29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (2433)

195. mál, Þingvallaprestakall

Magnús Torfason:

Tveir hv. landsk. þm. hafa nú hafið hér vílsöngva út af þessari þáltill., og ætla ég ekki að taka þar undir, enda virðist nú vera farið að draga úr hljóðum beggja þeirra. Nú munu menn unna mínum elskulegu kjósendum í Þingvallasveitinni allrar þeirrar sálubótar, sem þeir með nokkru móti geta tekið við. Því er það, að mér þykir það hálfskrítið, að menn þarna að austan skuli vera að fá konu úr Reykjavík til þess að flytja þessa þáltill. fyrir sig. Þetta hefir ekki verið nefnt við mig, og að því er ég bezt veit, ekki heldur við samþm. minn. Í þessu sambandi skal upplýst, að þegar lagt var til á þingi, að leggja niður Þingvallaprestakall, var það stutt af meiri hl. manna í heimasókninni, en jafnsýnilegt er, að þessum mönnum. hefir snúizt hugur. Nú hafa komið raddir um það, að fá þangað prest aftur, og mun ég fúslega styðja það. Þó get ég ekki fylgt þessari þáltill., sem hér er verið að ræða um, eins og hún er orðuð nú. Þar er m. a. sagt, að stj. eigi að hlutast til um, að tilvonandi sóknarprestur á Þingvöllum eigi að fara með umsjónarmannsstarfið þar. Mér er vel kunnugt um þetta umsjónarmannsstarf. Þar var í mörg ár sérstakur umsjónarmaður undir mínu eftirliti. Og ég held, að það sé ábyggilegt, að það starf geti ekki samrímast prestsstarfi. Ég get ekki hugsað mér mann öllu betur fallinn til þess að gegna þessu umsjónarmannsstarfi en síðasta prestinn á Þingvöllum. En hann vildi alls ekki koma nærri því. Og yfirleitt fannst mér gestagangurinn á Þingvöllum gera honum lífið talsvert súrt, og mér er ekki grunlaust um, að það hafi verið ein af orsökunum til þess, að hann sótti þaðan. Samt veit ég ekki neinn prest, sem hefir verið glaðari yfir því að koma að sínu prestakalli en einmitt þennan. Ég held því, að ekki sé vert að hafa prest sitjandi á Þingvöllum, betra sé að flytja hann eitthvað burt úr skarkalanum. Hinsvegar get ég ekki séð, að það þurfi að fara saman, að Þingvallasveitarmenn fái prest og að sá prestur sitji á Þingvöllum. Það er nóg jarðnæði í Þingvallasveit, sem Þingvallahreppur og ríkissjóður gætu haft ráð á, og væri allt eins heppilegt prestssetur og Þingvallajörð. Ég skal þar fyrst tilnefna Svartagil. Þar er langt komið að byggja svo vænt steinhús, að það mundi nægja hverri meðalfjölskyldu. Þar má vel auka ræktun, og sauðfjárland er þar gott, enda munu ábúendur þar alltaf hafa komizt vel af. Ég játa það, að þetta kot er dálítið út úr, en þó ekki meira en svo, að þaðan er um 5 mín. akstur frá Þingvöllum. Þar er fagurt umhverfi og þekkilegt í alla staði.

Þá vil ég nefna aðra jörð, sem ríkið á ráð á, en það er Arnarfell. Þetta er ágætis bústaður, þar má hafa 2 kýr og 100 fjár, og þessi jörð liggur líka einkar hentugt fyrir þjónustu prestakallanna, Þingvalla og Grafnings. Í þriðja lagi vil ég nefna Gjábakka. Það er bezta kot, af sumum talin bezta jörð sveitarinnar. T. d. hefir ábúandinn á Kárastöðum tjáð mér, að hann telji Gjábakka betri jörð en Kárastaði. Og með þessa jörð stendur svo á, að í 1. um friðun Þingvalla er gert ráð fyrir því, að ríkið megi kaupa Gjábakka. Alla þessa staði mætti gera að prestssetrum, ef þurfa þætti. Því get ég fyllilega verið með því, að Þingvallasveitarmenn fái sinn prest aftur, en ég vil taka það skýrt fram, að ég vil ekki á nokkurn hátt stuðla að því, að þeirri friðun, sem nú hefir verið komið á um Þingvelli, verði raskað. Og ég hefi ekki getað fundið aðra ástæðu borna fram fyrir því, að presturinn eigi að sitja á Þingvöllum, en þá, að þetta væri svo merkilegur staður, að þar yrði að vera prestssetur. Því er nú til að svara, að mörg af okkar góðu og gömlu prestssetrum, sem fræg eru orðin, eru ekki lengur prestssetur. Og þó að Þingvellir hafi á sér meiri helgi en flestir aðrir staðir á landinu, þá eru þó tveir staðir aðrir, sem fyllilega muna jafnast á við Þingvelli í kirkjulegu tilliti, en það eru biskupssetrin fornu, Skálholt og Hólar. Meðan svo er litið á, að þar þurfi ekki að vera prestssetur, sé ég ekki brýna þörf á því, að það sé á Þingvöllum. Það er satt hjá hæstv. ráðh., að presturinn í Grímsnesprestakalli er orðinn gamall, og mun eiga talsvert erfitt með að þjóna Þingvallaprestakalli. En þó hafa þeir erfiðleikar minnkað síðan lagður var bílvegurinn að Úlfljótsvatni, og bílvegurinn að Efri-Brú bættur. En hvað þennan prest snertir, þá er hann svo farinn að heilsu, að ég geri ráð fyrir, að hann endist ekki lengi í embætti sínu hér eftir.

Ég get fallizt á þá dagskrártill., sem fram. er komin í þessu máli, og held, að því sé bezt borgið með samþykkt hennar. Verði hún samþ., skilst mér, að hér sé mætzt á miðri leið, eins og hv. flm. var að tala um.