31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

1. mál, fjárlög 1934

Björn Kristjánsson:

Við þennan kafla frv. hefi ég eina örlitla brtt. að flytja, á þskj. 296 undir XLV. tölulið, um að hækkaður verði styrkur sá, er þar um ræðir, til frú Guðrúnar Björnsdóttur, úr 300 kr. upp í 500 kr. Ástæður þessarar háöldruðu konu, sem nú er komin yfir áttrætt, eru mjög fjarri því að geta kallazt góðar. Hún missti mann sinn árið 1888 og stóð þá uppi félaus, með 3 börn kornung, og aðstæður þá ekki góðar. Maður hennar, Lárus Jóhannesson, bróðir Jóhannesar Jóhannessonar fyrrv. bæjarfógeta, hafði verið aðstoðarprestur um nokkurn tíma á Sauðanesi, og gegndi síðar um nokkurra mánaða skeið sjálfstæðu embætti, að Svalbarði. Eftir lát hans brauzt þessi ekkja með frábærum dugnaði og elju til þess að ala upp dætur sínar, sem eins og ég hefi þegar tekið fram voru þrjár. Eins og nærri má geta, hafa þær mæðgur ekki átt við glæsileg kjör að búa. Síðustu árin hefir frú Guðrún haldið til hjá dóttur sinni, Láru, er gift var Ólafi Jónssyni lækni hér í Reykjavík. En nú er fokið í það skjól, því Ólafur lézt í vetur og mun ekki hafa látið eftir sig neinar eignir. Og er þá auðsætt, að dóttir hennar muni ekki lengur geta styrkt hana. Ég vil geta þess, að í 24 ár, frá 1888 til 1912, fékk hún ekki venjuleg prestsekknaeftirlaun, vegna þess að talið var, að hún hefði ekki rétt á því, þar eð manni hennar hafði ekki verið veitt sjálfstætt prestsembætti. En í tíð Þórhalls biskups Bjarnarsonar var að nokkru leyti úr þessu bætt, og fékk hún eftir það styrk, er nam 300 kr. á ári. En eins og nú er komið högum hennar, er óhugsandi, að hún geti lifað af svo lítilli upphæð, og þótt margar séu ekkjurnar illa stæðar, munu fáar eiga við jafnerfið kjör að búa. Auk þess ættu það að vera sterk meðmæli með hækkunartill. minni, að frú Guðrún hefir — eins og áður er sagt, farið á mis við réttmætan styrk í 24 ár. Legg ég því til, að þingið bæti henni þetta misrétti með viðbótarstyrk þau fáu ár, sem hún á eftir ólifað, en hún er nú, eins og áður var sagt, komin yfir áttrætt. Ég held, að ekki sé þörf að fara fleiri orðum um þetta. Vona ég, að hv. þm. skilji hina knýjandi þörf og sjái sér fært að greiða úr þessum vandræðum ekkjunnar.