06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (2475)

39. mál, ríkisféhirðisstarfið

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Þegar ég las þessa till., hnykkti mér við og spurði, hvað nú myndi við taka, þegar fara ætti að fella niður ríkisféhirðisstarfið, og hvort nú ætti ekki lengur að gæta ríkissjóðsins. En þegar ég kom lengra aftur í till., sá ég, að þarna var aðeins á ferð hinn venjulegi óskýrleiki hv. flm. Hann átti alls ekki við, að starfið skyldi lagt niður, heldur yrði Landsbankanum falið það, og ekki rækja það miður en hingað til hefir verið gert. Nú álít ég alveg rétt, að hæstv. stj. athugi það, þegar svo hefir borið við, að embættismaður þessi hefir nú látið af þeim störfum, hvort ekki sé unnt að koma starfinu fyrir á ódýrari hátt og þó fullnægjandi. Ég er hræddur um, að þótt einhver leið fengist þarna til sparnaðar, myndi sú ekki reynast greiðfær, sem benti í þá átt, að fela Landsbankanum starfið. Og það er vegna þess, að eins og húsrúmi bankans er nú háttað, mun reynast ókleift að bæta þar við afgreiðslustörfum svo að viðunandi megi verða, og hefir flm. bent á þetta. Þá hefir komið fram brtt. um að setja þarna „Búnaðarbanki“ í stað „Landsbanki“. Sýnir þessi till. vel, hve málið er óhugsað.

Ég vil leyfa mér að mæla með till. hæstv. forsrh., að þessu máli verði vísað til stj., en jafnframt vil ég vísa til baka að því er mig snertir öllum hugleiðingum hv. flm. um, hvernig eigi að skilja atkvgr. mína eða annara þm. í sambandi við þetta mál. Hv. flm. getur gert grein fyrir sínu atkv. í þessu máli, en aðrir fyrir sínu, ef þurfa þykir.