29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (2440)

195. mál, Þingvallaprestakall

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Fáein orð til hv. 2. landsk. Hann tók sér fyrir hendur að lesa upp meginhlutann af friðunarákvæðunum og lagði mikla áherzlu á, áð ekkert jarðrask mætti gera, og að allar jarðirnar væru undir umráðum Þingvallanefndar. (JBald: Jarðeignirnar!). Það stendur ekki þar. Og ég er hræddur um, að ef. hv. þm. fer svona í skýringar sínar sem bankastjóri, þá komi hann heldur óþægilega niður á stundum. Það er nefnil. hvergi ákveðið, að umráð yfir húsum á hinu friðlýsta svæði á Þingvöllum heyri undir Þingvallanefnd. Kannske hann haldi, að hann hafi umráð yfir Valhöll? (JBald: Hún stendur í Brúsastaðalandi). Eru ekki Brúsastaðir innan hins friðlýsta svæðis? (JBald: Með sérstökum samningi við Þingvallanefnd). Nei, hv. þm. ræður ekki nokkurn skapaðan hlut yfir Valhöll. Heldur hann þá, að hann ráði yfir ráðherrabústaðnum þar? (JBald: Já). Og sumarbústöðum ýmissa manna? (JBald: Já, byggingu þeirra). Svo byggði landið steinhús á Þingvöllum; ætli það heyri ekki undir yfirráð Þingvallanefndar! Nei, skýringar hv. 2. landsk. eru svo gersamlega út í loftið, og skil ég ekki, hvernig nokkur bankastjóri lætur sér sæma að setja þær fram.

Viðvíkjandi gestum getur verið, að samkomulag fáist alltaf; en ég tel ekki, áð stj. þurfi leyfi að sækja til Þingvallanefndar; en víst þarf að vita um það hjá Þingvallanefnd, hvort húsið sé laust fyrir þennan og þennan mann. Nefndin þarf ekki að setja sig á svo háan hest að ákveða, hverjir skuli vera gestir landsins. Eiginlega þarf n. að fá heimild stj. til þess að ráða nokkuð yfir þessu. En af því að ég er svo sanngjarn maður, þá vil ég lofa hv. 2. landsk. að vasast í þessu, af því að hann langar svo mikið til þess, að því leyti sem heimilt er innan ramma laganna. Lengra má hann ekki fara. (JBald: Ég skal halda mér við lögin).