa og ræktunarþarfa. Þetta er allt upp á hið ákjósanlegasta. Þá er spurningin um verðið. Það hafa engin önnur rök verið færð fyrir því, að verðið sé of hátt, en þau, að það sé hærra en fasteignamatið. Og þessu er svarað til fulls með því, að hér er í rauninni um nýbýli að ræða, sem gert er bæði að húsum og ræktun eftir að skýrslum þeim var safnað, er síðasta fasteignamat er byggt á. Að gera þannig samanburð á kaupverði og fasteignamati getur ekki sannað neitt um það, hvort kaupverðið er of hátt. Hinsvegar er það borið fram ómótmælt, að eigandinn hafi lagt fram til umbóta á jörðinni meira fé en kaupverðinu nemur, og það er strax atriði, sem bendir í þá átt, að kaupverðið sé þó innan skynsamlegra takmarka. Við það má bæta því tvennu, að þetta er jarðhitabýli, en þau eru ekki mörg, og hitinn verður þeim mun meira virði sem stærri stofnun er starfrækt þar, og svo hitt, að býlið liggur í þeirri nálægð við höfuðstaðinn og þéttbýlasta hluta landsins, að samkv. allri undanfarinni reynslu má gera ráð fyrir, að fasteignir á þessu svæði hækki í verði fremur en lækki. Ég vil ekki gera mig að endanlegum dómara um verð jarðarinnar, en ég slæ því föstu, að ekkert hefir komið fram hér, sem sýni, að þetta verð sé óhæfilegt, en aftur margt, sem bendir til hins gagnstæða.

Þá er næst að athuga kaupsamninginn. Hann var gerður með það fyrir augum og í þeim tilgangi að gera fjárveitingavaldinu mögulegt að koma þarna upp fávitahæli án þess fyrst um sinn að þurfa að leggja fé ríkissjóðs í stofnkostnað við jörð og húsnæði. Nú get ég ekki séð neitt athugavert við það að nota opinbera sjóði um stundarsakir til þess að létta því af ríkissjóði að þurfa að festa fé sitt í stofnkostnaði við nauðsynleg fyrirtæki, ef það má verða þeim sjóði að skaðlausu og í samræmi við skipulagsskrána. Ef ríkissjóður hefði viljað taka þessa eign á leigu fyrst um sinn fyrir fávitahæli, á meðan sjóður Jóhanns Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur var að ná þeirri stærð, sem hann þarf til þess að geta sjálfur staðið allan straum af sinni eigin stofnun, þá held ég ekki, að talizt geti neitt athugavert við það, verði álitið, að sjóðnum hefði verið mjög vel tryggð sú leiga, sem ríkissjóður vildi undirgangast að greiða, og eignin á þeim stað, að engin hætta væri á að hún rýrnaði í verði eða að notagildi, þótt hún væri í notkun hjá ríkissjóði um nokkurt árabil. Náttúrlega hefði mátt gera slíka ráðstöfun tortryggilega, ef henni hefði verið komið í fulla framkvæmd með einhverri leynd eða framhjá fjárveitingavaldinu eða löggjafarvaldinu. En því er ekki heldur til að dreifa, heldur er uppástungan um þetta gerð þannig, að hún fellur niður, ef báðar fjvn. þingsins samþ. ekki þessar ráðstafanir af ríkissjóðs hálfu, þ. e. a. s. að taka jörðina á leigu fyrir fávitahæli. Enginn hefir borið það á hæstv. dómsmrh. í sambandi við þetta mál, og hefir þó ekki vantað viljann til árása, að hann hafi gert hér nokkurn hlut vegna eigin hagsmuna eða óheiðarleika. Enginn hefir leyft sér að bera honum slíkt á brýn. Og þegar það er upplýst, að það er samkv. skipulagsskránni og hagstætt fyrir sjóðinn að gera þessar ráðstafanir, og það er ennfremur lagt fyrir fjárveitingavaldið, hvort það vilji af hálfu ríkissjóðs gera það, sem þarf til þess að samningarnir komist í framkvæmd, og engum óhreinleika er til að dreifa, þá sé ég ekki, hvert er árásarefnið á hæstv. dómsmrh. í þessu máli. En þar fyrir hefir þessi herferð haft sínar afleiðingar. Ég er m. a. hræddur um, að af henni hafi það leitt, að fjvn. hafi ekki gefið því nægilegan gaum, hve hagfelld uppástunga er hér í raun og veru á ferðinni. Herferðin hefir haft þær afleiðingar, að þessari uppástungu hefir verið vísað frá án þess að hún hafi fengið nægilega athugun. Mér kæmi ekkert á óvart, þótt þeir, sem eiga að stjórna þessum sjóði, sæju einhverntíma í framtíðinni eftir því, að ekki varð af þessum kaupum fyrir sjóðsins hönd. Mér kæmi ekki á óvart, þótt þeir, sem áhuga hafa á því að koma hér upp fávitahæli vegna þeirrar nauðsynjar, sem hv. 6. landsk. hefir réttilega lýst, sjái einnig eftir þessu þegar glímuskjálftinn er runninn af þeim. Munu þeir þá sjá, að þetta hefði verið heppilegri lausn á málinu en þurfa að leggja út í 200 þús. kr. kostnað til að byrja með. Ég tel það illa orðið, að þannig hefir verið farið af stað. En sökina á því eiga þeir, sem eru upphafsmenn þessarar árásar, og má þar fyrstan nefna hv. 2. þm. Reykv. Ég ætla í viðbót við það, sem ég hefi sagt um efni málsins, að slá því föstu, að þessi hv. þm. hafi ekki lesið þennan samning eins og hann sagði sjálfur í þeirri stuttu aths., sem hann fékk, en þrátt fyrir það gerir hann þetta að svo freklegu árásarefni. Ég get þar við bætt því, að hv. 5. landsk., sem líka gerði þennan samning að freku árásarefni, þurfti að slá því föstu, að hér væri um beina fölsun að ræða í einu atriði, þ. e. a. s. að ákvæðið um að bera samninginn undir fjvn. hafi verið bætt inn í á eftir. Svona veik er aðstaðan. Svona hæpinn er grundvöllurinn undir þessum árásum, að þeir, sem bera þær fram, verða annaðhvort að játa, að þeir hafi ekki lesið samninginn eða ganga út frá því, að hann hafi verið falsaður.

Hæstv. forsrh. lýsti því hér í ræðu, að sérhver afgreiðsla á vantrauststill. önnur en samþykkt hennar sé merki þingviljans um það, að sú stj. eða sá ráðh., sem henni er beint að, sitji áfram. Þetta er góð og gild regla, sem hæstv. forsrh. setur hér fram, en á í því sammerkt við aðrar reglur, að hún er ekki undantekningalaus; og undantekningin er sú hér, að ef afgreiðslan felur sjálf í sér vantraust, þá ber ekki að skoða hana sem lýsingu á þingviljanum um það, að stj. sitji áfram. En það er vel mögulegt, að þingmeirihl. vilji ekki samþ. vantrauststill., sem fram er borin, vegna þess, að hún gengur lengra en rétt þykir, en vill hinsvegar láta vanþóknun sína koma fram á annan hátt og vísa henni þá frá. Þannig leit ég á till. hv. 1. þm. S.-M. með þeim rökstuðningi, sem hann lét fylgja henni. Ég gat ekki litið á hana öðruvísi en svo, að hans sjónarmið væri það, að hann vildi að vísu ekki greiða atkv. um fullkomið vantraust, en víkja till. frá á þann hátt, að hann sé ekki til þess neyddur að votta hlutaðeigandi ráðh. nokkurt traust, hvorki beint né óbeint. Og þetta gengur svo langt í mínum augum, að ég tel, að þegar komið er fram með slíkt, þá sé miklu betra, að vantraustið fái að koma til atkv. og skorið verði úr um það. Nú get ég sagt það fyrir mig, að það er ekki mitt fyrir eins eða neins ráðh. hönd að taka afstöðu til framkominnar till. Það gera þeir sjálfir. Þeir segja til, hvort þeir vilja una við eina eða aðra till., sem fram kemur; en ef ég fæ ekki ótvíræð ummæli frá hæstv. dómsmrh. í þá átt, að hann vilji taka við till. hv. 1. þm. S.-M., þá mun ég ekki sjá mér fært að greiða atkv. með henni.

Loks þarf ég aðeins að segja örfá orð út af fyrirspurn hv. 2. landsk. til mín. Hann vildi gera nokkrar takmarkanir á ummælum þeim, sem hv. þm. Str. hafði um verkefni samsteypustj. Og hv. þm. hafði það eftir mér og ef til vill fleiri mönnum úr Sjálfstfl., að flokkurinn hefði gengið inn í samsteypustj. vegna kjördæmamálsins. Þetta er að vissu leyti rétt. Ég held, að ekkert annað en kjördæmamálið hafi gert það að verkum, að Sjálfstfl. gekk inn á að leggja til mann í samsteypustj. í lok síðasta Alþingis. En jafnframt vil ég minna hv. 2. landsk. á það, að ég tók það skýrt fram í blaðagreinum, er ég ritaði um það leyti sem stjórnarskiptin fóru fram, að auk þessa máls, sem væri grundvöllur samsteypustj., þá væru það einnig önnur mikilsverð mál, sem flokkurinn vildi gjarnan hafa samvinnu um við núv. hæstv. forsrh. Ég gerði grein fyrir því, að eins og flokkaskiptingu væri nú háttað í landinu, þá væri aðeins um tvær leiðir að ræða til stjórnarmyndunar, sem studd væri af meiri hl. kjósenda. Framsókn gæti ekki myndað þingræðisstjórn án samvinnu annaðhvort við sjálfstæðismenn eða sócialista. Önnur leiðin væri því samvinna milli meiri hl. Framsfl. og Alþfl. hinsvegar; en hin leiðin væri aftur á móti samvinna milli núv. hæstv. forsrh. ásamt þeim hluta úr Framsóknarfl., sem honum stæði næst, og sjálfstæðismanna hinsvegar. Ég hélt því fram, að fyrir þessari staðreynd yrðu allir að beygja sig.

Núv. hæstv. forsrh. óskaði eftir samvinnu við Sjálfstfl., og ég get sagt það, að í okkar flokki var rík tilhneiging til þess að hefja samvinnu við þann hluta af Framsfl., sem fylgdi hæstv. forsrh. að málum. Það varð svo ofan á, að samvinnan hófst og við gátum sætt okkur við það, á þann hátt, að stj. starfaði á þingræðisgrundvelli. Við hefðum einnig getað veitt hæstv. forsrh. óbeinan stuðning til þess að mynda stjórn með þeim mönnum úr hans eigin flokki, sem honum stóðu næst, án þess að leggja sjálfir til mann í stj.

Þau ummæli, sem hv. 2. landsk. lét falla um þetta, eru rétt. Við sjálfstæðismenn völdum heldur þá leið, að láta mann úr okkar flokki í stj., heldur en að veita Ásg. Ásg. hlutleysi til þess að mynda flokksstjórn, og það gerðum við einmitt vegna kjördæmamálsins, til tryggingar því, að það yrði undirbúið af stj.

Nú hefir þessi samvinna staðið síðan í þinglok í fyrra. Og hvernig hefir hún verið? Að sumu eða a. m. k. einu leyti hefir hún verið með nokkuð undarlegum hætti, þannig að blöð þau, sem telja sig til Framsfl., hafa stöðugt allan tímann skrifað og túlkað öll málin fyrir þjóðinni eins og þau væru í fyllstu og fjandsamlegustu andstöðu við ráðh. Sjálfstfl. í stj. Aftur á móti hafa öll aðalblöð Sjálfstfl. tekið þá sjálfsögðu afstöðu að veita stj. í heild stuðning eða hlutleysi, eins og vera ber. Og þetta er vitanlega enginn tilviljun, heldur stafar það af því, að innan Framsfl. er megn ágreiningur um það, hvort þessi samvinna um stj. eigi að haldast. Öflin hafa verið að togast á í Framsfl., með og móti samsteypustj. og um það, á hvora sveifina ætti að hafa samvinnu að því er snertir hina flokkana. En andstæðingar samsteypustj. virðast hafa blaðakost Framsfl. á sínu valdi.

Sjálfstfl. telur sig hafa fengið að sjá, með stjórnarskrárfrv. því, er stj. hefir flutt, fyrsta ávöxtinn af samstarfinu og af því að hafa lagt til mann í stjórnina. Og eftir atvikum er flokkurinn ekkert óánægður með þann ávöxt, þó að æðimikið vanti á, að frv. sé samkv. óskum flokksins í því máli. Ég held, að það sé enginn ágreiningur innan Sjálfstfl. um að óska þess eindregið, að samvinnan haldi áfram, til þess að leysa þetta höfuðmál á þessu þingi, og önnur vandamál með viðunandi hraða. Það er auðvitað undirskilið, að stjórnarskrárfrv. hljóti afgr. á þessu þingi.

Þær umr., sem hér hafa farið fram um þessa þáltill., eru í raun og veru ekkert annað en ómurinn og bergmálið af vilja þingmanna um það, hvort samsteypustj. eigi að starfa áfram eða ekki. Málefnisins vegna er ekkert árásarefni til á hæstv. dómsmrh. Þetta er fullkomlega ljóst nú, eftir að umr. hafa farið fram, þó að það hafi ef til vill ekki verið áður. Grunntónninn í umr. er því deilan um það, hvor hluti Framsfl. verður sterkari, sá, sem hafna vill samvinnunni, eða sá, sem vill halda henni áfram. Ég fyrir mitt leyti, óska eftir því, að það komi skýrt í ljós við atkvgr., hvernig skiptingin er. Þess vegna tel ég heppilegast, að atkvgr. fari fram um dagskrártill. hv. 2. þm. Reykv., til þess að það sjáist, hvor hluti Framsfl. er sterkari.

Við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir að sýna það, að við viljum halda samvinnunni áfram, og ef dagskrártill. kemur til atkv., munum við greiða atkv. á móti henni.