02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (2458)

199. mál, réttur alþingismanna til að athuga fylgiskjöl með reikningum ríkisins

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Mér finnst ástæða sú, sem hæstv. dómsmrh. færir fyrir því að vilja ekki sýna hv. 2. þm. Reykv. nöfn þeirra manna, sem þegið höfðu kaup fyrir starf sitt við varalögregluna, alveg fullnægjandi. Það er á allra vitorði, að fyrir forgöngu hv. 2. þm. Reykv. varð til hin harðsnúna starfsemi, sem síðan lögreglan var stofnuð hefir verið haldið til streitu, að hindra það, að starfsmenn hennar fái atvinnu eða haldi henni. Oft hefir verið farin sú leiðin, að reka þessa menn úr verkalýðsfélögunum, og þó hafa þeir ekkert gert af sér, heldur haldið bæði lög og kauptaxta félaganna. Þetta var gert með atkvæðagreiðslum, og þó engan veginn ágreiningslaust, því að mikill hluti verkamanna var því mótfallinn, að menn væru ofsóttir fyrir engar

sakir og með harðræði bolað frá vinnu. Ég tel alveg sjálfsagt að neita um þá vitneskju, sem í því felst, að geta séð nöfn þeirra manna, sem hér eiga í hlut. Af því að ég hefi nú séð, að rök hæstv. ráðh. eru alveg fullnægjandi, ber ég fram till. til afgreiðslu þessa máls, og legg fyrir hæstv. forseta rökst. dagskrá, sem svo hljóðar:

„Með því að eigi þykir hafa komið fram nægilegt tilefni til þessarar ályktunar, tekur Alþingi fyrir næsta mál á dagskrá“.