29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (2442)

195. mál, Þingvallaprestakall

Magnús Torfason:

Ég þóttist hafa hagað orðum mínum þannig, að ekki væri ástæða fyrir hv. þingfrú að ákalla mig. (GL: Það gerði ég nú heldur ekki!). Ég þóttist hafa lagt henni lið, heldur en hitt. En ég kemst ekki hjá að svara nokkrum orðum, og þar með hæstv. kirkjumálaráðh. Ég stend við það, að Svartagil er sæmileg bújörð fyrir prest. Prestar hafa ekkert að gera við nú orðið að hafa stór bú. Ábúandinn, sem nú er, hefir, að því sem borið er hér í hv. d., yfir 100 fjár og tvær kýr. En ég hefi búizt við, hvort sem presturinn situr niðri í Þingvallasveit eða ekki, þá mundi hann að sjálfsögðu njóta forgangsréttar um að heyja á Þingvöllum. Og jarðirnar eru þannig settar allar saman, að þetta er mjög hægt fyrir hann.

Annars lít ég á þessar jarðir með framtíðina fyrir augum, og veit það, að eins og þar er góð beit, þá geta þær orðið hægar, þægilegar og gagnsamar bújarðir, ef þeim er nokkur sómi sýndur.

Ég sé nú ekki, að sérstök ástæða sé til, að prestur sitji á Þingvöllum. Það ætti þá að vera kristnitakan, sem þar gerðist. Ég veit ekki til, að Þingvallaprestur hafi komið þar nærri, né að getið sé neinna afreka presta á Þingvöllum í kristnisögu landsins. Þegar maður talar um það mál allt saman, þá getur maður sagt í sem fæstum orðum, að sá stóri sómi, sem þjóðin nýtur af kristnitökunni, hann á hún því að þakka, að Íslendingar hafa þá sýnilega staðið ofar flestum öðrum þjóðum að stjórnkænsku, sem ekki var nema eðlilegt, þar sem goðarnir voru í sjálfu sér nokkurskonar konungar hver í sínu ríki. Þess vegna var stjórnkænska útbreiddari á Íslandi en annarsstaðar, eins og sögurnar bera svo fagurlega vott um.

Þá vil ég taka það fram, að það er ekki hægt eins og stendur að setja prest á Þingvöll. Í friðunarlögunum stendur, að umsjónarmaðurinn eigi að vera á Þingvelli. Og án þess að ég vilji, að orð mín séu færð til verri vegar, þá vil ég satt að segja ekki prestinum á Þingvöllum svo illt, að ég óski þess, að hann vilji vera í nábýli við umsjónarmanninn á Þingvöllum. (Hlátur. — JakM: Þetta er vel mælt!). Ég á við hvern sem er. Þeir mundu ekki komast fyrir, og ef presturinn ætti að vera á Þingvöllum, yrði að reisa þar hús. Svartagil nefndi ég sérstaklega, af því að þar hefir þegar verið reist hús.

Það er verið að tala um, að umsjónarmaðurinn, sem áður var á Þingvöllum, hefði umboð sitt enn. En ég veit ekki betur en að með friðunarlögunum frá 1928 sé Þingvallarnefnd falin umsjá Þingvalla og að ráða umsjónarmann þangað. Þar með var ráðning á þessum manni fallin niður. En þó að þessi umræddi myndarlegi prestur og mikli manndómsmaður hefði þennan mann með sér, þá var hann fullsaddur á að þurfa að skipta sér af gestunum.

Að síðustu vil ég til huggunar hv. þingfrú geta þess, að mér er kunnugt um það, að frændi hennar í Sauðanesi, sem nefndur var, var mætismaður og gestrisinn maður, síns og hans ágæta ætt.

Það er eitt, sem mér kom eiginlega illa fyrir, — hvernig þetta mál var upp tekið. Ég get ekki neitað því, að mér finnst upptaka þessa máls í deildinni minna á það, þegar flutt var frv. um „mýrina“ þarna fyrir sunnan Skerjafjörðinn. Það mál var flutt dálítið persónulega. En ég hefi ekki litið svo á, að það mundi verða til sigurs neinu máli að blanda persónum inn í það. Þegar ég hefi flutt mál á þingi, þá forðast ég á allan hátt að koma nærri nokkrum manni. Í því efni held ég, að hv. þingfrú gæti lært af mér hógværð og lítillæti — svona í viðlögum.