13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (2393)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. kom mannlega fram í Reykjahlíðarmálinu. Tók hann upp varnir fyrir flokksbróður sinn, því að hæstv. dómsmrh. hefir ekki komið með neinar varnir að gagni.

Hv. 1. landsk. harmar, að ekki skyldi verða úr kaupunum. Veit ég ekki, hvort hann hefir átt þarna hlut að máli, en hitt veit ég, að margir flokksmenn hæstv. ráðh. lögðu að honum um það að rifta kaupunum. Af þeim ástæðum m. a. riftaði hann kaupunum, þótt á síðustu stundu væri, og sjálfsagt ekki síður vegna þeirrar gagnrýni, sem þegar kom fram í opinberum blöðum. En nú ætlar hv. 1. landsk. að fara að klóra í bakkann, og harmar hann, að kaupin skyldu ekki fara fram. Hefði óneitanlega verið meiri mannsbragur að því hjá hæstv. dómsmrh. að fylgja því fast fram, sem hann var búinn að ákveða.

Hv. 1. landsk. var með fallega lýsingu á þessari jörð, talað um jarðhita, gott býli o. s. frv. En samt eru kaupin sannarlega 60 þús. kr. of há, eins og hv. 5. landsk. sagði. Húsið gat ekki komið að neinu haldi til fávitahælis. Þó að hæstv. dómsmrh. vilji bera fyrir sig ályktun síðasta þings, sem var neikvæð — því að þingið vísaði málinu frá —, þó að hann vilji skjóta sér bak við það góða málefni, sem þar var á ferðinni, þá stoðar það ekkert, því að þingviljinn var því andstæður að hefja framkvæmdir í þessu efni.

Hv. 1. landsk. sagði, að verkefni samsteypustj. hefði fyrst og fremst verið það að leysa stjórnarskrármálið. Þetta er í samræmi við það, sem hann hefir áður sagt, og tel ég ánægjulegt, að hann skuli hafa sömu skoðun enn. Vænti ég þess, að þá fari ekki enn fyrir Sjálfstfl. eins og á tveimur undangengnum þingum, þar sem þeir hafa algerlega gengið frá yfirlýsingum sínum í þessu máli.

Hv. 1. landsk. sagðist hafa gert grein fyrir því í einu blaðinu, að verkefnið gæti líka verið annað. Aðalefni þess, sem hann sagði þar, var, að Sjálfstfl. ætti að kljúfa Framsókn í tvennt, skilja Jónas og hans lið frá Ásgeiri og hans liði. Þetta var þungamiðja í þessari blaðagrein. Veit ég ekki, hvernig þetta hefir tekizt, en það kemur eflaust bráðlega í ljós.

Ég er sannfærður um, að þegar hv. þm. Str. lýsir yfir þeirri ósk, að hann vilji samvinnu við Sjálfstfl., þá vakir fyrir honum, að kjördæmamálið leysist ekki. Hvort málið leysist, fer þá væntanlega eftir því, hvor verður sterkari í sambræðslunni, hv. 1. landsk. eða hv. þm. Str.

Hv. þm. V.-Sk. lýsti yfir óbilandi trausti á samsteypustj. Kom það ekki á óvart eftir afstöðu hans í Framsfl. upp á síðkastið.

Hv. þm. V.-Sk. hlakkaði mjög yfir því, að Framsókn þyrfti ekki að leita samvinnu við jafnaðarmenn. Það á sjálfsagt vel við hv. þm. að þurfa þess ekki. Hann veit, hverjar kröfur okkar eru, sem sé, að ríkislögreglufrv. verði fellt og að alþýðutryggingafrv., sem lagt hefir verið fram í Ed., verði samþ. Við krefjumst opinberra framkvæmda til þess að bæta úr atvinnuleysinu og fjárframlaga til bæjar- og sveitarfélaga, til þess að afstýra alvarlegum vandræðum. Get ég trúað því, að hinum flokkunum þyki þetta ekki girnilegt til samkomulags. (Dómsmrh.: Ætlar Útvegsbankinn að skaffa peninga til alls þessa?). Ætlar stj. ekki að gera það?