02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (2454)

199. mál, réttur alþingismanna til að athuga fylgiskjöl með reikningum ríkisins

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég hefi látið það í ljós áður, að mér er ekki nægilegt að fá að vita, hvaða upphæð hefir verið greidd alls, því að af því einu get ég ekki dæmt um, hvernig fénu er varið. Til þess þarf sundurliðaðan kostnað, en hann hefir hæstv. ráðh. ekki viljað láta í té. Það er því ekki eingöngu, að hann hafi viljað dylja nöfn þessara manna, heldur líka, hve mikið hver maður hefir fengið. Hann hefði getað það án þess að gefa upp nokkur nöfn. En ég held því fram, að þm. eigi að hafa rétt til að afla sér upplýsinga sem þessara.

Viðvíkjandi nöfnum varalögreglumannanna, þá er það ekki svo nauðsynlegt fyrir mig að fá þau, því að þau hafa svo að segja öll verið birt í Alþýðublaðinu, en ég sé ekki ástæðu til að vera að dylja það, hverjir hafi fengið fjárhæðir úr ríkissjóði, Hinsvegar gat ég ekki gengið inn á það skilyrði ríkisstj., að gefa yfirlýsingu um að ofsækja ekki þessa menn. Ég hefi ekki ofsótt þá á neinn hátt og því er slík yfirlýsing ástæðulaus, en það er hinsvegar samþ. í félögum skipulagsbundinna verkamanna að vinna ekki með þeim, og ég, sem er formaður slíks félags, fylgi því auðvitað fram, en að öðru leyti hefi ég ekki haft afskipti af þessum mönnum, nema að láta í ljósi skoðun mína á þeirra athæfi, sem mér hlýtur að vera frjálst.

Það má nokkuð dæma vilja þingmanna af þessu, því að ef svo skyldi fara, að þingið neitaði þessu, þá mundi almennt litið svo á, að þm. ættu alls ekki aðgang að fylgiskjölum með reikningum ríkisins, en það kann að vera, að hæstv. dómsmrh. vilji gefa einhverja yfirlýsingu fyrir sitt leyti um að gefa slíkar upplýsingar með ákveðnum skilyrðum, er binda hlutaðeigandi þingmann, en það álít ég alls ekki fullnægjandi fyrir þingið.