02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (2456)

199. mál, réttur alþingismanna til að athuga fylgiskjöl með reikningum ríkisins

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er í fyrsta skiptið, sem ég heyri það frá hv. 2. þm. Reykv., að hann kæri sig ekkert um að fá að vita nöfn lögreglumannanna. Hann segir, að engin ofsókn hafi verið gerð gegn þessum mönnum. Það er nú eftir því, hvað álitið er ofsókn. Þeim hefir verið meinað að vinna, og það má hver sem vill leggja sinn skilning í það, hvort eigi að telja það ofsókn eða ekki. Ég tel það ofsókn. Það hefir ekki verið mín meining að halda því fram, að þingmönnum væri bannað að sjá reikninga yfirleitt, en ég held því fram, að það geti verið undir sumum kringumstæðum rétt að neita um það. Það er vitanlegt, að það verður að borga lögreglumönnunum miklu meira úr ríkissjóði af því, að þeim hefir verið bægt frá vinnu flestum þeirra. Nú er spurningin, hvort á að leggja hv. 2. þm. Reykv. gögn upp í hendur, til þess að gera skaða ríkissjóðs enn meiri. Ég geri það ekki, nema þingið skipi svo fyrir.

Um brtt. hv. þm. Ísaf. þarf ég ekki að ræða neitt.