24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (2421)

195. mál, Þingvallaprestakall

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, er að efni til í tveimur liðum. Aðalatriði hennar er það, að skora á ríkisstj. að auglýsa Þingvallaprestakall til umsóknar svo fljótt sem við verður komið. Ætla ég að fara örfáum orðum um þann lið fyrst.

Það var lagt allmikið kapp á það fyrir alþingishátíðina 1930 að leggja Þingvallaprestakall niður. Lesi maður umr. um það mál í Alþt. frá 1928, liggur við, að manni finnist á orðum sumra hv. þm. hér í Ed., að þeim hafi fundizt enga þjóðhátíð hægt að hafa á Þingvöllum, ef prestur væri látinn vera þar. Það skal játað, að sú leið að bera fram frv. um að leggja Þingvallaprestakall niður var fullkomlega lögleg. En frv. var harðlega mótmælt af viðkomandi söfnuði. Eigi að síður var það samþ. í Ed. með 8 atkv. gegn 5, en í Nd. sofnaði það fyrir fullt og allt. Það er vel til, að hv. þm. hafi þá verið farið að skiljast, að það mundi ekki vinsælt verk að leggja niður Þingvallaprestakall rétt fyrir þjóðhátíðina. Enda þori ég að fullyrða, að þorri landsmanna hefði ekki gert sig ánægðan með þá ráðstöfun, og ennþá mun almennt talið mjög óviðeigandi að leggja niður prestakallið á Þingvöllum.

En þá var farin önnur leið til þess að útiloka a. m. k., að prestur sæti á Þingvöllum. Presturinn, sem þar var, sótti burt. Tildrögin til þess ætla ég ekki að rekja. Voru þá kosnir þrír menn í svokallaða Þingvallanefnd, 24. ágúst 1928. Meiri hl. þeirrar n. taldi það m. a. hlutverk sitt að láta prestinn rýma sessinn og láta umsjónarmann setjast að á Þingvöllum í staðinn. Form. n. komst að góðum samningum við kirkjumálaráðh., eða m. ö. o. við sjálfan sig, því hann gegndi þá því embætti, og hafði þannig bæði töglin og hagldirnar í þessu máli. Lét hann fresta veitingu brauðsins um óákveðinn tíma, og sá tími er nú orðinn 4 ár. Hafa tveir nágrannaprestar sinn úr hvorri áttinni verið látnir þjóna brauðinu. Þessi ráðstöfun fór í bága við gildandi lög og var þvert ofan í vilja safnaðanna í Þingvallasveitinni og þvert á móti vilja alls þorra landsmanna, er alveg óhætt að segja. Því að Þingvellir eru annað og meira en venjulegt fámennt og fátækt prestakall innan fagurs fjallahrings. Þeir eru helgistaður þjóðarinnar allrar, og þeir Íslendingar, sem leggja vilja rækt við þann helgistað, láta sér ekki lynda, að traðkað sé á helgustu minningunni, sem við hann er bundin, sem er minningin um kristnitökuna árið 1000. Þingvellir eru sameign allrar þjóðarinnar; þar eiga allir Íslendingar sameiginlegar minningar. Og ég get ekki nógsamlega undirstrikað það, að þýðingarmesti atburðurinn, sem gerzt hefir á þeim fornhelga stað, er einmitt kristintakan. Andspænis minningunni um þann atburð finnst mér lítt sæmandi að hlúa ekki sem bezt að þessu prestakalli, m. a. með því að hafa prest á staðnum sjálfum, eins og verið hefir í aldaraðir. Líti maður á sögu Þingvallastaðar, þá hefir maður heimildir fyrir því, að þar hefir staðið kirkja frá því árið 1116. Og að öllum líkindum hefir einnig verið þar prestur síðan, þó ekki sé hann nafngreindur fyrr en 1175, að Guðmundur Grís Ámundason sat þar. Ólafur helgi gaf viðinn í Þingvallakirkju árið 1115, og hefir sú gjöf og kirkjubyggingin sennilega verið til minningar um hinn mikla viðburð, kristnitökuna. Mundi konungi þeim hafa þótt harla ólíklegt, að á Alþingi Íslendinga mundi nokkru sinni eiga sæti menn, sem greiddu atkv. með því að leggja prestakall Þingvalla alveg niður og slá þannig einskonar striki yfir þá minningu, sem kristnu fólki í landinu er helgust af þeim, sem við Þingvöll eru tengdar.

Margir telja, að það ætti vel við að veita Þingvallastað eins og sérstakt heiðurssæti einhverjum afburðamanni úr prestastétt, rithöfundi, listamanni eða skáldi, sem gæti með heiðri og sóma mætt fyrir hönd íslenzku kirkjunnar á þeim stað, þar sem grundvöllurinn var lagður að kristindóminum í landinu. Það er þjóðinni til sóma að hlúa sem bezt að minningum sínum, ekkert síður hinum kirkjulegu heldur en öðrum. Ég er hrædd um, að sögufróðum útlendingum, sem komu til Þingvalla hátíðarsumarið, hafi þótt einkennilegt að mæta hvergi presti staðarins, mönnum, sem vita, hvað þar hefir fram farið á umliðnum öldum.

Nú er látið heita svo, að ekki sé hægt að veita brauðið, vegna þess að Þingvallanefndin hafi umráð yfir hinu friðlýsta svæði, og prestssetrið sé innan þess svæðis. Þetta er mesti misskilningur. N. getur auðvitað kveðið á um, hvaða jarðarafnot væntanlegur prestur má hafa. Þau skilyrði mætti auglýsa jafnframt og brauðið yrði auglýst til umsóknar, svo presturinn vissi, að hverju hann hefði að ganga. Setjum svo, að n. hefði bannað alla mannabústaði á hinu friðlýsta svæði; þá hygg ég þó, að kirkjustj. hefði verið skylt að sjá presti safnaðarins fyrir bústað einhversstaðar annarsstaðar utan svæðisins, því prestakallið hefir alls ekki verið lagt niður að lögum. Og ég vil bæta því við, að það hefði ekki farið verr á því að byggja yfir prest þarna utan girðingar heldur en yfir sprúttsalann í Svartagili. Þar stendur nú húskumbaldi mikill, þeim til smánar, sem að stóðu.

Ég held því hiklaust fram, að það sé alls ekki lögum samkv. að hafa Þingvallakall prestlaust, og ég mótmæli því fastlega, að Þingvallanefndin sem slík geti nokkuð haft yfir brauðinu að segja.

Um síðari hluta till. get ég verið fáorð. Það sjá allir, hvað það lýsir fádæma lítilli búmennsku að ráða sérstakan mann fyrir á 5. þús. kr. laun til að gegna starfi, sem prestur hefði vel getað sinnt sem aukastarfi, en láta hinsvegar tvo presta, sinn úr hvorri áttinni, þjóna brauðinu og greiða þeim fyrir 1000 kr. hvorum. Auk þess nýtur umsjónarmaðurinn hlunninda, sem ekki hafa verið boðin nokkrum presti.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta að sinni. Ég þykist vita, að hér í hv. d. séu menn, sem hafa svo gott vit á fjármálum, að þeir sjái, hvað hér er óhyggilega ráðið. Þó er það ekki aðalatriðið fyrir mér, heldur hitt, að söfnuðir, sem krafizt hafa að fá sinn prest og eiga fullan rétt á því, fái prestinn hið bráðasta.