06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2476)

39. mál, ríkisféhirðisstarfið

Flm. (Jónas Jónsson):

Hæstv. ráðh. sagði, að það mannahald, sem nú væri hjá ríkisféhirði, væri arfur frá fyrrv. stj. Ég ætla að gefa þá skýringu, að í tíð fyrrv. stj. var breytt bókhaldi ríkissjóðs og það aðskilið meira en áður frá afgreiðslunni. Því var hægt að ætla, að töluverð minni starfskrafta þyrfti nú en áður vegna afleiðinga þessarar breyt., sem voru um það bil að koma í ljós þegar hæstv. núv. fjmrh. tók við umsjón þessara mála. Hann einn getur því bezt um það sagt, hver áhrif þetta hafði. En við því var að búast, að efling sjálfstæðs bókhalds myndi hafa þau áhrif, að hægt væri að koma við meiri sparnaði við útborganirnar. — Þá sagði hæstv. ráðh., að óþarfi hefði verið að flytja bókhaldið í skrifstofubygginguna eða byggja yfir það. Þar til er því að svara, að bygging þessi er ekki miðuð við neina sérstaka skrifstofu, heldur miðuð við, að á henni megi gera breytingar eftir því sem skrifstofurnar breytast, og það hefir t. d. verið mjög ofarlega á baugi hjá þeim mönnum, sem með Búnaðarbankann hafa að gera, að þeir myndu flytja burt bráðlega, þótt ekki hafi orðið af því ennþá. — Enginn veit það betur en hæstv. stj., að full þörf væri á því fyrir stjórnarráðið að geta haft eitthvað af sínu óhjákvæmilega starfsliði í skrifstofubyggingunni, og það var á engan hátt tekið sérstakt tillit til ríkisféhirðis við þessa byggingu, nema hvað þar er peningaskápur, sem ég býst við; að t. d. brunadeildin eða ýmsir aðrir vildu gjarnan hafa.

Þá hefir komið fram brtt. frá hv. þm. Mýr., þess efnis, að í stað Landsbankans komi Búnaðarbankinn. Ég vil styðja þetta, því að mín till. miðast hvorki við það að styðja eða skaða Landsbankann, heldur aðeins koma þessu fyrir á sem heppilegastan hátt. Vildi ég leggja til, að hv. þm. Mýr. breytti till. sinni þannig, að þar stæði „Landsbankinn eða Búnaðarbanki Íslands“. (BÁ: Ég er því samþykkur). Það álít ég sé heppilegast fyrir hæstv. stj., því að þá getur hún ráðið fram úr þessu, að athuga um að fela öðrumhvorum þessara banka starfið. Ég geng inn á þær röksemdir hv. þm. Mýr., að vel geti verið, að hægt verði að komast að betri samningum við Búnaðarbankann en Landsbankann, en þó álít ég, að rétt sé að fylgja síðari till.

Hv. 1. landsk. þarf ég ekki að svara, því ekkert sérstakt, efni var í ræðu hans.