29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (2437)

195. mál, Þingvallaprestakall

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þessi aths., sem ég nú flyt, er mjög stutt, a. m. k. í samanburði við hina löngu ræðu hv. 5. landsk. Ég vil segja hv. 5. landsk. það, að ef hann nú iðrast eftir að hafa ekki algerlega bannað nautgripahald á Þingvöllum, þá má hann þar sjálfum sér um kenna, því að það var hann, sem undirbjó lögin 1928. Ég hefi heldur ekki heyrt það fyrr en nú, að bannað sé að fjölga nautgripum í Hrauntúni og Skógarkoti. (JónasJ: Það eru bara samningar um það). Já, hv. 5. landsk. segir, að það séu bara samningar um það, en þá samninga veit ég ekkert um, og er ég þó í nefndinni. Hinsvegar er það viðurkennt af honum, að heimilt er að hafa nautgripi á Þingvöllum. En ég endurtek það, að ríkisstj. ráði því, hverjir séu gestir á Þingvöllum. Það nær ekki nokkurri átt að halda þeirri vitleysu fram, að stj. mundi senda þangað einhverja óvætti, sem hafi þar í frammi ógurleg spellvirki.

Þessir menn, sem um var talað, eiga nú að hætta sauðfjárbúskap eftir samningum, sem þeir hafa gert, en það heyrir alls ekki undir sauðfjárbúskap að hafa féð í húsi og gefa því hey og brynna því, heldur er þar átt við, að það gangi úti. Það er rangt, að þessir menn hafi viðurkennt að hafa brotið í nokkru, heldur lofuðu þeir að hætta, vegna þess að þeir sjá sér náttúrlega ekki fært að halda þessu háttalagi áfram, að hafa kindurnar standandi alltaf inni og brynna þeim og hafa þær á heyi.

Það er einkennilegt, að hv. 5. landsk. segir, að þál. frá 1919 banni að auglýsa Þingvallaprestakall, en í sömu andránni sagði hann, að þál. hefði aldrei neinar lagabreyt. í för með sér. En hvað sem um þá mótsögn er, þá er það víst, að í lögum um skipun prestakalla er ákveðið, að biskup auglýsi embætti undireins og það losnar.