13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (2387)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Lárus Helgason:

Það er ekki mér að kenna, þó að hv. þm. Seyðf. misheyrist — sé hættur að heyra —, og því síður, að hægt sé að reikna mér það til synda, þó að hann snúi út úr orðum mínum. Hann sagði, að ég hefði verið að tala um það, þegar ég stóð upp áðan, að ég teldi Reykjahlíðarkaupin ágæt. Það sagði ég ekki. Hitt sagði ég, að það myndi vera álitamál, hvort ástæða væri til að gera þennan mikla hvell út af kaupunum. Ég skal bæta því við, að frá mínu sjónarmiði hefir landsstj. á undanförnum árum orðið að gera kaup, sem ekki hafa verið betri, kaupin við sócíalista, en ég tel, að þeir eigi nú erfiðari aðstöðu en þeir höfðu áður til að láta bjóða í sig.

Ég get mjög vel skilið, að þeir harmi þessa aðstöðu, enda er það sýnilegt, að þessir hv. þm. eru næsta óánægðir og vilja gjarnan reyna að grípa hvert tækifæri, sem unnt er, til að sundra samvinnunni milli stóru flokkanna. Mér finnst a. m. k. að það hafi yfirleitt ekki verið eins girnileg vara eins og vera hefði átt fyrir stj. að þurfa að gera boð í þessa hv. þm.