13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (2388)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Bergur Jónsson:

Ástæðan til þess, að ég stend upp og vil gera grein fyrir mínu

atkv., eru nokkur ummæli, sem féllu hjá hv. 1. landsk., form. Sjálfstæðisfl. Allmikill kafli úr ræðu hans snerist um einhverja skiptingu, sem hann sagði vera innan Framsfl., sérstaklega vegna afstöðunnar til samsteypustj. og samvinnunnar milli flokkanna til beggja handa. Ég skal ekki vera langorður um þessi almennu ummæli, en vil algerlega mótmæla þeim ummælum hv. þm., að sú atkvgr., sem hér á að fara fram, komi því máli nokkuð við.

Ég sé enga ástæðu til þess, að atkvgr. um þesskonar till. eins og hér liggja fyrir, sem eru settar í samband við ákveðið mál, eigi að geta sagt nokkuð til um það, hvort þm. innan flokkanna óski eftir samvinnu um samsteypustj. eða ekki. Ég hefi látið þá skoðun í ljós áður hér í þinginu, að ég álíti ekki rétta og formlega þá leið, að flytja vantrauststill. í dagskrárformi í sambandi við önnur þingmál. Ástæðan til þess er sú, að ég álít, að undir slíkum kringumstæðum sé hægt að setja ýmsa þm. í mikinn vanda. Það getur verið, að þeir vilji styðja það mál, sem um er að ræða; en óski jafnframt eftir því að samþ. vantraust. Geta þeir þá eigi hagað atkv. sínu þannig, að þeir brjóti ekki í bága við skoðun sína á annanhvorn veginn — annaðhvort verði þeir að fórna málinu fyrir löngun sína til þess að samþ. vantraustið eða fórna löngun sinni til vantraustsins fyrir málið. Hér vill svo til í sambandi við þetta mál, að þessi rökstuðningur kemur ekki til greina. Samt tel ég rétt, að þessi regla hefði verið tekin upp, að vantrauststill. kæmi fram sjálfstætt, án þess að hafa nokkur áhrif á afdrif annara þingmála. En úr því sem komið er vil ég taka það fram, að mér finnst, að afstaðan til svona till. hljóti að miðast við það, hvort hver einstakur þm. álíti, að framkoma ráðh. í því máli, sem um er að ræða, hafi verið þannig vaxin, að hann hafi persónulegt traust á honum á eftir, en ekki hvort hann hefir vantraust á honum pólitískt séð; enda hlýtur líka meiningin með þeirri till., sem er sett í samband við sérstakt mál, að vera sú, að fá álit þm. um það, hverja afstöðu hann tekur gagnvart því máli, en ekki öðrum málum. Við þetta mun afstaða mín til þessa máls miðast. Mér finnst, að af þessu leiði, að það þurfi ekki að koma samsteypustj. eða samvinnunni milli flokkanna neitt við, þó að Framsfl. eða þm. hans væru sammála um að víta framkomu hæstv. dómsmrh. í þessu máli og höguðu atkvgr. þannig, að þeir lýstu yfir, að þeir væru ekki ánægðir með þetta. Ég teldi ekki rétt undir slíkum kringumstæðum, að flokkurinn færi að samþ. almennt vantraust á hæstv. ráðh., en léti í ljós, að hann vildi ekki leggja blessun sína yfir málið, og þá afstöðu vil ég hafa til málsins.

Vegna þess að þetta mál er í raun og veru úr sögunni út af fyrir sig og í sambandi við kaupin á Reykjahlíð hefir ekkert tjón verið gert, hvorki sjóðnum né öðrum, þá tel ég ekki ástæðu til að gefa hæstv. dómsmrh. vantraust fyrir framkomu hans í málinu. Hinsvegar er það vitanlegt, að þetta mál er orðið leynt og ljóst hneykslismál; sumpart fyrir „agitation“ og sumpart vegna þess, að mönnum líkar ekki aðfarirnar í málinu, og þetta gildir ekki síður um fjöldann allan af flokksmönnum hv. 1. landsk. Það er vitanlegt, að það er fjöldi fólks hér í bænum, sem er mjög óánægður með aðgerðir hæstv. dómsmrh. í þessu máli og hneykslast mikið á því. Vitanlega gildir þetta ekki síður um andstæðinga hans.

Ég ætla ekki að fara að rekja sögu Reykjahlíðarmálsins hér, en vil vísa til þess, sem ég hefi áður sagt, að ég tel ekki rétt, að þm., hvort sem þeir tilheyra flokki hæstv. dómsmrh. eða öðrum flokki, eigi að greiða atkv. þannig, að hægt væri að álykta, að þeir væru ánægðir með allar aðgerðir hæstv. ráðh. í málinu. Út frá þeirri hugsun tel ég rétt að fylgja brtt. þeirri við brtt. hv. 1. þm. S.-M., sem hv. 2. þm. Rang. flytur, þar sem það er tekið fram, að þingið óski ekki eftir þesskonar aðförum framvegis. Hinsvegar er þar farið eins vægt í sakirnar eins og hægt er, þar sem hæstv. ráðh. er ekki almennt víttur fyrir aðgerðir sínar í málinu, og mun ég greiða þeirri till. atkv., en ekki vantrauststill. jafnaðarmanna.