06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (2471)

39. mál, ríkisféhirðisstarfið

Flm. (Jónas Jónsson):

Mér varð það ekki alveg ljóst af ræðu hæstv. ráðh., hvort hann væri með eða móti þessari till. minni. Það kom fram í ræðu hans, að hann vildi spara sem mest, en það sannar ekki mikið, því að það vilja allir ráðherrar. Nú stendur svo á, að starf er laust, og eftir þeirri reglu, sem hæstv. ráðh. gaf, þá hefði hæstv. stj. einmitt átt að grípa þetta tækifæri til samfærslu og sparnaðar. Nú virðist samt svo, sem þetta vaki ekki fyrir hæstv. stj., þar sem hún vill láta vísa málinu til sín. Svo ætlar hún að fá mann til þess að athuga það, og hafa svo óbundnar hendur um það, sem gera skuli. Það mun rétt vera, að fyrir 23 árum, þegar Landsbankinn óskaði eftir að losna við þessi gjaldkerastörf fyrir ríkið, hafi bæði Landsbankinn og útborganir ríkisins verið miklu minni en nú er. En á það má einnig benda, að nú hefir Landsbankinn 3 gjaldkera í stað þess eina, sem hann hafði þá. Og með því fyrirkomulagi, sem ég benti á, að hafa mætti á útborgunum, ef þær færu í gegnum banka, er vafalaust hægt að spara álitlega fjárupphæð, því að það mundi auka störfin í bankanum tiltölulega mjög lítið. — Ég ber þessa till. fram af því, að féhirðirinn lét af starfi sínu, og þurfi að bæta við einni eða tveimur stúlkum í Landsbankanum vegna þessarar breytingar, þá lægi auðvitað næst að taka eitthvað af þeim stúlkum, sem unnið hafa hjá ríkisféhirði, en ég held því fastlega fram, að aðalstarfið megi spara. Nú eru liðnar nokkrar vikur síðan þessi ágæti og duglegi féhirðir fór, og að því er ég bezt veit hefir útborgunarstarfið gengið alveg normalt með þeim þremur stúlkum, sem eftir eru, og sýnir það greinilega, að ekki er bein þörf á öllum þeim vinnukrafti, sem þar hefir verið. — Hæstv. ráðh. sagði, að væri gjaldkerinn fluttur, yrði að flytja ríkisbókhaldið líka. Það má vel vera, að svo sé. En mér blöskrar það ekkert, þó að 1 eða 2 menn séu við ríkisbókhaldið, en hinu held ég fram, að ekki þurfi 4-5 við útborganirnar. — Nú er það öllum ljóst, að ríkisbókhaldið væri bezt komið í stjórnarráðshúsinu sjálfu, en þar eru húsakynnin bæði slæm og ónóg, svo að því verður ekki við komið. En gott er, að bókhaldið sé sem næst stjórnarráðinu, en útborganirnar mega gjarna fara fram í banka niðri í miðjum bæ.

Ég hefi orðið þess var, að ýmsir hv. þm. hafa litið svo á, að einhver dulin meining lægi í þeim orðum grg., þar sem talað er um hið nána samband ríkisstj. og Landsbankans. Í þessum orðum liggur ekkert frá minni hendi annað en sá almenni skilningur, að Landsbankinn sé sú hjálparhella, sem ríkið styðst við. Það má telja, að ríkisgjaldkeri sé nokkurskonar útibú frá Landsbankanum, þangað er allt aðalpeningamagnið flutt, og þaðan er það sótt. En milli ríkisfjárhirzlunnar og Landsbankans er sambandið ekkert nánara nú en áður, svo að augljóst er, að þessi ummæli grg. áttu ekkert sérstaklega við núv. kringumstæður.

Ég lít svo á, að þeir, sem greiða atkv. með því að vísa till. til stj., hjálpi til þess að drepa málið, og vildi ég því mælast til, að þeir, sem á móti málinu eru, greiði hreinlega atkv. á móti því, en drepi það ekki með því að gefa dagskrártill. hæstv. forsrh. atkv. sitt.