29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (2434)

195. mál, Þingvallaprestakall

Jón Baldvinsson:

Ég vil byrja með yfirlýsingu þess efnis, að ég er mótfallinn dagskrártill. hv. 2. þm. Eyf., og vil engu trausti lýsa á tilvonandi samkomulagi milli stj. og n., þó að vitanlegt sé, að með því að samþ. dagskrártill. er málið fellt á mildan hátt.

Hæstv. dómsmrh. byrsti sig mjög og spurði, hvar það stæði í l., að ekki skyldi hafa prest á Þingvöllum. En ég vil spyrja, hvar stendur það í 1. um friðun Þingvalla, að það skuli vera prestur á Þingvöllum? Það lítur svo út, sem ráðh. haldi, að honum sé allt það leyfilegt, sem ekki er tekið fram í 1., að bannað sé. Við þá yfirlýsingu hæstv. ráðh. verða ýms atvik úr stjórnartíð hans skiljanlegri en áður. Hann hefir t. d. játað að hafa tekið fé til ríkislögreglunnar algerlega í heimildarleysi, og svo getur verið um fleira.

Ég vona, að aldrei komi til ósamkomulags milli stj. og Þingvallan. um það, hverjir gestir skuli búa á Þingvöllum. Ég skil ekki í því, að hæstv. stj. fari að bjóða nokkrum þeim að dvelja þar sem heiðursgestum ríkisins, er n. geti ekki fallizt á, að tilhlýðilegt sé. En annars held ég, að hæstv. ráðh. misskilji vald stj. í þessum efnum. Þegar stj. er búin að afhenda einhverja stofnun í umsjá eins manns eða n., þá getur hún ekki gripið þar inn í hvenær sem er og ráðstafað þessari stofnun á annan hátt en þeir réttmætu umráðendur kynnu að kjósa.

Hæstv. ráðh. ásakaði Þingvallan. fyrir að hafa ekki látið friðunarl. koma til framkvæmda nógu snemma, en sú ásökun hittir líka hæstv. ráðh. sjálfan, þar sem hann er einn nefndarmanna. En hæstv. ráðh. er hreint og beint mótfallinn þessari friðun Þingvalla, sem nú m. a. sýnir sig í því, að hann telur stj. hafa heimild til ýmsra ráðstafana, sem beinlínis liggja innan verksviðs n.